Bændablaðið - 02.08.2018, Qupperneq 28
Bændablaðið | Fimmtudagur 2. ágúst 201828
Papaja, pápá- og sólaldin eru allt
nöfn á sama aldini. Þrátt fyrir
að stutt sé síðan aldinið fór að
sjást í verslunum hér þykir það
sjálfsagt í dag. Papaja er fyrsta
ávaxtatréð þar sem genamengi
plöntunnar var kortlagt og talsvert
hefur verið fitlað við erfðamengi
hennar. Aldinið er ber í skilningi
grasafræðinnar.
Heimsframleiðsla á papajaaldini
árið 2016 er áætluð um 13 milljón
tonn en var 12,7 milljón tonn árið
2014. Aukningin í ræktun er mest
á Indlandi og drifin af vaxandi
eftirspurn í Bandaríkjum Norður-
Ameríku.
Indland hefur lengi verið
langstærsti framleiðandi papaja í
heiminum og svo var einnig árið
2016 þegar framleiðslan þar í landi
var um 5,7 milljón tonn. Það ár var
Brasilía í öðru sæti með 1,4 milljón
tonn og Mexíkó í því þriðja með
952 þúsund kíló. Þar á eftir fylgdu
Indónesía með 904 þúsund kíló,
Dóminíska lýðveldið með 863 og
Nígería með 837 þúsund kíló. Síðan
koma lönd eins og Kongó, Kúba,
Kólumbía, Taíland og Perú með
papajaframleiðslu frá 215 og niður
170 þúsund kíló árið 2016.
Mexíkó, Brasilía og Indland eru
þau lönd sem flytja út mest magn
af papaja en Bandaríki Norður-
Ameríku, Þýskaland og Kanada þau
lönd sem flytja mest inn.
Samkvæmt upplýsingum á vef
Hagstofunnar voru flutt inn 9,835
kíló, rétt tæp tíu tonn, af papaja eða
pápáaldini, eins og aldinið kallast
í tollskrá, árið 2017. Mest var flutt
inn frá Brasilíu, rúm 2,8 tonn,
Víetnam 1,6 og Spáni 1,3 tonn, um
950 kíló frá Taílandi og 822 kíló frá
Bandaríkjunum. Milli 400 og 500
kíló voru flutt inn frá Dóminíska
lýðveldinu, Kólumbíu og Ekvador.
Ættkvíslin Carica
Einungis 20 til 25 tegundir teljast til
ættkvíslarinnar Carica og allar eru
þær upprunnar í hitabeltinu milli
syðri hluta Mexíkó og Mið-Ameríku.
Allar eru tegundirnar sígrænar með
tiltölulega breiðan stofn miðað við
hæð sem er milli fimm og tíu metrar að
hæð. Tegundir innan ættkvíslarinnar
eru fjölærar en skammlífar og lifa
yfirleitt ekki lengur en í tuttugu ár í
náttúrunni.
Þekktust þessara tegunda utan
upprunasvæða er C. papaya sem á
íslensku kallast eftir smekk papaja,
sólaldin eða pápáaldin.
Papaja, sólaldin eða pápáaldin
Þrátt fyrir að flestir líti á C. papaya
sem tré er plantan í raun stórvaxin jurt.
Stöngullinn líkist stofni pálmatrjáa
og nær átta til tíu metra hæð en er
lægri í ræktun. Yfirleitt einstofna,
greinalaus og myndar ekki við og
stofninn eða öllu heldur stöngullinn
svampkenndur. Plantan er sægrænn
og með trefjarót.
Efst á stofninum er hvirfing
stórra gróftenntra og margflippaðra
laufblaða á löngum stilk sem eru allt
að metri að lengd. Blómin stór og
hvít og þríkynja því til eru blóm með
frævum og fræflum saman eða hvort
í sínu lagi. Fræflarnir margir saman
á löngum stilk. Frævurnar tíu saman
í hverju blómi sem er með fimm
stjörnu- og lúðurlaga og kjötkenndum
krónublöðum. Blóm sem einungis
hafa fræfla mynda ekki aldin en blóm
með frævum geta myndað lítil og óæt
aldin án frjóvgunar. Tvíkynjablóm
eru sjálffrjóvgandi.
Aldinið safaríkt og sætt ber, grænt,
gult eða rautt, yfirleitt ílangt, hnöttótt
eða perulaga, 15 til 45 sentímetrar
að lengd og 10 til 30 sentímetrar í
þvermál og allt að 12 kíló að þyngd
eftir afbrigðum. Vaxa mörg saman
í hnapp efst og þétt við stofninn.
Þyngsta papajaaldin sem mælst hefur
var rúm 18,8 kíló.
Í aldininu er fjöldi svartra og
yfirleitt hrukkóttra fræja umlukin
slímkenndri húð. Fræin geta verið á
stærð við baunir.
Talið er að C. papaya sé blendingur
tveggja eða fleiri tegunda innan
ættkvíslarinnar Carica. Upprunnin
í Mexíkó og norðurhluta Suður-
Ameríku en finnst einnig á eyjum í
Karíbahafinu, Flórídaskaga, Texas og
Havaíeyjum. Í dag er tegundin ræktuð
í hitabeltinu hringinn í kringum
jörðina.
HELSTU NYTJAJURTIR HEIMSINS
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is