Spássían - 2012, Blaðsíða 42

Spássían - 2012, Blaðsíða 42
42 síðast gefi n út árið 1979 og hefur verið ófáanleg í nokkurn tíma. Þá gripu örlögin í taumana því nokkrum dögum eftir að ákvörðunin var tekin fréttu aðstandendur Bókmenntaborgarinnar að bóka-útgáfan Lesstofan hefði tryggt sér útgáfuréttinn og ætlaði sér að gefa Vögguvísu út á nýjan leik. Upphófst þar samstarf sem Auður og Kristín eru afar ánægðar með það. „Það er gaman að vinna með svona ungu og metnaðarfullu fólki,“ segja þær, en Lesstofan er ung bókaútgáfa og Vögguvísa er önnur bókin sem hún gefur út. Þorsteinn Surmeli, einn af aðstandendum Lesstofunnar, segir að þeim hafi fundist nauðsynlegt að Vögguvísa væri aðgengileg, bæði vegna bókmenntalegs gildis hennar og bókmenntasögulegs. „Bókin er fyrsta Reykjavíkursagan þar sem sveitin er hvergi nærri; allt snýst um borgina og þá menningu sem hafði borist með bandarískum hermönnum og áhrif hennar á Íslendinga, og þá ekki síst íslenska unglinga. Segja mætti að sögupersónan Bambínó sé táknmynd alls þessa og það er í raun ótrúlegt hvernig Elíasi tókst að kortleggja þær breytingar sem áttu sér stað fyrir augunum á honum.“ CHIBABA-CHIBABA Lesstofan hefur í tilefni af útgáfunni tekið upp lagið „Chi-baba, Chi-baba (My Bambino go to sleep)“, sem Perry Como gerði frægt árið 1947. Lagið nefnist í íslenskri útgáfu „Vögguvísa“ og hefur fengið að hljóma í útvarpi undanfarið. „Lagið er fyrirferðarmikið í skáldsögunni,“ segir Þorsteinn. „Viðurnefni aðal sögupersónunnar er auðvitað fengið úr texta þess, lagið er spilað á veitinga- og dansstöðum borgarinnar og aðrar persónur syngja það í kór; þetta er lag sem allir „blístra að morgni dags og dansa eftir á kvöldin“ eins og segir á einum stað í bókinni. Lagið var frumfl utt í Hörpu á Menningarnótt þegar lestrarhátíðin var kynnt. Það er ekki ósennilegt að landsmenn muni aftur blístra lagið og dansa eftir því líkt og um miðja síðustu öld.“ Vögguvísa kom út þegar höfundurinn, Elías Mar (1924– 2007), var 26 ára en þá hafði hann þegar verið hluti af skálda- og rithöfundasamfélaginu í Reykjavík í heilan áratug. Elías byrjaði snemma að yrkja og semja sögur og 15 ára gamall fékk hann þá hugmynd ásamt félögum sínum að stofna ungskáldafélag sem starfaði fram á 5. áratuginn. Hann fékk birtar á prenti sögur, greinar og ljóð, teiknaði myndir og auglýsingar fyrir blöð, hélt ræður við ýmis tilefni og gaf út tímarit ásamt félögum sínum. Árið 1945 fékk hann vinnu sem blaðamaður á Alþýðublaðinu en þann tíma sem hann vann þar – og í raun stóran hluta ævinnar – var hann afkastamikill þýðandi og þýddi fjölmargar smásögur og greinar um ýmis málefni, listir, stjórnmál og stjórnarfar í Evrópu eftir stríðið. Í október 1945 skrifaði hinn 21 árs gamli Elías í skáldadagbók sína, sem hann nefndi „Skáldu“, um nokkuð sérstaka ákvörðun sem hann hafði tekið. Hann hafði þá lengi hugsað um og unnið að skáldsögu um ungan samkynhneigðan mann að nafni Halldór Óskar. Elías langaði til útlanda til að fá næði til að vinna að ritun þessarar sögu en vandamálið var að til þess þurfti hann peninga. Hann ákvað þá að til að vinna sér inn aur þýddi ekkert annað en skrifa aðra skáldsögu fyrst og selja hana útgefanda. Til að geta lokið ritun þessarar nýju sögu á sem stystum tíma setti hann sér að skrifa þrjár síður á dag, hvorki meira né minna: Ég vanda mig ekkert við hana, enda er tilbúningur hennar einungis liður í fjárhagsplani. Þegar ég hefi gengið frá henni ætla ég að reyna til við einhvern útgefanda og reyna að fá þrjú þúsund fyrir handritið. Það ætti aldrei að verða síðar en í lok janúar. Erfi ðasta verkið verður að fá útgefanda, – það næsterfi ðasta að vélrita söguna. Síðan ætla ég að taka til við „Man ég þig löngum“, sem ég geri ráð fyrir að ljúka við í ágúst eða september í fyrsta lagi og senda svo í verðlaunasamkeppni Menningarsjóðs og Þjóðvina- félagsins. Ég mun vanda mig ca 10 sinnum meira við þá sögu, – bókstafl ega séð.1 Þessi áætlun gekk nokkurn veginn eftir og tímamót urðu í lífi Elíasar, þótt verkinu hafi seinkað örlítið. Hann lauk ritun fyrstu skáldsögu sinnar, Eftir örstuttan leik, í apríl 1946, fékk greidd ritlaun frá Ragnari í Smára seint í júní, sagði upp vinnunni á Alþýðublaðinu og var kominn til Kaupmannahafnar viku síðar þar sem hann dvaldi í rúmt ár og lauk við að skrifa Man eg þig löngum. Sú bók kom raunar ekki út fyrr en þremur árum síðar en hún er ein fyrsta íslenska skáldsagan þar sem aðalpersónan er sam- eða tvíkynhneigð. Einurð og metnaður þessa unga rithöfundar er aðdáunarverður og birtist ekki síður í þeim vinnubrögðum sem hann tileinkaði sér áður en hann skrifaði Vögguvísu. Elías fékk hugmyndina að Vögguvísu á billjardstofu í miðborg Reykjavíkur þar sem hann fylgdist með samskiptum unglinga, og við ritun skáldsögunnar studdist hann við slangurorðasafnið sem hann hafði sjálfur sett saman.2 Skáldsögur Elíasar eru Reykjavíkursögur sem fjalla um ungt fólk í nýrri borg þar sem sveitalífi ð er víðs fjarri. Hann skrifaði um þann heim sem hann þekkti en hann var fæddur og uppalinn í Reykjavík og fylgdist með henni breytast úr 20.000 manna bæ árið 1924 í 56.000 manna litla en nýríka borg eftir síðari heimsstyrjöld. Óhætt er að segja að Elías hafi á sínum yngri árum verið fyrst og fremst höfundur samtímans og verið trúr þeirri tilvitnun sem fi nna má skrifaða fremst í vasadagbók hans frá 1942: „Skáldið á að marka sér svæði, þar sem það stendur andspænis hjartslætti tilverunnar.“3 METNAÐARFULLUR REYKJAVÍKURHÖFUNDUR

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.