Spássían - 2011, Qupperneq 19
19
þegar engum er treystandi.
Óþarfi er að eyða mörgum orðum á næstu
tvær myndir, Christine (1983) og Starman
(1984), sem báðar voru vinsælar á sínum tíma
en heldur óspennandi. Stúdíótímabilinu lauk
hins vegar með vanmetnu hasarmyndinni
Big Trouble in Little China (1986), sem
kolféll í bíó, líklega vegna þess að hún var
einfaldlega á undan sinni samtíð. Um er að
ræða frumlega og léttgeggjaða blöndu af
kínverskum bardagamyndum og klassískum
vestrum, af Kung-Fu og John Wayne, en
Big Trouble er að vissu leyti forveri asísku
áhrifabylgjunnar sem reið yfir Hollywood á
tíunda áratugnum. Carpenter gerir auk þess
góðlátlegt grín að hefðbundnu bandarísku
hasarhetjunni, sem skilur sjaldnast hvað er á
seyði og veltur í gegnum myndina að mestu
leyti eins og illa gerður hlutur. Líkt og The
Thing hefur Big Trouble hlotið uppreisn æru
á vídeómarkaðnum síðar meir og státar nú
af dyggum aðdáendahópi. En tapið á sínum
tíma leiddi til þess að Carpenter datt út úr
stúdíókerfinu, enda hafði hann ekki átt góð
samskipti við framleiðendur. Hann vildi frekar
vera blankur og geta ráðið sér sjálfur en að
sigla lygnan sjó meginstraumsins, og sneri því
aftur inn í hið óháða þar sem hann hélt áfram
að gera ódýr og vanmetin meistaraverk á borð
við fyrrnefnda mynd They Live og furðuverkið
Prince of Darkness (1987). Sú síðarnefnda
blandar saman vísindaskáldskap og kristinni
trú, djöflinum og stjarneðlisfræði. Alveg
sérstaklega frumleg blanda sem kann að
hljóma fáránlega, en heldur vatni frá upphafi
til enda. Carpenter kemur með spennandi
pælingar um eðli trúarbragða og vísinda, en
fyrst og fremst hugleiðingu um þrá mannsins
til að skilja heiminn og hryllinginn sem fylgir
því að geta aldrei útskýrt tilveruna til fulls.
Eftir níunda áratuginn hefur Carpenter
því miður dalað jafnt og þétt, en ein mynd
ber höfuð og herðar yfir allt á síðari hluta
ferilsins. Rauður þráður í gegnum heildarverk
Carpenters sýnir langvarandi áhrif frá
rithöfundinum H.P. Lovecraft – sérstaklega
í The Thing og Prince of Darkness – en með
tilkomu In The Mouth of Madness (1994)
steig leikstjórinn beint inn í veröld Lovecraft
og hreiðraði um sig. Um er að ræða líklega
bestu kvikmyndaaðlögun á verkum Lovecraft
sem gerð hefur verið, án þess þó að hún
byggi beinlínis á einhverri ákveðinni sögu.
Myndin er fyrst og fremst virðingarvottur um
andrúmsloftið sem einkennir Lovecraft, en þar
að auki er hún mikill leikur að sjálfsmeðvitund
og „meta-fiction“, þar sem aðalpersónan
hverfur inn í höfundarverk annarrar persónu
og skáldskapurinn tekur að brjóta sér leið
inn í veruleikann. Ennfremur leikur Carpenter
sér að gagnrýni á hrylling sem spillandi og
hættulegt listform, þar sem hann setur á svið
hryllingshöfund sem skrifar svo hrottalega
smitandi texta að lesendurnir missa vitið og
verða gjörsamlega ofbeldissjúkir.
ANDÓFSMAÐUR OG AUTEUR
Í nýlegu viðtali í hryllingsspjallþáttunum
Post Mortem with Mick Garris (2011) kemur
upp spurningin um andófið sem er svo
ríkjandi í kvikmyndagerð Carpenters og þá
sérstaklega vantraust gagnvart yfirvaldinu.
Hann játar að þessi tilhneiging endurspegli
persónuleika hans að miklu leyti og segist
meir að segja efast um sjálfan sig sem yfirvald
í föðurhlutverkinu.1 Andófsþráðurinn virðist
að vissu leyti vera óaðskiljanlegur þáttur
heimssýnar Carpenters og um leið táknrænn
fyrir hans eigin feril. Honum hefur ávallt liðið
best sem útlaga í Hollywood en hefur að sama
skapi þurft að strita fyrir sjálfstæðinu. Eftir
gullöld áttunda og níunda áratugarins hefur
honum aðeins fatast flugið og virðist hann nú
að miklu leyti andlaus eftir áratuga baráttu
við kvikmyndaheiminn. Af fyrrnefndu viðtali
að dæma sýnist meistarinn einfaldlega vera
orðinn of gamall og þreyttur til að takast á
við harkið sem fylgir því að þurfa endalaust að
redda pening án þess að selja sig.
Síðustu ár hefur Carpenter hlotið
dálitla athygli frá fræðaheiminum, þ.e.
fyrir utan undirgeira hryllingsfræðanna.
Gagnrýnendur Cahiers du Cinéma í Frakklandi
hafa þegar skilgreint hann sem „auteur“
og þar með sett hann í verðskuldaðan hóp
mikilvægra leikstjóra.2 Það sama má segja
um yfirgripsmikla grein á vefritinu Senses of
Cinema, sem upphefur feril og stíl leikstjórans
og færir rök fyrir því hvers vegna Carpenter
á skilið að vera settur inn í flokkinn „Great
Directors“ á heimasíðunni þeirra.3 Í þeirri grein
er talað um myndbyggingu, heildarvinnslu,
þemu, listræna sýn og frumlega nálgun á ólíkar
hefðir, svo eitthvað sé nefnt. Í raun er hægt
að draga þetta allt saman í hugmyndina um
stemningu. Það fer ekki framhjá neinum þegar
John Carpenter mynd byrjar að rúlla og sú
tilfinning kristallast í tónlistinni. Allir sem þekkja
Carpenter kannast við kvikmyndatónlistina,
sem hann semur oftast sjálfur: minimalísk
og tölvuvædd, gædd djúpum bassatónum,
einföldum trommuheilum og dreymandi
hljóðgervlum. Með Carpenter sándtrakk í
eyrunum umbreytist veruleikinn á svipstundu.
Meir að segja meistari Morricone, í eina skiptið
sem hann samdi fyrir Carpenter, leystist upp
innan í hljóðheimi leikstjórans og hvarf inn í
formúlurnar hans.
Líklega er það vegna þess að Carpenter er
fyrst og fremst þekktur sem hryllingsleikstjóri
að hann hefur ekki átt auðvelt með að rata
til víðari áhorfendahóps. Carpenter vinnur
í „óæðri“ listgrein innan hefðbundins
metaorðastiga og hefur gjarnan verið
meðhöndlaður og jafnvel afskrifaður sem
„bara“ b-mynda leikstjóri. En það er einmitt
á „lága planinu“ sem listin getur fengið að
vera frjáls, ódýr og óháð, og það ber ekki að
vanmeta. John Carpenter er lifandi sönnun
þess og hann á frátekinn stóran sess í
kvikmyndasögubókum framtíðarinnar, sjáið
bara til. Því um leið og við erum reiðubúin
að líta í gegnum hryllingsyfirborðið og taka
saman alla þættina sem einkenna heildarverk
Carpenters, kemur fljótlega í ljós að hann er
ekki aðeins góður hryllingsleikstjóri, heldur
kraftmikill, frumlegur og framsýnn listasmiður
sem á erindi til allra áhugamanna um líflega
kvikmyndagerð.
1 Post Mortem with Mick Garris, fyrsta sería,
sjötti þáttur, FEARnet, mars 2011, sótt 30. maí
2011 af http://www.fearnet.com/shows/post_
mortem/index.html.
2 Klinger, Gabe, „Stalled auteurism: John
Carpenter’s Ghosts of Mars“, Senses of Cinema,
2001, sótt 30. maí 2011 af http://archive.
sensesofcinema.com/contents/01/17/ghost.
html.
3 Lanzagorta, Marco, „John Carpenter“, Great
Directors. Senses of Cinema, 25. tbl., 2003, sótt
30. maí 2011 af http://www.sensesofcinema.
com/2003/great-directors/carpenter/.
Alice Cooper í aukahlutverki í
Prince of Darkness (1987)
Prince of Darkness blandar saman
vísindaskáldskap og kristinni trú,
djöflinum og stjarneðlisfræði.
Alveg sérstaklega frumleg blanda
sem kann að hljóma fáránlega, en
heldur vatni frá upphafi til enda.