Spássían - 2011, Qupperneq 29

Spássían - 2011, Qupperneq 29
29 og barnabókum er hampað á hátíðum, þá er þetta allt svo mikilvægt, en næsta mánudag er allt gleymt. Við fengum til dæmis á þessum tíma miklu minna úr launasjóði rithöfunda en við fáum núna. Þó vorum við sannarlega að reyna að skrifa meira og minna árið um kring. Við vorum ægilega reið. Ég hef oft hugsað til baka og ég held að þessi félagsskapur hafi gefið okkur öllum mikið, að hittast til að ausa úr skálum reiði okkar og klappa hvert öðru á bakið. Svo fórum við að sýna tennurnar, ákváðum að kalla okkur Síung, og Samband íslenskra barna- og unglingabókahöfunda eru nú undirsamtök innan Rithöfundasambandsins. Undanfarið höfum við hist sjaldnar og ef til vill er það til marks um að okkur hefur orðið eitthvað ágengt. Félagið er þó ekki sofnað og sama umræðan sprettur upp fyrir hver einustu jól þegar gagnrýnin kemur. Gagnrýni í mýflugumynd. Ég sé svo vel muninn því ég hef skrifað megnið af minni starfsævi fyrir börn og get ekki kvartað því ég fékk oft ágætis umfjöllun. En það er ekkert í líkingu við umfjöllunina sem ég fæ um fullorðinsbækurnar. Það sýnir að eitthvað er að. Hins vegar komumst við fljótlega að því að það borgar sig ekki að væla. Þá er bara sagt: „Æ, byrja nú kerlingarnar í Síung eina ferðina enn að grenja“. Þótt það væru líka karlar í Síung er meirihluti barnabókahöfunda konur og fyrir bragðið urðu þessir fáu karlmenn bara að kerlingum með okkur. Svo við tókum aðra stefnu; að grenja ekki en reyna frekar að vera svolítið frek til fjárins og minna á okkur, vera með hávaða og taka okkur pláss. Það hjálpaði klárlega, en betur má ef duga skal. Mér finnst gagnrýnin í fjölmiðlum alltaf bera keim af því að barnabækur séu flokkur sem enginn vill bera ábyrgð á. Af því að þessar bækur eru markaðssettar fyrir börn er eins og fullorðinsbatteríið getið fríað sig. En börn geta ekki skrifað gagnrýni og þau eru ekki með þætti í fjölmiðlum. Auk þess kaupa þau ekki jólagjafirnar heldur pabbi og mamma, afi og amma. Til þess að fá dóma, til þess að við teljum með í umræðunni, verða fullorðnir að ljá okkur eyra. Ég hef líka alltaf haldið því fram að góð barnabók sé ekki síður fyrir fullorðna. Þegar ég skrifaði Engil í Vesturbænum var hún í mínum huga nákvæmlega jafn mikið fyrir fullorðna og fyrir börn. Þetta er bara bók, enda veit ég að hún hefur verið gefin í fertugsafmælisgjöf, fimmtugsafmælisgjöf og sextugsafmælisgjöf en líka í skírnargjöf.“ EINU SINNI Einu sinni bjuggum við í litlu húsi. Ég er oft að hugsa um hvað maður geti verið einn í blokk þótt hún sé full af fólki. (Saga úr Engli í Vesturbænum) ÞOLIR EKKI PREDIKANIR Kristín segir að góð barnabók sé fyrst og fremst skemmtileg og þá eigi hún ekki bara að vera sniðug. „Hún á að skemmta manni þannig að maður hætti ekki að lesa; vera grípandi og hæfilega spennandi. Í staðinn fyrir að byrja á „einu sinni var“ og langri kynningu reyni ég til dæmis gjarnan að byrja á einhverju atviki sem grípur, þannig að lesandinn sé allt í einu kominn á sögustaðinn og í miðja atburðarás. Einu sinni sagði krakki við mig: „Það er svo gaman í bókunum þínum, það byrjar alltaf strax eitthvað“. Ég varð ægilega sæl því að þarna hafði mér tekist eitthvað. Mér finnst líka skipta óhemju miklu máli að velta sér ekki upp úr siðaboðskap. Ég þoli illa áberandi uppfræðslu og kennslu. Það má alveg reyna að lauma til dæmis þjóðararfinum inn á leikandi hátt en ekki þannig að höfundurinn setji sig í kennarastellingar. Mér finnst svoleiðis bækur alveg hræðilegar. Þannig að ef þú vilt særa mig til ólífis þá segirðu að ég sé með predikun í bókunum mínum.“ Annað atriði sem Kristín nefnir er góð persónusköpun. „Það skiptir miklu máli að krakkarnir í bókinni, og fullorðnir líka, séu ekki klisjur heldur persónur sem hugsi, og að sá sem les bókina gæti allt eins verið þarna með, þetta sé ekki fullkomlega framandi.“ Það er greinilegt að í barnabókunum leggur Kristín áherslu á að lýsa lífinu raunsætt en eitt sinn rakst hún á vegg, þegar hún vildi láta barn deyja í lok bókar. „Það gekk ekki. Það hefur nú gerst, við þekkjum það til dæmis frá Astrid Lindgren og úr bók Friðriks Erlingssonar, Benjamín Dúfu, en dauðinn hefur þó verið fremur tabú í barnabókum til þessa. Það er krafan um að við eigum alltaf að fara sátt út úr barnabókinni sem gerir það að verkum. En dauðinn er hluti af lífinu og getur verið mjög eðlilegur, það fer allt eftir því hvernig þú undirbyggir það. Þetta er líka ákveðin tvískinnungur, af hverju mega börn horfa upp á allt mögulegt í sjónvarpinu á meðan það má ekki standa í bók? Ég er ekki að mæla óhugnanlegu sjónvarpsefni bót, og ég er heldur ekki að segja að maður eigi að enda hverja bók á því að ástvinur deyi, heldur segja að það megi koma fyrir án þess að það sé eitthvert stórmál. Viðbrögð krakkanna geta líka verið svo frábær. Í sögunni Vítahring tók ég Harðar sögu og Hólmverja, skrifaði hana upp á nýtt og lét Grímkel Harðarson segja frá. En Grímkell dó tólf ára, segir sagan. Ég gat ekkert breytt út af því og þótt bókin endi áður en til þess kemur er sagt frá því í eftirmála. Vítahringur er notuð við kennslu og ég fæ alltaf miklar umræður um þetta þegar ég fer í heimsóknir í skóla. Eitt sinn vorum við að ræða hvað þetta væri nú leiðinlegt, að hann hafi dáið svona ungur, en þá réttir ein stúlka upp höndina og segir: „Nei það finnst mér ekki neitt raunalegt, hann hefði hvort sem er verið dauður fyrir löngu.“ Sem er alveg rétt, sagan gerist upp úr 900. Krakkar geta verið svo raunsæir og við vanmetum þá oft.“ Í svefnrofunum kemur hún til mín. Dökkt hárið er skipt í miðju og glampi í augunum. Henni fylgir dauf sígarettulykt. Lucky Strike, Roy eða Geltandi hundur eða kannski Chesterfield? Nei, hún sagði að það væri óbragð af Chesterfield. Pakkinn var í svuntuvasanum og á þeim tíma hélt ég að væri sígarettupakki í hverjum svuntuvasa (Sólin sest að morgni, 7). ERFITT UPPGJÖR Nú mætti spyrja sig hvers vegna Kristín hafi ákveðið fyrir um tíu árum að færa sig yfir úr barnabókum og byrja að skrifa skáldsögur fyrir fullorðna. Svarið virðist þó liggja nokkuð ljóst fyrir þegar betur er að gáð; fyrsta fullorðinsbók hennar, Sólin sest að morgni, er hálfgerð endurminningabók og kemst lesandi vart hjá því að álykta að þar sé Kristín að gera upp við fortíð sem hafi sótt á hana lengi. „Já, ég byrja á bók sem er hálfgerð endurminning. Og í öllum þessum þremur fullorðinsbókum, en mest í þeirri fyrstu, geri ég nokkuð sem lætur mér vel, að segja frá hugarheimi barns. Þannig að kannski svindla ég svolítið, fer í gegnum barnið inn í þann fullorðna. Ég nota líka mikið myndræna, stutta kafla. Þessi leikur með myndir byrjaði í Engli í Vesturbænum en springur svona út í fullorðinsbókunum. „Hvernig var amma?“ spurði lítil manneskja einu sinni. Við vorum að dunda okkur í hlýju eldhúsinu. Ég hefði viljað segja frá veröld fullri af sólskini, frá öryggi og óbrotnum heimi en þá var eins og færi að snjóa og það setti hroll í bakið á mér (Sólin sest að morgni, 14). Sólin sest að morgni er afar persónulegt verk, hún fjallar um æsku Kristínar á Seyðisfirði en fyrst og fremst er hún minning um móður Kristínar sem átti lengi við veikindi að stríða og lést í hjartaaðgerð þegar Kristín var á menntaskólaaldri. Kristín viðurkennir að það hafi verið erfitt að skrifa þessa bók. „Ég var að gera upp við sorg en um leið fylgir því svo mikil hlýja þegar ég hugsa um alla góðu tímana og þessu vildi ég koma til skila. Ég var búin að vera svo reið, fannst þetta allt hafa verið svo ósanngjarnt, og „Ef þú vilt særa mig til ólífis þá segirðu að ég sé með predikun í bókunum mínum.“ Eftir Auði Aðalsteinsdóttur

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.