Bændablaðið - 22.03.2018, Síða 46

Bændablaðið - 22.03.2018, Síða 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. mars 2018 LESENDABÁS Landsvirkjun og íslenskur iðnaður Starfsmenn Landsvirkjunar kynntu á haustfundi 2017 að hlýnun Jarðar gæti haft jákvæð áhrif á raforkukerfið þar sem bráðnun jökla mun auka flæði jökuláa og möguleikann á virkjun vatnsafls. „Það hefur alltaf verið mikil framhjárennsli í íslenska kerfinu og það mun halda áfram að vera svo, og ef spár loftslagsvísindamanna rætast mun framhjárennslið aukast.“ Svo segir einn starfsmaður Landsvirkjunar. Bætt nýting uppistöðulóna er gott og göfugt markmið hjá Landsvirkjun. Yfir sumartímann nær t.d. Búrfellvirkjun ekki að anna öllu rennslinu og um 14% rennur framhjá, þess vegna er verið að útbúa þar viðbótarvirkjun sem nýtir þetta framhjárennsli og býr til úr því rafmagn án þess að bæta við nýjum lónum eða raska gróðurlendi. Einnig var gott að heyra um áform um að Landsvirkjun hyggist binda meira kolefni en hún losar og sé að undirbúa orkuskipta- og rafmagnsvæðingu bílaflota landsmanna og taki þannig virkan þátt í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þetta eru sjálfbærar áherslur og lýsa ríkri samfélagsábyrgð fyrirtækisins. Allt er þetta undirstrikað í rafrænni ársskýrslu fyrirtækisins sem tilbúin var í febrúar. En betur má ef duga skal, það vantar að bæta fjárfestingasiðferðið. Það er ekki gott að að stór hluti fjárfestinga Landsvirkjunar skuli vera til komnar vegna framleiðslu á rafmagni fyrir ósjálfbær og mengandi iðnfyrirtæki. Það varpar skugga á sjálfbærniáherslur sem kynntar eru í ársskýrslu fyrirtækisins að enn séu gerðir samningar um ódýra orku til fyrirtækja sem auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda Íslands. Slíkt er hvorki í anda heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna sem Landsvirkjun hefur tekið í fóstur né loftslagsmarkmiða sem Ísland hefur sett sér. Forstjóri Landsvirkjunar sagði í erindi sínu á haustfundinum 2017 að svokölluð stóriðja sé inni í ETS, sem er viðskiptakerfi Evrópu með loftslagsheimildir, „sem er að virka vel“ og afgreiddi með þeim orðum losun frá mest mengandi starfsemi á Íslandi. Það má túlka orð forstjórans þannig að sú mengun komi sjálfbærnimarkmiðum og viðskiptum Landsvirkjunar ekki við. Þó er verulega óljóst hvort ETS kerfið „virki vel“ eða muni á endanum gera nokkuð gagn í loftslagsmálum. Þegar fram í sækir verður meira freistandi fyrir fjárfesta og eigendur iðnfyrirtækja að flytja þau frá Evrópu (e. carbon leakage) fremur en að greiða hærra verð fyrir losunarkvóta eða fjárfesta í mengunarvörnum. Þannig hefur ETS kerfið í raun frestað því að fulltrúar stjórnvalda taki á losunarvandanum og eftir sitja Íslendingar með mengandi stóriðju og engan árangur í loftslagsmálum. Tilgangur Landsvirkjunar er að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Það er því stjórn fyrirtækisins sem markar stefnuna og fyrirtækinu ber síðan að greiða fjárhagslegan arð til eigandans, sem er íslenska ríkið. En arðgreiðslur verða því lægri eftir því sem Landsvirkjun þarf að fjárfesta í nýjum virkjunum til að anna eftirspurn vegna nýrrar erlendrar stóriðju. Oft í ósamræmi við samfélagsáherslur og sjálfbærnimarkmið fyrirtækisins. Stjórn Landsvirkjunar getur gert mun betur og hlúð að áherslum sínum og markmiðum með því að stighækka orkuverð til mengandi iðnaðar og stuðla þannig beint sem óbeint að eflingu atvinnugreina sem styðja við sjálfbærnimarkmið. Líkt og Landsvirkjun býður upp á samninga við gagnaver eins og Advania, ætti að reyna að bjóða upp á gjaldskrá með ódýrari orkuverðum fyrir fyrirtæki sem tengist sjálfbærum rekstri hvers konar eða vistvænni matvælaframleiðslu. Stuðningur Landsvirkjunar við sjálfbæran íslenskan smáiðnað, nýsköpun, tækni og þróun gæti orðið ein besta fjárfesting fyrirtækisins fyrir samfélagið sem það á að þjóna. Um leið dreifist áhætta í fjárfestingum og rekstri fyrirtækisins á fleiri greinar og verður lyftistöng fyrir íslenskt hugvit sem nýtir endurnýjanlega innlendrar orku. Þannig má segja tími sé kominn til að Landsvirkjun fjárfesti í mannauði Íslendinga. Albert Svan Sigurðsson. Höfundur er umhverfis- landfræðingur og varamaður í stjórn Landsvirkjunar. Albert Svan Sigurðsson. Það varpar skugga á sjálfbærniáherslur sem kynntar eru í ársskýrslu fyrirtækisins að enn séu gerðir samningar um ódýra orku til fyrirtækja sem auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda Íslands. Stuðningur Landsvirkjunar við sjálfbæran íslenskan smáiðnað, nýsköpun, tækni og þróun gæti orðið ein besta fjárfesting fyrirtækisins fyrir samfélagið sem það á að þjóna. Afleiðingar tollasamnings við ESB Haustið 2015 var skrifað undir tollasamning við ESB sem kveður á um heimildir til innflutnings á ákveðnu magni af kjöti og mjólkurvörum, en samningurinn á að taka gildi nú í vor. Íslendingar geta þar með flutt inn jafnmikið og þeir flytja út af umræddum vörum, sem sagt kíló á móti kílói. Þetta á að vera tækifæri fyrir bændur, í það minnsta voru það orð þáverandi landbúnaðarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, það sagði hann í mín eyru þegar ég hitti hann skömmu eftir undirskrift umrædds samnings. Mér er það mjög til efs að þetta skapi íslenskum bændum tækifæri, 500 milljóna manna Evrópumarkaður er yfirfullur af kjöti og hvernig við eigum að komast þar inn með nokkurn hlut get ég ekki með nokkru móti séð, í það minnsta yrði verðið ekki hátt. Matvælaframleiðsla kostar peninga Það kostar að framleiða mat, ódýr matur er ekki eftirsóknarverð vara, sé hann ódýr er hann mjög líklega framleiddur við aðstæður sem Íslendingar geta tæplega sætt sig við, verksmiðjuframleiðsla þar sem lyfjum er dælt í skepnurnar með fóðrinu og aðstæður ekki boðlegar. Mikil sýklalyfjanotkun í land- búnaði er orðið mikið vandamál víða um heim og upp eru komnar bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og á þetta vandamál aðeins eftir að magnast ef ekki verður tekið í taumana. Lyfjanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því allra minnsta sem gerist í heiminum, íslensku kúa- og sauðfjárstofnarnir eru lausir við dýrasjúkdóma sem eru landlægir víða annars staðar og mikill árangur hefur náðst í bæði svína- og kjúklingarækt svo eftir er tekið. Þetta eru mikil verðmæti, en því miður virðist ekki vera mikill skilningur á þeirri staðreynd meðal þeirra sem vilja gefa innflutning á kjöti og mjólkurafurðum frjálsan, flytja inn hrátt ófrosið kjöt og ógerilsneyddar mjólkurvörur. En víkjum aftur að tolla- samningnum. Hann kveður á um innflutning á ákveðnu magni af kjöti og mjólkurvörum. Þetta getur þýtt að álíka margir og framleiða mjólk í sveitum Flóans myndu hætta búskap, vandi sauðfjárbænda myndi aukast, svína- og kjúklingabú yrðu fyrir miklum skaða og framleiðendur detta út. Þeir sem myndu líklega detta fyrst út eru minni framleiðendur þar sem rekin eru hóflega stór fjölskyldubú, einmitt þær einingar sem eru kjarninn í hverri sveit. Svo ég haldi áfram að taka Flóann sem dæmi þá eru hér rekin bæði kjúklinga- og eggjabú, hér er nokkur fjöldi sauðfjárbænda, milli 30 og 40 mjólkurframleiðendur og nautakjötsframleiðendur fjölmargir. Þessir bændur skapa mikla undirstöðu og mynda ásamt öðru það samfélag sem fólki þykir gott að búa í og hefur verið eftirsóknarvert. Verði þessi bú fyrir miklu tapi vegna óþarfs innflutnings yrði þetta samfélag fyrir miklu áfalli bæði efnahagslega og menningarlega. Þannig er staðan um allt land, ekki aðeins í Flóanum, hann tek ég sem dæmi um samfélag sem ég þekki og sem byggir að stórum hluta á landbúnaði. Ef framleiðsla bænda skerðist eða verð á bæði mjólk og kjöti lækkar meira en orðið er, er vandséð hvernig á að takast á við það. Mjólkurverð til bænda hefur ekki hækkað í neinum takti við hækkanir á aðföngum og bændur hafa ekki hækkað í launum undanfarin ár eins og aðrar stéttir í landinu hafa gert, við bændur eigum bara að framleiða meira og vinna lengur. Verð á lambakjöti hefur lækkað það mikið að launaliður bænda er hreinlega horfinn. Ég get ekki séð hvernig þetta getur gengið til lengdar og ég óttast að margir fari út úr búskap verði engin breyting á. Tollasamningurinn er svo ekki til að bæta ástandið, verði hann látinn óáreittur og hingað hellist yfir aukinn innflutningur mun landbúnaðurinn holast það mikið innan að ekki verður lífvænlegt að framleiða kjöt eða mjólk. Hver vill vinna alla daga ársins og fá lítið eða ekkert kaup? Bændur geta ekki gert það frekar en aðrar stéttir. Það er býsnast yfir því að hingað sé flutt inn fólk sem ekki er borgað nógu hátt kaup, en í landinu er stétt sem á að vinna við að framleiða mat ofan í þjóðina í samkeppni við erlenda framleiðslu og hafa ekkert út úr því. Þetta er skrýtið. Svo vill kaupmannastéttin flytja hér inn mat í stórum stíl sem framleiddur er af fólki sem ekki fær mikið borgað fyrir sína vinnu. Nei, vitleysan ríður ekki við einteyming. Hart sótt að bændastéttinni Það er hart sótt að bændastéttinni, til okkar eru eðlilega gerðar miklar kröfur um aðbúnað dýra en maturinn sem við framleiðum má helst ekkert kosta. Það er endalaus jarmur um það í þjóðfélaginu að matur á Íslandi sé mjög dýr. Ég fullyrði að hann er ekkert dýrari en annars staðar, það fer nú oft saman matarverð og launakjör fólks í viðkomandi landi. Það eru auglýst lambalæri hér í búðum á innan við 1.000- kr kílóið. Þetta er gjafverð og er í raun til háborinnar skammar. Bóndinn er ekki að fá mikið í sinn hlut, svo mikið er víst. Íslendingar eyða u.þ.b. 12 % af sínum launum í mat og þar af er aðeins helmingur af því sem fer í að kaupa íslenskan mat. Þetta er lægra hlutfall en víðast hvar annars staðar. Atvinnuöryggi bænda í hættu Atvinnuöryggi bænda er stefnt í mikla hættu, bæði vegna tollasamningsins og ekki síður vegna úrskurðar EFTA-dómstólsins varðandi innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum, sem getur ógnað okkar hreinu dýrastofnum. Það er alveg með ólíkindum ef þjóðinni er sama, til þess eins að mega flytja inn meiri mat. Það er látið í veðri vaka að þetta sé gert fyrir neytendur, til að fólk eigi kost á ódýrari matvælum og hafi val um hvað og hvaðan það kaupir. Það er látið eins og neytendur séu einhver afmarkaður hópur í þjóðfélaginu, en við erum öll í sama bát og eigum að róa í sömu átt. Neytendur eru öll þjóðin, það hlýtur að vera okkar hagur að framleiða hér allt sem við getum, hvort sem það eru dýraafurðir eða grænmeti, í því felst öryggi og varan sem íslenskir bændur framleiða er gæðavara sem stendur fremst vegna heilnæmi hennar og ferskleika. Hvers eiga íslenskir bændur að gjalda að vera í eilífu stríði við verslunarauðvaldið sem vill ná hér öllu undir sig? Það fara saman hagsmunir bænda og þjóðarinnar allrar, en því miður er hópur manna sem skirrist ekki við að brjóta niður þessa framleiðslu í nafni frelsis og neytendaverndar. Það er raunveruleg hætta á því að landbúnaðurinn verði fyrir miklum skaða gangi þetta eftir sem ég hef drepið á. Íslenska sveitin er hluti af þjóðarsálinni, þar verður dauflegt um að litast ef fólki fækkar enn sem hefur yndi af og vill vinna við landbúnað á Íslandi. Það er almannahagur og á að vera okkur Íslendingum kappsmál að framleiða í okkur sem mest af þeim mat sem við þurfum og handa þeim ferðamönnum sem hingað sækja. Hvað ætlum við að sýna okkar gestum og hvaða sérstaka mat ætlum við að bjóða þeim ef við hættum að framleiða hér t.d. lambakjöt? Svari hver fyrir sig. Ábyrgð stjórnmálamanna á þessu öllu saman er mikil. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki vera líkleg til að standa með íslenskum sveitum, frekar en sú sem fór frá í vetur. En að það skyldi vera dýralæknirinn og bóndasonurinn Sigurður Ingi Jóhannsson sem skrifaði undir þennan tollasamning er hreint með ólíkindum. Ég held að kratarnir hefðu varla þorað þetta. Það þarf að rifta þessum samning svo ekki hljótist af stórslys. Vandinn blasir við og íslendingar gætu vaknað upp við það einn daginn að ekki fáist nýmjólk í búðinni vegna þess að það er eldgos á Íslandi sem stöðvar flugumferð. Margrét Jónsdóttir, bóndi á Syðra-Velli í Flóahreppi og ullarvörukaupmaður í Þingborg í sömu sveit.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.