Spássían - 2011, Page 38
38
Músan og
klósettburstinn
Í SÖGUNNI „Grænn myrkviður“ eftir Naju Marie Aidt segir frá
manni sem þjáist af kvíða. Hann hefur einangrast frá mannlegu
samfélagi en ráfar angurvær um í náttúrunni og faðmar tré.
Maðurinn er truflaður af ungri konu í einni af þessum heilögu
stundum sínum og það kemur róti á líf hans, vekur hann að
einhverju leyti aftur til lífsins, þótt í lokin sé óljóst hversu langt
það nær. Naja Marie bendir á að maðurinn á gangi í náttúrunni
tengist mjög gamalli, rómantískri mýtu og hún leiki sér að vissu
leyti að þeirri klisju. „Hvernig stendur til dæmis á því að konur
eru aldrei á gangi í náttúrunni? Er það ekki skrítið? Það hlýtur
að vera út af því að karlar hafa svo mikinn tíma.“ Hún segir að
sagan fjalli þó ekki síður um það hvernig karlar horfa á konur.
Hún er sögð frá sjónarhorni karlsins og í upphafi er stúlkan
lítið meira en falleg mynd sem vekur með honum upphafnar
tilfinningar. En í lokin kemur hún honum á óvart, hún reynist
sterk kona, ekki saklaus stúlka. Um leið verður hún að fullgildri
sögupersónu; við fáum meiri upplýsingar um hana og allt aðra
mynd af henni; raunverulegri og nákvæmari. Við fáum einnig
að vita að hún er pirruð því hún hafði vilja sofa hjá manninum
en hann ekkert gert í því. Það kemur honum í opna skjöldu því
hann hélt að þetta væri svo upphafið rómantískt samband.
„Ég þekki svo marga menn eins og hann,“ segir Naja Marie.
„Þeir verða kannski ekki ástfangnir af trjám en þeir taka sjálfa
sig svo hátíðlega.“
Naja Marie veitir því hátíðleikanum viðnám í sögum
sínum. Hún bendir á að á vissum tíma í bókmenntasögunni
hafi höfundurinn verið hafinn upp úr því að vera bara
skemmtikraftur, eins og á tímum Shakespeares, í veru
sem situr í turninum sínum og skrifar List. „Það er mjög
karlmannlegt fyrirkomulag því fyrir það fyrsta lifa konur ekki
svoleiðis lífi; þær eignast til dæmis börn og hafa í gegnum
tíðina ekki haft tækifæri til að sitja í rólegheitum og skrifa. Það
er þessi upphafna ímynd sem ég vil stilla mér upp á móti.“
Á skáldskaparsviðinu hefur hefðbundið hlutverk kvenna
lengi verið bundið við það að vera karlskáldum yrkisefni og
innblástur, og er gjarnan talað um músur í því samhengi. Í
grískri goðafræði var hlutverk músanna, listgyðjanna, að blása
(karl)Skáldum skáldskaparanda í brjóst og í skáldskapnum
sjálfum var ávarp til þeirra hluti af frásagnartækni sem
gerði Skáldinu kleift að beina athyglinni að sjálfu sér og
setja hæfileika sína á stall sem guðdómlega. Enn í dag setja
ung Skáld sig í hátíðlegar stellingar og ávarpa músurnar
sínar „fegurðinni og veröldinni til heilla“. En nú bregður svo
við að músurnar virðast þreyttar á að þjóna á þennan hátt
uppskrúfaðri sjálfsmynd karla:
skólastrákur hallar sér einlægur fram
og horfir djúpt í augu músunnar sinnar:
þú ert eina konan sem hefur skilið mig
hann er með fellibyl í hjartanu
fegurðinni og veröldinni til heilla
hún með klósettbursta í hendinni
og kann ekki við að reka skaftið upp í rassgatið á honum (23)
Í þessu ljóðabroti úr nýrri bók Kristínar Svövu Tómasdóttur,
Skrælingjasýningunni, gerir hið upphafna viðfang þó ekki
aðra uppreisn en að hugsa sitt (og kannski er þarna vottur
af vorkunnsemi, karlskáldin eru svo ansi viðkvæm á sínum
einlægustu stundum og myndu kannski aldrei ná sér fengju
þau klósettburstann í rassgatið einmitt á því augnabliki). En
það gæti verið fyrsta skrefið að rífa allt heila klabbið niður í
huganum.
Skrælingjasýningin er í svipuðum dúr og fyrri bók Kristínar
Svövu, Blótgælur: Hún einkennist af óþoli gagnvart hinu
upphafna og tilraunum til að draga allt og alla niður af
stallinum, niður á jörðina þar sem við getum öll mæst á
jafnréttisgrundvelli. Og það er auðveldara ef við ímyndum
okkur þá sem við berum lotningarfulla aðdáun fyrir
„prumpandi undir sænginni“ – sem „félaga mann“. (19)
„Krass! Búmm! Harmafregn!“ (5) Í fyrstu línu hrynur bókin
með hamagangi í fangið á lesandanum og göslast svo með
ákefð af stað. Frásagnarmátinn sjálfur er mótspyrna gegn
lágstemmdri, „þroskaðri“ ljóðlist og í honum felst styrkur
þessara ljóða. Hér er mættur uppreisnargjarn unglingur
ljóðabókanna með kjaft, stæla og útúrsnúninga á milli þess
sem hann veltir sér upp úr ástarjátningum sem „skilja eftir sig
óbragð í munninum“ - og upp úr tilgangsleysi heimsins:
Tómur er heimur, þungur minn hugur,
lauflétt mitt frelsaða hjarta (15)
Það þýðir ekki að leita hér að einhverju sem snertir við
tilfinningunum, einhverju sem heillar, töfrar og tælir.
Markmiðið er niðurrif hins háleita og það er hressandi,
stuðandi, skemmtilegt og frelsandi. Eftir situr boðskapurinn
um að við eigum ekki að eira neinu, ekki að upphefja neitt:
og til hvers erum við hér
ef ekki til að níða það sem er ranglega heilagt?
(tímgast og rotna) (11)
Eftir Auði Aðalsteinsdóttur