Spássían - 2011, Qupperneq 44

Spássían - 2011, Qupperneq 44
 44 Lyklar sem ljúka upp túlkunarmöguleikum Museo Reina Sofía er uppgötvun út af fyrir sig. Líkt og Prado er það þjóðlistasafn og sérhæfir sig í varðveislu og miðlun nútímalistar, einkum verka spænskra listamanna. Frá opnun safnsins 1990 hefur það vaxið mjög og fyrir skemmstu vermdi það 16. sæti heimslistans yfir mest sóttu söfnin (Prado var þar í 9. sæti).1 Aðsóknartölur safnsins, rúmar tvær milljónir gesta á ári, má ekki síst rekja til aðdráttarafls Guernicu en verkið hefur þar miðlæga stöðu. Safnið er til húsa í fimm byggingum, þar af fjórum gömlum og afar fallegum. Þar eru fastasýningar á safneigninni auk sýninga á samtímamyndlist; yfirstandandi eru t.d. sýningar á verkum Yayoi Kusama og Leon Golubs. Glæsileg nýbygging, hönnuð af franska arkitektinum Jean Nouvel, var tekin í notkun 2005 og þar eru m.a. skrifstofur, bókasafn, veitingahús og aðstaða til ráðstefnu- og sýningarhalds. Sýningargestir taka strax eftir því andrými sem listaverkin hafa í sölum safnsins; áherslan er ekki á magn heldur yfirvegaða samstillingu verka. Forráðamenn safnsins eru meðvitaðir um sýningarsamhengi, þeim er raunar í mun að skapa samhengi sem opnar merkingarvíddir listaverka. Safnið er fráhverft 20. aldar safnafyrirmyndum þar sem listasagan er sögð sem rökrétt, línuleg þróun sem byggir á hugmyndum um algildi og á vestrænu sjónarhorni.2 Þess í stað er leitast við að draga fram ólík sjónarhorn á listasöguna og láta áhorfandanum margvíslega lykla í té. Uppsetning verka í safnrýminu felur í sér margar frásagnarleiðir, fremur en ákveðna frásögn. Við þetta skapast andrúm sem virkjar túlkun sýningagesta, túlkun sem fléttast saman við sögu, menningarminni, persónulega reynslu og minningar hvers og eins. Guernica í upprunalegu samhengi Safngesturinn velur sér einfaldlega flökkuleiðir um safnið sem henta hans áhugasviði. Í tilviki undirritaðrar lá leiðin um salina þar sem sýnd eru verk frá 1900-1945 og hverfast um „útópíur og átök“ 20. aldarinnar. Þar er leitast við að færa þjóðfélagssamhengi og hugmyndafræðileg átök inn í safnrýmið og vinna þannig gegn upphöfnum skilningi á safninu. Guernica er ekki lengur til sýnis eins og helgigripur í hofi – heldur sem mikilvæg og táknræn listræn tjáning í samspili við umhverfi sitt. Í verkinu kristallast dýnamísk leit Pablo Picasso að róttækum tjáningarformum á framúrstefnuvettvangi listarinnar – og mögnuð tjáning á tímum pólitískrar ólgu þegar uppgangur fasískra afla og nasisma olli spennu í Evrópu og borgarastyrjöld geisaði í heimalandi listamannsins. Tengslin við borgarastyrjöldina eru undirstrikuð með því að sýna svarthvíta fréttamynd í opnum sal gegnt veggnum þar sem Guernica hangir. Kvikmyndin fjallar um átökin er Franco hóf að sækjast eftir völdum; sjá má svipmyndir af rústum bygginga, fólki á flótta og líkum látinna barna, fórnarlömbum stríðsátakanna. Í sal skammt frá eru sýndar fréttaljósmyndir – áróðursmyndir teknar að undirlagi lýðveldisins sem barðist gegn Franco og þjóðarhreyfingunni, og á öðrum stað má sjá teikningar listamanna hliðholla lýðveldinu er löguðu framsækið myndmál að áherslum í anda þjóðfélagsraunsæis. Safnið á töluvert af teikningum, veggspjöldum og öðru sjónrænu, áróðurstengdu efni, efni sem hafði áhrif á listamenn á borð við Picasso og Joan Miró ekki síður en almenning. Tengsl framúrstefnu og áróðurs Áherslur í rými sem liggur á milli fréttamyndarinnar og Guernicu eru tvíþættar: Annars vegar eru þar undirbúningsmyndir sem Picasso hóf að vinna á tilfinningaþrunginn hátt í maíbyrjun, nokkrum dögum eftir loftárás nasista á Guernica – hann var þá búsettur í París og studdist við fréttaljósmyndir af vettvangi. Álitið er að svört, hvít og grá litanotkun í Guernicu skírskoti til ljósmynda og heimildakvikmynda. Hins vegar er í salnum bráðskemmtilegt líkan af spænska sýningarskálanum á Heimssýningunni 1937 í París, ásamt upprunalegum listaverkum, ljósmyndum (photomontage) og veggspjöldum sem sýnd voru í skálanum ásamt Guernicu. Má þar nefna skúlptúr eftir Alexander Calder auk veggspjalda Joan Miró. Inni í líkaninu er smækkuð útgáfa af málverki Picasso sem sýnir hvernig það blasti við gestum skálans – og í hvaða samhengi. Og samhengið var ekkert smáræði; ákall Spánar til umheimsins, eins og segir í veggspjaldi Miró, „Aidez l‘Espagne“ (Hjálpið Spáni). Markmið lýðveldisins á heimssýningunni var skýrt; að verja málstað sinn í baráttu gegn fasisma. Listrænn hönnuður stefnunnar var Josep Renau, yfirmaður stofnunar um verndun list- og menningararfleifðar, en hann mun m.a. hafa verið undir áhrifum frá sóvéskum áróðurskvikmyndum. Myndrænum áróðri og textum var beitt markvisst til að kynna spænska menningu og stefnu stjórnvalda; umbætur í landbúnaði og iðnaði, stuðning við menntamál og listir, varðveislu alþýðumenningar og lista með áherslu á fjölbreytni. Á sviði utandyra voru sýnd leikrit og spænskur dans, frétta- og heimildamyndir, m.a. eftir Luis Buñuel. Skálinn sjálfur er vitnisburður um nútímalega, stílhreina byggingarlist. Hann einkennist af léttleika sem er í vissri andstöðu við flókna íkonógrafíu áróðursefnisins – í fullkominni blöndu hönnunar og áróðurs, nútímahyggju í bland við átthagahyggju.3 Safnið leggur í framsetningu sinni áherslu á að Guernica og spænski skálinn afhjúpi pólitískt og útópískt eðli framúrstefnunnar. Hvað sem því líður endurspeglar uppsetning Guernicu í Museo Reina Sofía upprunalegt samhengi verksins, hvað snertir aðstæður við tilurð þess, miðlun og viðtökur. Guernica: Fagurfræði og boðskapur Myndmál Guernicu er í anda kúbisma og súrrealískra myndlíkinga. Í ársbyrjun 1937 pantaði lýðveldið stóra veggmynd eftir Picasso fyrir spænska skálann, og átti verkið að vera pólitískt. Sagt hefur verið að Guernica sé síðasta mikilfenglega sögulega málverkið í evrópskri listasögu – og að það eigi sér fyrirmynd í verkum annars spænsks meistara, Fransisco de Goya, Desastres de la Guerra, sem afhjúpaði ómennsku innrásarherja á dögum Napóleonsstríðanna með því að sýna ónafngreind fórnarlömb ofbeldisins. Myndbygging Guernicu hverfist um miðlægt form píramída, en tindur hans markast af ljósi í hönd konu er teygir sig inn um glugga hins óskilgreinda rýmis. Við dyr hægra megin fellur brennandi kona til jarðar. Nær miðju skín angistin úr augum særðrar konu og hests, sem talinn er tákna spænsku þjóðina. Fallinn hermaður á gólfi leiðir auga áhorfandans til vinstri þar sem móðir með látið barn sitt engist af harmi. Nautið þar hjá hefur verið túlkað á ýmsa vegu, m.a. sem táknræn skírskotun til nautaats og stríðsátaka. Mótbárur sumra í lýðveldisstjórninni vegna framúrstefnulegs stílsins hljóðnuðu við einróma viðtökur verksins í París. Friðarboðskapur þess og andstaðan við fasismann skilaði sér svo ekki varð um villst. Verkið tilheyrði Spáni en fór ekki þangað fyrr en landið var laust undan oki fasismans. Guernica, með boðskapur sinn, fór víða um heimsborgir og stuðlaði það að frægð myndarinnar. Guernica var

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.