Spássían - 2012, Blaðsíða 39
39
Í slíkum hugmyndum gæti einnig
verið að finna undirliggjandi ástæðu
fyrir tilraunum Oddnýjar til að
enduruppgötva kvenlega fortíð: „Ég
vildi gjarnan finna einhvers konar
kvenlega lausn innan í hringiðu hinnar
karlmiðuðu menningar okkar“ (81).
Æðsta von hennar liggur í uppgreftri
Ugla á forsögulegri bújörð við Gröf
í Öræfum: „Maður verður strax svo
spenntur yfir því að hið óþekkta
tímabil í byggingarsögunni sé um leið
óþekkt tímabil á öðrum sviðum og
eitthvað nýtt komi fram um íslenska
þjóðarsál ef betur er grafið, eitthvað
sem byggjandi er á” (108). Um leið og
hún heyrir um hin sérstöku sofnhús
sem fundust þar verður hún spennt og
ályktar: „Hér hafa menn væntanlega
verið sjálfbærir um sinn kost en um
leið í margháttuðum og flóknum
tengslum við umhverfið” (109). Hin
endanlega sönnun um þessa Gullöld
sem kom á undan þeirri er rataði í
sögubækurnar finnst svo þegar Ugli
grefur upp leifar kristinnar konu frá
um 700 e.Kr. (209).
SVEIT OG BORG
Oddný afmarkar leit sína þó ekki við
íslenska fortíð heldur leitar einnig til
Englands 19. aldar. England er ekki
aðeins landið þar sem iðnbyltingin,
brottflutningur úr sveitum og
gríðarleg borgarvæðing hófst; þar
vaknaði fyrsta „aftur-til-landsins“
hreyfingin sem viðbragð við þessari
þróun. Að mati ensku rómantíkeranna
mátti enn greina upphaflegan
samhljóm náttúru og manna í
hefðbundnu sveitalífi, en honum
var ógnað og hann hafði víða verið
lagður í rúst með iðnvæðingunni.
Áðurnefndur William Wordsworth
fyrirleit iðnaðarborgirnar og
eyðileggingu náttúrunnar sem
fylgdi þeim. Í staðinn söng hann
sveitunum lof og upphóf hefðbundið
landsbyggðarlíf í ljóðum sínum.
Annar svarinn óvinur borgar- og
iðnvæðingar var listamaðurinn og
Oxfordprófessorinn John Ruskin
(1819-1900). Ruskin lét sér ekki
nægja að gagnrýna heldur reyndi
einnig á virkan hátt að endurvekja
hefðbundið handverk og sveitalíf
með sjálfbærum býlum. Ruskin vildi
„snúa klukkunni til baka, endurreisa
England sem land huggulegra þorpa
og viðráðanlegra smábæja sem ættu
sér hreiður milli fallegra engja,
gróskumikilla eikarskóga og tærra
árstrauma.“9
Slíkt afturhvarf til upphafinnar
sveitasælu er Oddnýju að skapi. Hún
les bæði Wordsworth og Ruskin,
og heimsækir staði á Englandi sem
tengjast þeim – en það reynist
henni eins konar uppljómun: „Ég
var eins og upphafin til skýja, komin
að rótum rómantíkurinnar. [...]
Má ekki endurnýja rómantíkina,
endurskýra tengsl sköpunarinnar við
minninguna?” (121) Þegar hún fer í
tjaldútilegu við Heklu finnst henni
„notalegt að enn séu kindur í haga
og bændur sem sofa sælir á búum
sínum“ (20). Draumur hennar er
að samfélagið myndi vinnusamir og
sjálfstæðir smábændur sem stunda
sauðfjárbúskap og rækta sitt eigið
land á sjálfbæran hátt (161).
Í bók Oddnýjar táknar sveitin
þögn, ótruflað samneyti við
náttúruna og jafnræði meðal
manna. Borgin er á hinn bóginn
ljótur staður miskunnarlausrar
samkeppni, sem og andlegs og
líkamlegs ofbeldis; staður hávaða,
streitu og óróa. Firrta borgarbúana
skortir heildræna langtímahugsun.
Eitt af einkennum skammsýni þeirra
eru hinir ótalmörgu sumarbústaðir
sem dreifast um sveitina kringum
Reykjavík og eyðileggja landslagið:
„Fólk úr bænum lítur á landið undir
bústaðnum sem lóð en ekki jörð.
Heildarsýnin á landið hefur tapast”
(112).
VANDAMÁLIÐ VIÐ
GULLÖLDINA
Eitt vandamál sem fylgir þessari þrá
eftir afturhvarfi til Gullaldarinnar er
að hún felur óbeint í sér það viðhorf
að Íslendingar hafi sérstök og jafnvel
að einhverju leyti líffræðileg tengsl
við landið – nokkurs konar þjóðarsál
(108) sem hlýtur að útiloka þá sem
ekki eru af íslensku bergi brotnir.
Það er engin furða að Oddný lendir
í vandræðum þegar hún reynir
að fjarlægja sig þjóðernishyggju
um leið og hún er hatrammlega
andvíg kaupum Huangs Nubos á
Grímsstöðum (181-182). Það geta
verið margar ástæður fyrir því að vera
ósamþykkur þeim viðskiptasamningi,
en sú að Nupo sé kínverskur er ekki
ein af þeim góðu og gildu.
Að auki er hægt að efast um það að
rómantísk hugsjón um sveitasælu og
andstaða gegn borgarvæðingu geti í
raun verið réttur vegvísir í umhverfis-
og samfélagslegum málefnum dagsins
í dag. „Ekki back to nature heldur
forward! Áfram til náttúrunnar”,
segir ein af vinkonum Oddnýjar
(129). En aftur er einmitt stefnan
sem Oddný vill taka, aftur til einhvers
konar upphafins sveitalífs fortíðar, þó
án þess að þurfa að gefa upp þægindi
borgarsamfélags á iðnaðaröld. Þetta
leiðir óhjákvæmilega til þversagna,
sem hún er mjög meðvituð um
sjálf – til dæmis þegar hún, þvert
gegn hugsjónum sínum, kaupir bíl
og uppþvottavél: „Svona dregst
maður inn í neyslusamfélagið
um leið og maður reynir að halda
fjarlægðinni” (87). Og þrátt fyrir
Eitt vandamál sem fylgir þessari þrá eftir afturhvarfi til
Gullaldarinnar er að hún felur óbeint í sér það viðhorf að
Íslendingar hafi sérstök og jafnvel að einhverju leyti líffræðileg
tengsl við landið – nokkurs konar þjóðarsál sem hlýtur að útiloka
þá sem ekki eru af íslensku bergi brotnir.