Spássían - 2011, Side 36
36
SÖGURNAR í bókinni Bavíani einkennast
af því að dregin er upp mynd úr lífi
persónu á augnabliki þegar eitthvað fer
úr skorðum; fólk fer úr jafnvægi, finnur
til öryggisleysis og verður (stundum
bókstaflega) nakið og varnarlaust. Það
sama hendir reyndar gjarnan lesandann,
því lestrarreynslan getur verið óþægileg
og truflandi. Enda er það markmiðið,
segir höfundurinn. Við eigum að trufla
hvert annað. En þótt aðferðin við að
skrifa hafi á þennan hátt sprottið upp úr
ástandinu í samfélaginu fjalli sögurnar
fyrst og fremst um tilvistarleg vandamál.
KNAPPUR STÍLL OG HRYNJANDI
Um miðjan maí mætti Naja Marie til
leiks á höfundakvöldi í Norræna húsinu
og svaraði spurningum þýðanda síns
og lesenda, því þegar hafa fjölmargir
Íslendingar lesið verk hennar á
frummálinu. Í máli þýðandans, Ingunnar
Ásdísardóttur, kom fram að þar sem
texti Naju Marie er oft knappur, með
einföldum og hnitmiðuðum setningum og
hvert orð úthugsað, hafi stundum tekið
sinn tíma að finna réttu orðin í þýðingunni.
Naja Marie sagði það vissulega hafa
haft sín áhrif að hún hóf sinn feril sem
ljóðskáld. Þaðan kæmi til dæmis áhersla
hennar á að segja ekki of mikið. Þegar
hún las upp úr smásögunni „Bulbjerg“ á
dönsku mátti að auki greina hversu mikil
hrynjandi er í textum hennar, nokkuð sem
ekki er jafn augljóst í íslensku þýðingunni
þótt þýðandanum hafi tekist vel að
fanga andrúmsloft sagnanna.
Naja Marie er orðin nokkuð kunnug
Íslandi, enda er þetta í þriðja skipti sem
hún kemur hingað til að kynna verk sín
og taka þátt í umræðum um þau. „Ég
er farin að rata aðeins um miðborgina,“
segir hún ánægð á kaffihúsi daginn eftir
höfundakvöldið. Hún bætir þó við þeirri
einlægu ósk að það fari nú að hlýna hjá
okkur og sumarið að koma.
STEPHEN KING MÆTIR HERMAN
BANG
Sögurnar í Bavíana einkennast af því
að vera eins og brot úr lífi persóna á
ögurstundu og oft er skilið við þær án
þess að lesandinn fái nokkra úrlausn.
Naja Marie segist sækja hér í sterka
danska smásagnahefð. „Herman Bang
var sérstaklega frægur fyrir þetta.
Sögurnar hans voru reyndar lengri
þannig að maður náði að kynnast
persónunum mjög vel þótt atburðirnir
væru ekki alltaf ógurlega dramatískir.
Sjálf vil ég hafa mikla orku í sögunum
mínum; byrja af krafti og halda orkunni
allt til enda. Það er ómögulegt að halda
slíkum krafti í gegnum heila skáldsögu,
það væri of þreytandi, en smásagan
býður upp á það. Persónurnar þurfa
heldur ekki að þróast, eins og í
skáldsögum, það er hægt að skilja
við þær án þess að þær hafi unnið á
nokkurn hátt úr því sem gerðist. Þegar
ég skrifaði Bavíana notaði ég reyndar
mikið aðferðir Stephens Kings; að láta
eitthvað óhugnanlegt birtast skyndilega
og hræða líftóruna úr persónunum.
Það má segja að þar mæti ljóðrænn
frásagnarháttur hinum brjálaða heimi
Stephens Kings í tilraun til að skapa
spennu.“
AÐ LÍTA ÚT FYRIR KYNIÐ
Naja Marie notar þó mun margvíslegri
aðferðir til að koma lesandanum úr
jafnvægi. Hún raskar til dæmis fyrirfram
gefnum hugmyndum um mikilvægi
kynjahlutverka með því að þvinga
stundum lesandann til að samsama
sig sögupersónu áður en í ljós kemur
af hvaða kyni persónan er. „Ég vildi
kanna hvaða merkingu kynið hefur í
bókmenntum og hvort það hafi einhverja
merkingu. Ég er ekki ennþá viss hvert
svarið er en tel það áhugavert fyrir
höfunda að hugsa um kyn á opnari
og frjálslegri hátt. Venjan er að skrifa
um konur á ákveðinn hátt og karla á
annan hátt en mér finnst áhugavert að
sjá hvort þessi svæði skarist ekki; reyna
að komast að því hvað er mannlegt og
sameiginlegt og hvað er kynbundið. Og
ég held að kynið skipti ekki svo miklu
máli. Það skiptir miklu máli í samfélaginu
því konur búa ekki við jafnrétti, en í
bókmenntunum höfum við frelsi til að
gleyma því öllu. Í ljóðum er til dæmis oft
ekki hægt að sjá hvort sjálfið sem talar
er karl eða kona – og við þurfum ekki
að vita það.“
LÍKAMLEG SKRIF
Persónurnar í Bavíana verða áþreifan-
lega varar við eigin viðkvæmni, ekki síst
líkamlega, og Naja Marie segir að hún
hafi verið að bregðast við góðærinu sem
var í hámarki í Danmörku um það leyti
sem hún skrifaði bókina, eða árið 2005;
efnishyggjunni, sjálfhverfunni, kröfunni
um fullkomnun og fjarlægð veikinda og
dauða. „Það var oft eins og fólk héldi að
það myndi aldrei deyja. En á sama tíma
fór fólk að þjást af stresssjúkdómum,
brenna út. Því þrátt fyrir atvinnuleysi
var samkeppnin um að græða sem
mest í algleymingi og margir stóðust
ekki álagið. Svo varð það skyndilega
fólki sjálfu að kenna ef það varð veikt;
það átti bara að borða hollt eða hætta
að reykja. Þessi nýi hugsunarháttur var
hálf fasískur að mínu mati, og orð eins
og samstaða og gjafmildi hurfu næstum
úr tungumálinu. Persónurnar í sögunum
mínum telja sig geta komist af án
annarra og að þær þurfi ekki að hjálpa
öðrum. En einhver eða eitthvað truflar
þær og stundum komast þær að því að
þær þurfa á þessari truflun að halda;
öðru fólki.“
Naja Marie tók þá ákvörðun að
nálgast efnið á líkamlegan hátt, að lýsa
til dæmis reynslu sögupersónanna með
líkamlegum viðbrögðum þeirra fremur
en hugsunum. Enda sé ómögulegt að
líta fram hjá því að líkaminn er mjög
viðkvæmur. Þetta kemur vel fram í
sögunni „Mýflugnabiti“, þar sem sterkur
og hraustur einstaklingur brotnar niður
Eigum að
trufla aðra
Bókmenntir eru alltaf viðbragð við því sem er að gerast
í heiminum í kringum okkur, segir danski rithöfundurinn
Naja Marie Aidt. Smásagnasafn hennar, Bavíani, sé
engin undantekning. Í sögunum hafi hún brugðist við
þeirri efnishyggju, einstaklingshyggju, sjálfselsku og
útlitsdýrkun sem einkenndi fyrir nokkrum árum danskt
samfélag; ekkert síður en íslenskt.
Eftir Auði Aðalsteinsdóttur