Bændablaðið - 22.03.2018, Page 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. mars 2018
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Íslenskir stjórnmálamenn bera ábyrgð
á skiptingu tekna samfélagsins til
samfélagslegra verkefna. Meðal þeirra
eru samgöngumál, sem líka hafa mikil
áhrif á útgjöld samfélagsins vegna
heilbrigðismála. Það er vissulega
fagnaðarefni að stjórnvöld skuli nú
vera að vakna til vitundar um að
þarna þurfi að taka til hendi, ekki síst
í samgöngumálum.
Í báðum þessum málaflokkum hefur
verið pottur brotinn í fjölda ára. Í raun er
svo komið að vegakerfið er svo illa farið
að kostnaður samfélagsins af uppbyggingu
þess verður mun meiri en þurft hefði
ef eðlilegu viðhaldi hefði verið sinnt.
Ráðherrar liðinna ára hafa borið því við
að önnur mikilvægari verkefni hafi verið
framar í forgangsröðinni, eins og lækkun
skulda þjóðarbúsins. Vissulega má færa
rök fyrir slíku, en að trassa viðhald og
eðlilega uppbyggingu þjóðvegakerfisins
er fáránleg hagfræði. Með slíku er einungis
verið að sópa vanda undir teppið, sem
veldur auknum kostnaði síðar. Þetta er nú
berlega að koma í ljós og útúrsnúningar
stjórnmálamanna undanfarin misseri á
gagnrýni á slóðahátt í samgöngumálum
eru farnir að hljóma ansi aulalega í eyrum
kjósenda þeirra.
Á þriðjudag opnaði Sigurður Ingi
Jóhannsson samgönguráðherra aðgang
að gagnagrunni EuroRAP þar sem hægt
verður að skoða stjörnugjöf EuroRAP fyrir
íslenska þjóðvegakerfið. FÍB hefur annast
framkvæmd EuroRAP-öryggisúttektarinnar
á þeim 4.200 km af þjóðvegum landsins
sem búið er að skrá í gagnagrunn EuroRAP.
Samkvæmt þessu kerfi, sem lýsir
m.a. öryggisstöðlum fyrir vegakerfið, er
ástand íslenska vegakerfisins hörmulegt.
Um 75% af íslenska vegakerfinu eru með
eina eða tvær stjörnur í öryggisúttekt
EuroRAP. Með öðrum orðum eru 75%
vegakerfisins meira og minna ónýt.
Einungis 25% íslenskra vega eru með
þrjár stjörnur eða meira. Markmiðið
er hins vegar að allir vegir verði að
lágmarki með þrjár stjörnur.
Fyrir hverja eina stjörnu sem vegur
uppfærist um sýnir reglan að slysum fækkar
um helming. Á árunum 2013-2017 fórust
69 í umferðinni og 936 slösuðust alvarlega.
Það kom fram í máli Sigurðar Inga
Jóhannssonar samgönguráðherra að það
væri óviðunandi hversu margir farast í
umferðinni og verða fyrir alvarlegum
meiðslum. Enda hefur verið sýnt fram á
það, m.a. í Bændablaðinu, að hvert einasta
alvarlegt slys getur kostað hundruð milljóna
króna.
Það er alveg ljóst samkvæmt þessu að
hagfræðin sem íslenskir stjórnmálamenn
hafa unnið eftir á liðnum árum við rekstur
þjóðarbúsins fær algera falleinkunn hvað
þetta varðar. Lélegir vegir þýða nefnilega
aukin útgjöld heilbrigðiskerfisins og lélegt
viðhald vega þýðir aukin útgjöld fyrir
framtíðina, bæði í samgöngumálum og
heilbrigðismálum. Þarna hafa menn ekki
bara verið að pissa í skóna sína í von um
að geta sýnt fram á skammtímavarma í
þjóðhagsspám, heldur væri nær að tala um
að menn hafi þarna skitið í skóna sína og
langt upp á bak.
Í ljósi þessa er það mikið fagnaðarefni
að núverandi samgönguráðherra ætli sér að
setja aukið fjármagn í samgöngumálin og
er ljóst að þar verður strax að hefjast handa.
Vonandi mun Sigurður Ingi knýja þetta mál
áfram af fullri hörku, hvort sem það verður
gert með erlendri lántöku eða á annan hátt.
Það skiptir líka öllu máli fyrir ört vaxandi
ferðamannastraum á þjóðvegum landsins.
Þarna eru menn að tala um fjármagnsþörf
upp á hundruð milljarða króna á næstu
árum. /HKr.
Döpur staða
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Kjarlaksvellir í Hvammsdal. Mynd / Hörður Kristjánsson
Fjórir stjórnmálaflokkar af átta sem sitja á
Alþingi hafa haldið landsþing eftir síðustu
þingkosningar, tveir stjórnarflokkar og
tveir stjórnarandstöðuflokkar. Stundum
er ekki mjög skýrt hvað samþykktir slíkra
funda segja í raun og veru og það er afar
mismunandi hvað flokkarnir eyða mörgum
orðum í landbúnaðinn með beinum hætti.
Samfylkingin hélt sinn fund í byrjun mars.
Í stjórnmálaályktun fundarins er ekki fjallað
neitt um landbúnað eða dreifbýlið, en hægt
er að finna landbúnaðarstefnu á vef flokksins
sem er hluti af skjalinu „Eitt samfélag fyrir
alla“ sem einnig var afgreitt á landsfundinum.
Inngangurinn þar er eftirfarandi:
„Mikil sóknarfæri eru í landbúnaði og
liggja þau m.a. í þróun matvæla, tengslum
við ferðaþjónustu og skógrækt. Endurskoða
skal búvörusamninga með það að markmiði
að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja
neytendum sanngjarnt verð og gæði. Draga
þarf úr samtengingu framleiðslu og stuðnings
ríkisins og færa stærri hluta stuðnings við
landbúnað til sjálfbærrar nýtingar landsins …“
Ekki er þarna fjallað um mál sem brunnið
hafa á landbúnaðinum síðustu mánuði
eins og niðurstöðu EFTA-dómstólsins og
sauðfjárræktina en síðar í kaflanum er lagt
til að tollar verði lækkaðir, en einnig lagt
til að ríkið setji sér matarstefnu sem taki
mið af sjálfbærni í matvælaframleiðslu,
loftslagsmálum, næringu, lýðheilsu og
félagslegum þáttum.
Taka má heils hugar undir hugmyndir um
matarstefnu en bændur eru ekki sammála
hugmyndum um frekari lækkun á tollum.
Fyrri punktarnir geta þýtt ýmislegt og óljóst
hvernig flokkurinn myndi vilja framkvæma
þá ef hann fengi umboð til þess en taka má
undir sumt í þeim.
Viðreisn og Framsókn á öndverðum meiði
Viðreisn og Framsóknarflokkurinn héldu sína
fundi viku seinna. Fulltrúar Viðreisnar hafa
verið duglegir að tjá sig á Alþingi um málefni
landbúnaðarins og í þessari viku var formaður
flokksins að spyrja landbúnaðarráðherra um
útflutningsskyldu í sauðfjárrækt, í því skyni
að fullvissa sig um að ráðherra hefði engar
fyrirætlanir að koma henni á. Því miður tók
ráðherrann undir það. Í stjórnmálaályktun
fundarins er þó ekkert sérstaklega um
landbúnað fjallað, en fram kemur að afnema
eigi samkeppnishindranir á innlendum markaði
svo sem í landbúnaði, fjölmiðlun og smásölu
áfengis. Í atvinnumálastefnu flokksins (sem er
eldri) er talað um að hætta allri framleiðslu- og
sölustýringu í landbúnaði en veita búsetu- og
svæðisstyrki. Um það er og verður ágreiningur
á milli bænda og flokksins.
Framsóknarflokkurinn segir eftirfarandi
í sinni stjórnmálaályktun um landbúnað:
„Sjávarútvegur og landbúnaður eru
grunnatvinnuvegir landsins og traustar stoðir
í byggðum þess. Greinarnar þurfa ávallt að
búa við sanngjörn starfsskilyrði. Tryggja þarf
samkeppnishæfni þeirra og leggja áherslu á að
styðja við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun.
Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar
framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess
að nýta betur innlend aðföng eftir því sem
hægt er.“
Þetta er jákvæður almennur texti sem
túlka má með mismunandi hætti og ekki
er þarna fjallað heldur um sauðfjárræktina
eða tollamálin. Hins vegar er mjög skýrt
að orði kveðið í ályktun um byggðamál um
hráakjötsmálið sem er eftirfarandi: „Í ljósi
dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á
hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum
og eggjum er ljóst að vegið er að íslenskum
búfjárstofnum og lýðheilsu Íslendinga.
Framsóknarflokkurinn vill að bann við
innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk
og eggjum verði áfram tryggt í íslenskum
lögum.“ Þetta er í góðu samræmi við ályktun
nýliðins Búnaðarþings.
Sjálfstæðisflokkurinn vill samkeppni og
markaðslausnir
Sjálfstæðisflokkurinn fundaði um síðustu
helgi og fjallar sérstaklega um landbúnaðinn
í ályktun um atvinnumál.
„Landbúnaður á Íslandi er burðarás í
atvinnulífi hinna dreifðu byggða í landinu.
Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja
til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni,
fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf
frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda
og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og
fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um
dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja
skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða
feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda
bústofna. Traust umgjörð um merkingar á
búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni
bænda og og neytenda.
Tryggja verður matvælaöryggi og
fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður
sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og
gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Tvíhliða
samningar um gagnkvæman markaðsaðgang
fyrir landbúnaðarafurðir fela í sér sóknarfæri
fyrir íslenskan landbúnað og auka valfrelsi
neytenda. Íslenskur landbúnaður er í daglegri
samkeppni við erlendan ríkisstyrktan
landbúnað. Atvinnugreinin þarf sjálf að
hafa tæki til að takast á við sveiflur og
vinna að langtímahagsmunum neytenda
og bænda. Framleiðslutakmarkanir þarf að
útfæra þannig að þær stuðli að hagræðingu
og framleiðniaukningu. Hágæðaafurðir
og ímynd landsins gefa landbúnaðinum ný
tækifæri innanlands og erlendis. Ferðamenn
sem heimsækja landið sækjast eftir afurðum
úr héraði og breiða út orðspor þeirra þegar
heim er komið. Stefna ber að því að draga úr
opinberum stuðningi við landbúnað og vinna að
því að hann geti starfað á markaðsforsendum,
meðal annars með því að stuðla að lækkun
tilkostnaðar á öllum stigum framleiðslunnar.
Þá þarf að tryggja heilbrigða samkeppni með
landbúnaðarvörur, þá sérstaklega mjólkurvörur,
með það að markmiði að auka vöruúrval og
bæta hag neytenda.“
Þarna er margt sem má taka undir sem
ráðherra málaflokksins úr Sjálfstæðisflokknum
tekur vonandi til sín. Þó er ýmislegt mjög opið
fyrir túlkunum og stundum getur verið erfitt að
átta sig á hvað þessi stefna þýðir, en punktar
um matvæla- og fæðuöryggi, að tryggt sé að
innflutningur feli ekki í sér sýkingarhættu og
fleira, en ýmislegt annað orkar tvímælis.
Tökum þátt, fræðum og spyrjum spurninga
Allt að einu þá er rétt að hvetja bændur og
aðra lesendur, hvar í flokki sem þeir standa til
þess að taka þátt í stjórnmálastarfi og vinna
ávallt að því að auka skilning á landbúnaðinum
í stjórnmálunum og í samfélaginu almennt.
Nýtið endilega tækifærin til að ræða þessi mál
við þingmenn og ráðherra og spyrjið þá um
þeirra sýn og á landbúnaðinn – Hvert ætla þeir
með hann – bæði þeir sem nú stjórna og þeir
sem gera það ekki?
Menn þurfa ekki að vera sammála gildandi
landbúnaðarstefnu hverju sinni en verða að
skilja að breytingar verður að hugsa til hlítar
og vita hvernig menn ætla að ná þeim fram –
ekki bara með almennum orðum.
Sindri Sigurgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
sindri@bondi.is
Stjórnmálaöflin líta ólíkum augum á íslenskan landbúnað
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins:
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621