Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.12.1999, Qupperneq 30
Alþj óðlegur Alzheimerdagur
Alþjóðlegur Alzheimerdagur
er 21.sept. ár hvert. FAAS -
Félag aðstandenda Alzheim-
ersjúklinga og annarra minnissjúkra
vakti rækilega athygli á þessum degi
nú, kom hinum bestu skilaboðum til
fjölmiðla og m.a. gjörði Morgunblað-
ið deginum og sjúkdómnum einstak-
lega góð skil, lagði opnu blaðsins
undir umfjöllun þessu tengda.
Þennan dag hélt FAAS svo hinn
ágætasta félagsfund í Sunnuhlíð í
Kópavogi og þar mættu um 60
manns. Ritstjóri var á fundinum
ásamt félagsmálafulltrúa ÖBI og tók
niður nokkra minnispunkta á ágætum
fundi. Formaður FAAS María Th.
Jónsdóttir setti fund og minntist
dagsins nokkrum vel völdum orðum.
Hún fór einnig með ljóðmæli eftir
konu eina sem nú er hátt á níræð-
isaldri, hefur misst nær minnið en er
annars hin hressasta og kann margt
frá gamalli tíð. Við fengum leyfi til
birtingar á lífsspeki hinnar öldnu
ljóðakonu. Lýsti María mikilli
ánægju með viðtökur og umfjöllun
fjölmiðla. Guðrún K. Þórsdóttir
djákni og framkvæmdastjóri FAAS
kynnti nærhópana fyrir aðstand-
endum minnissjúkra í Askirkju og fór
skráning fram á fundinum og virtist
ritstjóra sem vel væri við tekið. Hið
trúarlega ívaf er þar í raun inntakið og
markmiðið aukinn skilningur og veg-
vísir um leið.
Hjúkrunarforstjóri Sunnuhlíðar,
Áslaug Björnsdóttir, sagði frá
heilabilunardeild Sunnuhlíðar, stofn-
sett 1991 fyrir 10 einstaklinga. 8
konur þar nú og 2 karlar. Fólkið er í
tveggja manna herbergjum, elst 90
ára og yngst 68 ára.
Þetta fólk þarf allt aðstoð við allar
þarfir utan þá að borða. Hún lýsti inn
í það sem gjört væri s.s. gönguferðir,
kaffihúsaferðir, mikið hlustað á tón-
list, sungið og dansað, því gömlu
textarnir og dansfærnin gleymast
ekki svo glatt. Nú, horft á sjónvarpið
og myndböndin, hlustað á útvarp,
lesið fyrir fólkið og ýmislegt sér til
gamans gjört.
Allt stendur og fellur með starfs-
fólkinu, sem hefúr mjög vel tekist til
með, enda byggist allt á einstakl-
ingsmiðaðri að-
stoð. Á deildinni
er einvalalið, 6.6
stöðugildi alls en
svo sameiginleg
næturvakt fyrir
húsið.
Áslaug lagði að
lokum áherslu á
hver nauðsyn væri
að sýna þessu fólki
tilhlýðilega virð-
ingu, þrátt fyrir
sjúkdóminn væri
það ofurnæmt fyrir
því ef því fyndist
því vera misboðið.
Kolbrún Karlsdóttir
formaður Bergmáls- Vina- og líknar-
félags kynnti félagið og hið einstak-
lega fórnfúsa sjálfboðaliðastarf sem
þar er unnið. Kolbrún mun gjöra
grein fyrir þessu annars staðar í
blaðinu.
Ritstjóri hefur tvö undarfarin
sumur heimsótt Bergmálsfólk
austur í Sólheima ásamt þeim ágæta
pianóleikara Sigurði Jónssyni og átt
með gestum þeirra og þeim sjálfum
hugljúfa stund.
Það hefur einmitt verið fólk úr
okkar félögum sem notið hefur hinn-
ar gefandi gestrisni Bergmáls og við
metum sannarlega þessa afbragðs-
iðju sem öll er gefin örlátum huga
sem hjarta.
Fólk úr FAAS sem þakkaði fyrir sig
á eftir erindi Kolbrúnar átti í raun ekki
nógu sterk orð til að lýsa þökk sinni og
ánægju með dvölina austur þar.
María kvað þarna fara saman
hjartarúm og húsrúm og rómaði við-
tökur eystra.
Menn þáðu veitingar góðar í boði
Sunnuhlíðar og óhætt að segja að
FAAS fólk hafi sannarlega gjört sitt
til að kynna þennan alþjóðlega Alz-
heimerdag og vekja um leið til
umhugsunar um þetta mikla og vax-
andi vandamál.
I siðasta fréttabréfi okkar voru ein-
mitt kynntar niðurstöður úr rannsókn
á líðan og þörf aðstandenda Alzheim-
ersjúklinga og þar kom margt mark-
vert fram.
Niðurstaðan: Þörf á betur upplýstu
starfsfólki og meiri stuðningi við að-
standendur.
FAAS er óskað til hamingju með
ánægjulegan og árangursríkan 21.
september. Og hér á eftir eru svo
ljóðmælin hennar Guðríðar.
H.S.
Guðríður Brynjólfsdóttir:
Kjóllinn
Ég átti gamlan, grænan kjól
með göt á báðum hliðum.
Hann hafði veitt mér haldgott skjól
og hlífð á mörgum sviðum.
En svo í ræmur reif ég hann
og ræmunum ég bætti
annars kjól í annan rann
með ansi snúnum hætti.
Þá spurn í hugans fylgsni fann
hvort fegri yrði heimur
ef við tækjum mann og mann
og mynduðum einn úr tveimur.
Til umhugsunar
Það er svo margt sem við mennirnir
ekki skiljum,
mikið er það sem gleymist í tímans
rás.
Við ýmislegt gerum sem ekki við
sjálfir viljum.
Er eitthvað hulið sem markar
sérhverjum bás?
Guðríður er öldruð kona fædd í
Villinganesi í Austurdal í
Skagafirði.
30