Spássían - 2011, Page 4

Spássían - 2011, Page 4
 4 ÞETTA ER Í FYRSTA SINN sem Borgarbókasafnið stendur fyrir leshringjum og eru þeir hluti af lestrarátakinu „Reykjavík les“. „Við prufukeyrðum leshring fyrir starfsfólk bókasafnsins í fyrra, undir stjórn Úlfhildar Dagsdóttur, og nýtum okkur reynsluna af því,“ segir Jónína. „Hugmyndin er sú að við komum leshringjunum af stað, starfsmaður safnsins stýri fyrstu fundunum og komi með uppástungur að bókum til að lesa. Þátttakendur haldi svo áfram sjálfstætt og skiptist á að taka að sér fundarstjórn. Sjálfri finnst mér þó svo gaman á fundum að ég vil gjarnan halda áfram að mæta.“ Í upphafi fyrsta fundarins kynnti Jónína fyrirkomulagið og dreifði hagnýtum leiðbeiningum um skipulag leshringja sem starfsfólk safnsins hafði viðað að sér héðan og þaðan af netinu, þar sem finna má ráðleggingar á borð við að ákveða hentugan fjölda einstaklinga í slíkum hring og hvernig fá má alla til að taka þátt. „Ég er einnig með punkta með leiðbeiningum um það hvernig koma má umræðum um bók af stað. Það má til dæmis spá í það hverjar lykilpersónurnar eru, í hvaða stíl bókin er skrifuð, hvað fólki líkaði og líkaði ekki við bókina og hvaða áhrif hún hafði á sínum tíma. Í því samhengi benti ég þátttakendum á að mikið efni er til um íslenska höfunda og bækur á Bókmenntavef safnsins.“ Jónína segir fólk ánægt með framtakið. „Einn fastagestur sagðist meir að segja vilja hafa fundina oftar en einu sinni í mánuði. Við vitum að fólk er oft mjög upptekið en ef hópurinn vill getur hann ákveðið að hittast oftar. Okkur virðist sem fólk sé virkilega áhugasamt og ég veit um eina sem tekur þátt í öllum þremur leshringjunum.“ Vill kryfja verkin Arndís Sævarsdóttir segir að sig hafi lengi langað til að taka þátt í svona leshring. „Hér var tækifærið komið og fínt að vera með einhverjum sem ég þekki ekki neitt, því þá fer maður ekki að tala um eitthvað annað en bækurnar.“ Hún segist alltaf hafa lesið mikið en haft áhuga á því að kryfja sumar bækurnar aðeins meira. „Maður gerir það þó miklu síður einn. Hér er hægt að vega og meta bækurnar í sameiningu og fá sjónarmið annarra. Ég hlakka því til að koma ef mér finnst bækurnar skemmtilegar og heyra hvað hinum finnst.“ Bókin sem stendur upp úr hingað til að mati Arndísar er Túlkur tregans. „Þetta er frábær bók. Maður sér alveg muninn á evrópskum og indverskum hugsunarhætti og það eru svo fallegar lýsingar í bókinni. Hún er auðlesin, þægileg, falleg og vel þýdd af Rúnari Helga Vignissyni. Mér fannst líka bók Þórunnar Erlu-Valdimarsdóttur, Kalt er annars blóð, mjög góð. En svo kom ég á fund og fékk að heyra að einhverjum öðrum fannst hún glötuð! Það eru mjög ólík sjónarmið í þessum hópi.“ Saknaði þess að ræða um bækur „Mér finnst gaman að lesa en mér finnst líka mjög gaman að ræða um bækurnar við einhvern annan, að fá annað sjónarhorn,“ segir Katrín Kristinsdóttir. „Í vinnunni hjá mér var um tíma hópur sem las heilmikið. Við lásum stundum sömu bækurnar og þá var svo gaman að ræða um þær. Nú er þetta fólk farið annað og ég sakna þess svolítið að geta ekki rætt um bækur. Svo var líka fremur rólegt hjá mér í vetur og þetta var öðrum þræði tækifæri til að komast út og fá félagsskap. En fyrst og fremst var það bókmenntaáhuginn sem rak mig af stað.“ Katrín segir að hingað til standi Glæpir að hennar mati upp úr, frásögn af sönnum atburðum í Þýskalandi. „Þetta eru alvarlegir glæpir en fólk fær létta refsingu vegna aðstæðna. Hún er vel skrifuð, textinn rennur svo vel, en líka skemmtileg. Í henni má lesa um mannlega breyskleika og neyð en líka um það hvernig rætist úr oft á tíðum.“ Skrafað á bókasafninu Eftir Auði Aðalsteinsdóttur Þrír leshringir hófu göngu sína hjá Borgarbókasafni nýlega og munu þeir halda áfram eins lengi og áhugi er fyrir hendi. Fyrstu fundirnir lofa góðu, segir Jónína Óskarsdóttir, sem stýrir hringnum „Kvenna- og karlabækur“ sem fer fram í Ársafni. Um tíu bókaormar á ýmsum aldri mæta þar vel lesnir og fúsir til að tjá sig. Auk leshrings Jónínu er boðið upp á tvo leshringi í Aðalsafni Borgarbókasafns. Ingvi Þór Kormáksson sá um að koma hring um glæpasögur af stað og Ingibjörg Hafliðadóttir byrjaði með hringinn „Gamalt og gott“. Katrín Kristinsdóttir og Arndís Sævarsdóttir Jónína Óskarsdóttir

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.