Spássían - 2012, Blaðsíða 5

Spássían - 2012, Blaðsíða 5
5 Háskóli Íslands Háskólatorgi S. 570 0777 - Háskólinn í Reykjavík Sólinni Nauthólsvík S. 599 6469 boksala@boksala.is www.boksala.is SAGAN um hina eitilhörðu Jesúsu kom fyrst út í Mexíkó árið 1969. Hér er þetta mikla verk komið út í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur og gefur okkur Íslendingum færi á að skyggnast inn í framandi menningu hinna lægst og verst settu í Mexíkó, menningu sem var jafnvel rithöfundinum sjálfum framandi.  Elena Poniatowska byggir bókina á viðtölum við fátæka indíánakonu, Jesúsu Palancares, og vinnur síðan skáldsögu úr þeim efniviði. Hún flakkar mikið fram og aftur í tíma, nefnir einhvern atburð í framhjáhlaupi og kemur síðan aftur að honum nokkrum köflum; stundum hálfri bókinni seinna. Það er þó ekki erfitt að fylgja höfundinum eftir og þessi frásagnarmáti gerir það að verkum að maður verður að fylgjast grannt með því sem gerist. Það er helst að framandleg bæjar- og héraðsnöfn geri það snúið að hendur reiður á hvaðan Jesúsa er að koma og hvert hún er að fara. Tímaflakkið gerir það einnig að verkum að það er erfitt að átta sig á aldri Jesúsu. Hún tilgreinir aldur sinn oft áður en hún verður tvítug, en eftir það verður hún svo að segja tímalaus.  Jesúsa lærir snemma að sjá um sig sjálf. Hún er yngst systkina sinna og eftirlæti föður síns, sem leyfir henni að gera nánast hvað sem henni dettur í hug, svo hún býr við töluvert frelsi þrátt fyrir að vera kona af lægstu stétt í Mexíkó rétt eftir aldamótin 1900. Börnin eru móðurlaus og því neyðist faðir þeirra til að koma þeim í móðurstað. Hann reynir að finna konur til að sjá um uppeldið, fæða og klæða börnin, en Jesúsa samþykkir þær ekki og hrekur þær á brott, eina af annarri, ýmist með barsmíðum eða fúkyrðaflaumi. Að lokum finnst ásættanleg stjúpmóðir. Jesúsa gefur þó aldrei neitt eftir, jafnvel ekki gagnvart eiginmanni sínum; höfuðsmanni sem misþyrmir henni svo illilega að hún endar á því að beina að honum skammbyssu sér til lífs. Hún verður síðan ekkja ung að árum; hefur vinnuferil sinn og kemur á langri ævi við á hinum ýmsu stöðum. Eins og Elena segir í eftirmála bókarinnar: „Sá sem hefur gegnt ótal störfum, kann að flétta reyr, gæta barna, aðstoða rakara, fæða herfylki, lakka austurrísk húsgögn, elda, dansa jarabe tapatío ofan á matarstelli fyrir tuttugu og fjóra, hafa umsjón með krá, drekka flösku af sterku áfengi í einum teyg, berjast í orrustu, hluta niður svín og búa til puru og vera í sambandi við andana, hlýtur að vera einstakur“ (420).  Falleg sena, nálægt upphafi bókarinnar, dregur saman allt það sem kemur Jesúsu áfram í lífinu. Hún er að lýsa baðferðum á ströndinni, þegar faðir hennar var með þau systkinin á flakki í leit að vinnu: „Best er að baða sig á ströndinni þegar maður sér hvíta ölduna lyftast og leyfir henni að umlykja sig algerlega. Þá verður maður að standast höggið frá sjónum sem bylur á líkamanum, klæddum eða klæðalausum, og finna fyrir hinu lifandi afli […] Ég var lágvaxin og sterk og kunni að taka á móti öldunum“ (26-7).  En Jesúsa kann ekki bara að taka á móti öldunum, hún er líka aldan sem skellur á öðrum, hirtir þá og leyfir engum að beita sig óréttlæti. Hún er sjálf hið lifandi afl. Eftir dauða eiginmanns síns leyfir hún engum karlmanni að komast upp með viðlíka hegðun og spyr þá hvaða rétt þeir hafi til að ráðast á hana, hvort sem er með orðum eða hnefum. Hún sér sjálfa sig ekki sem óæðri karlmönnum, hún upplifir sig í raun og veru ekki í stöðu konunnar, eða sem fátækling af indíánaættum. Raunar segir hún beint út: „Mér líður ekki eins og ég sé mexíkósk og samsama mig ekki með Mexíkóum“ (265). Hún er algjörlega sjálfstæð og einstök, en þó er hún á sama tíma rödd heillar stéttar sem er vanhirt og vanrækt af stjórnvöldum og þeim sem hafa það nógu gott til að geta hunsað neyð þeirra.  Sagan er í ýkjustíl, sem léttir annars þungt og alvörugefið andrúmsloft aðstæðna Jesúsu. Hún lýsir drykkju sinni til dæmis með miklum tilþrifum: „En margar konur drukku sig fullar af því að þær langaði til þess eða voru í ástarsorg, sopa fyrir sopa, glas fyrir glas, en ég kann ekki að drekka eitt glas í einu […] Ég drakk þrjár eða fjórar fyllibyttur undir borðið og var eins og nýsleginn túskildingur á eftir [...] Stuttu seinna veðjaði ég annarri flösku og borðaði aftur límónur og áfengið sveif ekki á mig. Mér varð aldrei bumbult“ (104-5). Alvaran blundar hins vegar undir niðri, hún lýsir sjálfri sér og segir: „[…] í þessari endurholdgun hef ég verið mikil ótukt, slagsmálahundur og fyllibytta. Mikið af öllu. Ég get ekki sagt að ég hafi verið góð kona. Ég get ekkert sagt“ (12). Þetta er afstaða Jesúsu til sjálfrar sín og hún er ein til frásagnar. Enginn getur andmælt því sem hún segir, hvort sem það er um hana sjálfa, aðrar sögupersónur eða atburði frásagnarinnar.  Það er erfitt að þýða blæbrigði máls Jesúsu yfir á annað tungumál, eins og fjallað er um í stuttri ritgerð í lok bókarinnar. Þessi blæbrigði eru mikilvæg vegna þess að þau endurspegla stöðu Jesúsu á svo afgerandi hátt. Í spænska textanum eru málvillur látnar halda sér og hún notar orð frá indíánum sem sýna að hún getur ekki slitið sig frá sínum eigin rótum, þrátt fyrir sjálfstæðið. Málvillurnar og orðaforði minnihlutahóps gera það hins vegar að verkum að þýðingin verður ekki mjög aðgengileg. Það breytir því þó ekki að bókin er heillandi. Hið ótrúlega lífshlaup Jesúsu og styrkur hleypti í mig krafti en jafnframt vonleysi yfir að hafa ekki afrekað miklu meira í lífinu en að lesa þessa bók og skrifa um hana dóm. Jesúsa er afgerandi rödd hinna afskiptu, sem taka því sem hver dagur ber í skauti sér, með stolti, styrk og dugnaði. HVAÐ er líf okkar? Er það minningar okkar, raðað haganlega í tímaröð; óskeikull vitnisburður um að við höfum gert eitthvað, fengið einhverju áorkað, eða að minnsta kosti verið til. Eða hvað? Eru minningarnar kannski lygar; blekking okkar eigin heilastarfsemi þar sem við veljum úr hvað við viljum muna og hvernig við ætlum að muna? Og ef minningarnar eru lygar, hvað er þá líf okkar?  Julian Barnes veltir þessum spurningum fyrir sér í verki sínu og gerir það á áleitinn og óþægilegan hátt. Aðalsögupersónan, Tony Webster, er meðalmaður, í meðalvinnu og er saddur lífdaga - og satt að segja er ekkert við hann sem gefur til kynna að líf hans sé efniviður Konan sem kunni að taka á móti öldunum Eftir Kolbrúnu Lilju Kolbeinsdóttur Elena Poniatowska. Jesúsa: Óskammfeilin, þverúðug og skuldlaus. Þýðandi María Rán Guðjónsdóttir. JPV. 2012. Hin þægilega huggun lygarinnar Eftir Kolbrúnu Lilju Kolbeinsdóttur Julian Barnes. Að endingu. Þýðandi Jón Karl Helgason. Bjartur. 2012.

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.