Bændablaðið - 02.08.2018, Síða 29

Bændablaðið - 02.08.2018, Síða 29
Bændablaðið | Fimmtudagur 2. ágúst 2018 29 Útbreiðsla og saga Fyrstu kynni Evrópumanna af papaja voru snemma á sextándu öld. Spánverjinn Oviedo sem var námustjóri á Haítí 1513 til 1525 skrifaði bréf heim þar sem segir að skipstjórinn Alphonse de Valverde hafi flutt með sér fræ frá eyjum í Vestur-Indíum. Seinna kom í ljós að um fræ papajaplöntunnar var að ræða. Frá Haíti og Vestur-Indíum fluttu Spánverjar papajafræ með sér til Filippseyja og þaðan bárust fræin með Spánverjum eða Portúgölum til austanverðrar Malasíu. Ef marka má hollenska grasafræðinginn Rheed, sem var um tíma landstjóri Srí Lanka, barst fræið til Indlands milli 1580 og 1590. Það var ekki fyrr en rúmum hundrað árum seinna sem fyrstu papajafræin bárust til Evrópu með kaupskipum frá Indlandi. Árið 1652 pantaði Jan van Riebeeck, stofnandi Höfðaborgar í Suður-Afríku, papajafræ frá Indlandi og hóf tilraunir með ræktun þeirra þar og er það upphaf papajaræktunar í Afríku. Ræktun á papajaaldinum hófst á Havaíeyjum snemma á átjándu öld. Nafnaspeki Latneska tegundarheitið papaya kemur úr spænsku og er þangað komið úr Karib sem er tungumál Kalina-fólksins, papáia, sem er í dag um 7.500 að tölu og finnst flest í Venesúela, Trínidad og Tóbagó. Í Brasilíu kallast aldinið mamao og fruita de bomba á Kúbu og er um leið slanguryrði fyrir rassstórar konur. Í Kúbu er papaya aftur á móti klúryrði fyrir sköp kvenna. Kristófer Kólumbus kallaði papaja aldin englanna. Aldinið kallast papaya á flestum tungumálum en auk þess á þýsku baummelon, á dönsku træmelon og pawpaw eða pawpae á ensku. Á íslensku er aldin plöntunnar kallað pápáaldin í tollskrá og líklega dregið af enska heitinu pawpaw. Pawpaw er einnig heiti á trjátegund sem vex í Norður-Ameríku og kallast Asimina triloba á latínu og gefur af sér aldin sem svipar til papaja en er alls óskyld tegund. Aldinið kallast sólaldin í Orðabanka íslenskrar málstöðvar en papaja í daglegu tali og kæliborðum verslana. Ræktun og erfðabreytingar Fræin spíra auðveldlega og planta yfirleitt ræktuð upp af fræi og getur náð tíu metra hæð á innan við þremur árum og byrjar að mynda aldin á fyrsta til þriðja ári sem ná fullum þroska á fimm til níu mánuðum eftir aðstæðum. Papajaplöntur eru hitakærar og dafna best milli 21 til 32° á Celsíus. Þær þola ekki frost undir -2° á Celsíus. Plantan kýs vel framræstan og sandríkan jarðveg, pH 5,5 til 7,0, og plantan þolir alls ekki að standa í vatni. Vex best í hitabeltinu en dafnar á milli 32° norðlægrar og suðlægrar breiddar. Eingöngu kvenplöntur eru ræktaðar til aldinframleiðslu og frjóvgaðar með karlplöntum. Í ræktun er plöntunum í grófum dráttum skipt í tvennt. Papaja frá Mexíkó og papaja frá Havaíeyjum. Havaípapaja er minna og perulaga, með gula húð og aldinkjöt. Mexíkópapaja er stærra, gult eða rautt og sætara á bragðið og með rauðleitt eða appelsínugult aldinkjöt. Í báðum tilfellum er aldinið tínt á meðan það er grænt og látið fullþroskast eftir tínslu. Til er fjöldi afbrigða og yrkja í ræktun og eru þau misjöfn af stærð. Dæmi um afbrigði eru 'Maradol', 'Sunrise' og 'Caribbean Red' sem öll gefa stór aldin með rauðleitu aldinkjöt og aðallega ræktuð í Mexíkó og Belís. Aldinkjöt 'Hortus Gold' og 'Honey Gold' er gulleitt mikið ræktuð í Afríku. Líkt og í annarri stórræktun leggjast ýmsar óværur á papaja hvort sem það eru pöddur, sveppir, bakteríur eða vírusar. Talsvert hefur verið fitlað við erfðaefni papajaplöntunnar og er hún fyrsta ávaxtatréð þar sem erfðamengið var kortlagt. Árið 1998 var samþykkt að setja á markað á Havaíeyjum erfðabreytt papajaafbrigði, meðal annarra 'SunUp' og 'Rainbow'. Afbrigðin voru hönnuð til að þola ágang víruss sem veldur hringlaga rotblettum á aldinum og verulegum uppskerubresti. Í dag er langstærstur hluti papajaaldina sem ræktuð eru á Havaíeyjum erfðabreytt. Aldinin eru viðkvæm og uppskorin með höndum og verður að gæta þess að húð þeirra skemmist ekki við meðhöndlun. Næringarefnainnihald Papajaaldin eru 88% vatn og um 11% kolvetni. Þau innihalda enga fitu og lítið prótein. Hundrað grömm eru sögð gefa 43 kílókaloríur og um 75% af ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni og talsvert af D-vítamíni og járni en að öðru leyti er aldinið næringarefnasnautt. Nytjar Papajaaldin var á öldum áður notað til lækninga á Indlandi og þótti gott að smyrja aldinkjötinu á legusár til að græða þau. Te úr papajalaufi er sagt gott við malaríu, hjarta- og magastillandi. Þroskað papaja er sagt gott við iðraormum og óþroskað til að lækka blóðþrýsting og fræið er sagt gott við þembu og verkjastillandi. Plantan myndar latex eða mjólkursafa sem hefur verið notað í tyggigúmmí og annað sælgæti. Úr pressuðum papaja er unninn ávaxtasafi og bruggaður bjór. Papajasafi er sagður góður til að eyða vörtum og siggi. Úr berki stönglanna eru ofnir kaðlar og reipi og sagt er að gott sé að tyggja innra lag hans við tannverk. Sagt er að konur víða í Asíu hafi unnið úr plöntunni getnaðarvarnalyf og lyf til fóstureyðingar. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að í plöntunni er að finna efni sem geta haft áhrif á hvort tveggja. Papaja er því aldin sem konur ættu að forðast á meðgöngu. Í aldininu er efni sem getur valdið ofnæmisviðbrögðum hjá viðkvæmu fólki. Aldinkjötið er gott hrátt til átu eitt og sér eða í salati og pottréttum. Í Indónesíu er bæði aldinið og laufblöðin notuð í salat og blómin léttsteikt á pönnu með chili og tómötum. Aldinið er gott í sultur og sums staðar í Asíu eru blöðin soðin og borðuð eins og spínat eða þurrkuð og reykt. Papajaaldin er vinsæll morgunverðarmatur víða um heim. Sagt er að gott sé að láta kjöt liggja í aldinkjöti græns papaja til að meyra það. Fólk sem borðar mikið papaja getur orðið appelsínugult. Fræin eru æt en bragðsterk og séu þau þurrkuð er hægt að mylja þau og nota líkt og svartan pipar. Papaja á Íslandi Lengi vel þekktist papajaaldin hér á landi helst sem hitabeltisávöxtur sem nefndur var í skáldsögum og ferðalýsingum. Í auglýsingu í Morgunblaðinu frá því í júní 1989 auglýsir Vetrarbrautin, sem var hluti af skemmtistaðnum Þórscafé, á matseðli innbakaða sniglakæfu með papaja og mintusósu, kjötseyði með linsoðnu ritueggi og hundasúrukrapís með kampavíni í forrétt. Gljáða lambahnetusteik með jarðsveppum í madeirasósu í aðalrétt og ástríðuávaxta mandarínufrauð í túlípana. Allt fyrir 2.985 krónur. Árið 2001 birtist greinarkorn í DV þar sem því er slegið upp að papajaávöxturinn geti innihaldið efni sem gæti nýst í baráttunni við krabbamein. „Nú keppast hópar vísindamanna um allan heim við að verða fyrstir til að búa til eftirlíkingu af efni sem finnst í papajaávöxtum. Ástæðan fyrir þessu kapphlaupi er sú að slíkt efni er talið geta drepið krabbameinsfrumur. Stutt er síðan efnið í papaja- ávöxtunum fannst og er það í litlum skömmtum í hverjum ávexti. Reyndar er náttúrulega efnið baneitrað þar sem það drepur ekki aðeins krabbameinsfrumur heldur heilbrigðar frumur líka. Rannsóknir ganga því út á það að búa til eftirlíkingu af efninu sem á eingöngu að virka á móti krabbameinsfrumunum. Að sögn dr. Richard Brown, sem stjórnar rannsóknarhópi við háskólann í Southampton í Englandi, vonast hann til að hópnum takist að gera eftirlíkingu af einu af einfaldari formum efnisins innan nokkurra mánaða.“ Þar sem papaja er hitakært er það vandasamt í flutningum og þolir illa kæligeymslu og því ráðlagt að geyma aldinið við stofuhita en ekki í kæli. Upp úr aldamótunum 2000 fer að bera á papaja og fleiri suðrænum ávöxtum í umfjöllunum og auglýsingum fjölmiðla og aldin sem ekki fyrir löngu þótti forvitnileg nýjung á makaði þykir sjálfsagt í dag.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.