Spássían - 2011, Side 8

Spássían - 2011, Side 8
 8 Hvað er vísindaskáldskapur? Fjölmargir hafa reynt að svara þeirri spurningu og eru skilgreiningarnar jafn margar og fólkið sem spreytir sig á þeim. Spássían lætur ekki sitt eftir liggja og leggur til eftirfarandi skilgreiningu: Fantasían býr til sín eigin (náttúru)lögmál á meðan vísindaskáldskapur fylgir lögmálum okkar heims (eða viðurkenndum hugmyndum um það hvernig þessi lögmál eru eða gætu verið) en notar þau til að búa til nýja heima. Um leið leggjum við til að skilgreiningar sem þessar séu ekki teknar of bókstaflega. Möguleikar annars konar heima eru sem sagt kannaðir í vísindaskáldskap. The Blazing World sem hertogaynjan Margaret Cavendish skrifaði á 17. öld er dæmi um það hvernig nota má vísindaskáldskap til að fá útrás fyrir útópískar fantasíur, en í sögunni verður ung stúlka keisaraynja yfir hliðstæðum heimi og besta vinkona hennar, rithöfundurinn Margaret Cavendish, á þar margar sigur- og sælustundir með henni. Saga H.G. Wells um Tímavélina frá lokum 19. aldar er hins vegar dæmi um það hvernig nota má slík rit til að hreinsa sig af hræðslu við framtíðina gegnum kaþarsis dystópíunnar. Hún fjallar um ferðalag fram í tímann þar sem fylgjast má með hnignun mannkyns og dauða jarðar. Síbreytilegur heimur er eitt af meginviðfangsefnum vísinda- skáldskapar. Stundum er vísindaskáldskapur eins og fyrsta skrefið í aðlögun að einhverju nýju. Sem dæmi má nefna að vísindaskáldskapur var nokkuð vinsælt form femínískra höfunda á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Joanna Russ, Ursula K. Le Guin, Kate Wilhelm, Marion Zimmer Bradley, James Tiptree Jr. og margar fleiri settu fram hugmyndir um heima þar sem hefðbundin kynjahlutverk voru teygð og toguð og áhrif þess könnuð. Einnig má nefna að bandarískar kvikmyndir og sjónvarpsþættir tengdar vísindaskáldskap settu svartan mann í hlutverk forseta Bandaríkjanna löngu áður en Bandaríkjamenn voru sjálfir tilbúnir til að kjósa Barack Obama. Í sjónvarpsþáttunum Ég hef verið hörundsár íbúi í skjalaskúffu merktri „vísindaskáldskap” og ég vil komast út – sérstaklega þar sem svo margir alvarlegir gagnrýnendur taka skúffuna reglulega í misgripum fyrir hlandskál.1 Svo mörg voru þau orð rithöfundarins Kurts Vonneguts og lýsa þau ansi algengu viðhorfi þeirra „alvöru“ rithöfunda sem lagst hafa svo lágt að beita vísindarskáldskaparforminu í skrifum sínum. Margaret Atwood hefur verið dugleg við að skrifa verk sem gerast í framtíðarheimi en um leið reynt að forðast að fá á sig stimpilinn leiða. Fáir íslenskri rithöfundar hafa gengist við þessari skilgreiningu og ef marka má orð Helga Ingólfssonar um ritdóma á sögu hans Runukrossum er mikilvægt að ritdómarar fordæmi ekki á röngum forsendum: Enn galnari þótti mér ritdómurinn, sem smíðaði sína eigin forsendu: Að þar sem í Runukrossum væri fjallað um framtíðina og þar sem fram kæmi að einhverju leyti frábrugðin tækni þeirri sem við þekkjum í samtímanum, þá væri óhjákvæmilegt, eins og ritdómarinn orðaði það, að dæma söguna sem vísindaskáldsögu – og sem slíka fordæmdi hann bókina. Að áfellast Runukrossa sem vísindaskáldsögu sýnist mér viðlíka gáfulegt og að álasa Hamskiptunum eftir Kafka fyrir að vera ekki nógu nákvæm skordýrafræði – paddan Gregor Samsa er jú alltof stór til að vera trúverðug. Alla hluti má fordæma á röngum forsendum. Það má til dæmis áfellast Biblíuna fyrir að vera ekki símaskráin, enda þótt ekki skorti nafnarunur í bæði rit. Ég hef aldrei hugsað um eða talað um Runukrossa sem vísindaskáldsögu. Framtíðarsýn, já, jafnvel framtíðarsögu ef í nauðirnar rekur, en ekki vísindaskáldsögu.2 Rangflokkun ber samkvæmt þessu að varast. Færa má rök fyrir því að á meðan þeir þættir sem oftast tilheyra vísindaskáldskap eru ekki í forgrunni sögunnar eigi ekki að skilgreina hana sem slíka. Byron lávarður gaf árið 1816 út ljóðið „Darkness“sem fól í sér ýmis kunnugleg form vísindaskáldskapar, svo sem dauða sólkerfisins, kulnun jarðar og hörmungar mannkyns í kjölfar slíkra atburða.3 Hann hefði sennilega lyft brúnum ef einhver hefði stungið upp á að flokka ljóðið sem vísindaskáldskap – enda hafði greinin ekki verið skilgreind á þeim tíma. En spurningin vaknar óneitanlega hvar draga eigi mörkin. Hvaða þættir – og hversu margir – þurfa að vera til staðar til að verk falli í þennan flokk og er nóg að höfundurinn afneiti flokkuninni? Getur Barbara Cartland þrætt fyrir það að hún skrifi ástarsögur? Sennilega ekki. Hvað með Jane Austen? Sláturhús fimm eftir Kurt Vonnegut inniheldur bæði tímaflakk og geimverur en dugar það kannski ekki til að hún geti með réttu kallast vísindaskáldsaga? Hvernig geimverur og hvers kyns tímaflakk myndi réttlæta það? Er von að bókmenntafræðingar klóri sér í kollinum!  Doris Lessing er annar höfundur sem hefur fengið á sig vísindaskáldskaparstimpilinn en ólíkt mörgum öðrum höfundum virðist hún lítið kippa sér upp við það. Árið 1979 skrifaði hún í formála bókar sinnar Shikasta: Geim- og vísindaskáldskapur er nú frumlegasta grein bókmenntanna. Hann er hugvitsamlegur og andríkur og hefur þegar lífgað við margs konar skrif [...]. Þvílíkt fyrirbæri sem vísindaskáldskapur hefur verið – brýst inn á sjónarsviðið, alveg óvænt auðvitað, eins og gerist alltaf þegar mannshugurinn er neyddur til útvíkkunar: að þessu sinni í átt til stjarnanna, á sviði vetrabrautanna, og hver veit hvert förinni er heitið.4 Vandamálið er að vísindaskáldskapur er í raun ekki formúla heldur frekar samansafn af minnum sem byggja á tækni sem ekki er möguleg í dag og vísa til veruleika sem er frábrugðinn okkar. Það er því mjög erfitt að sanna eða afsanna að eitthvað sé vísindaskáldskapur.  Vísindaskáldskaparstimpillinn hefur gjarnan verið notaður af útgefendum til að benda lesendum á að um bækur við þeirra hæfi sé að ræða. Ófáir lesendur hafa sérstakt gaman af því þegar höfundar láta ímyndunaraflið leika lausum hala um svið vísindanna og slík flokkun hjálpar þeim að nálgast bækur við sitt hæfi. Það má því allt eins segja að vísindaskáldskapur sé það sem áhugamenn um vísindaskáldskap kjósi að lesa og það sem andstæðingar hans forðist. Samkvæmt Damon Knight, vísindaskáldsagnahöfundi, er vísinda- skáldskapur „það sem ég bendi á þegar ég segi „vísindaskáldskapur“.“5 Rithöfundurinn J.G. Ballard bætti um betur og sagði: Allt er að verða vísindaskáldskapur. Frá jaðri næstum ósýnilegs skáldskapar hefur sprottið upp heildstæður veruleiki tuttugustu aldarinnar. Það sem höfundar nútíma vísindaskáldskapar finna upp í dag munum við gera á morgun – eða nánar tiltekið, eftir tíu ár, þótt bilið sé að minnka. Vísindaskáldskapur er mikilvægasti skáldskapur sem skrifaður hefur verið síðustu 100 ár.6 1 „On Science Fiction,“ The Kurt Vonnegut Web. Sótt 4. júní 2011 af http://www.vonnegutweb. com/archives/arc_scifi.html. [Þýðing mín.] 2 „Runukrossar eftir Helga Ingólfsson“, Andstreymis. Textinn er hluti af svari sem Helgi skildi eftir í athugasemdakerfi bloggsins. Sótt 2. júní 2011 af http://blog.eyjan.is/ stefan/2010/12/06/runukrossar-eftir-helga- ingolfsson/. 3 Byron, Oxford University Press, 1985, ritstj. Jerome J. McGann, 272. 4 Lessing, Doris, Shikasta, Cape, London, 1979. [Þýðing Auður Aðalsteinsdóttir.] 5 Delany, Samuel R., Silent Interviews. On Language, Race, Sex, Science Fiction, and some Comics, Wesleyan University Press, Hanover, 1994, 191. 6 Ballard, J.G., „Fictions of Every Kind“, J.G. Ballard, sótt 4. júní 2011 af http://www. jgballard.ca/non_fiction/jgb_fictions.html. Að vera – eða vera ekki – vísindaskáldskaparhöfundur

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.