Orð og tunga - 2020, Blaðsíða 44
32 Orð og tunga
Þótt í langflestum tilvikum séu til lýsingarorð við hlið nafnorðanna
eru einstaka göt. Þannig hafa t.d. ekki fundist lýsingarorð í venslum
við orðin antík og traffík. Það gæti þó verið tilviljun enda ekkert sem
mælir gegn slíkum orðum.
6.2 músíkalskur – músískur
Lýsingarorðið músíkalskur er að öllum líkindum komið til okkar úr
dönsku. Í dönsku, sjá Den Danske Ordbog, er orðið musikalsk sagt
komið úr þýsku, musikalisch, en þangað úr latínu, musicalis.
Hvort margir hafi amast við orðinu skal ósagt látið. En einhverjum
hefur þó ekki fallið alls kostar við það. Dæmi eru nefnilega til um
orðið músískur.
Bóklegar kjörgreinir í 3. bekk eru 6, alls 7 flokkar, en
músískar kjörgreinir eru þrjár ... (Tímarit.is/Menntamál
1967)
Orðið hefur ekki náð neinni fótfestu. En greinilegt er að hér er verið
að leita samræmis; höfundi hefur fundist orðið músíkalskur vera utan
kerfis sem það er í vissum skilningi og því kosið að nota orð sem
fellur að hefðinni. Það má sjá af samanburði við önnur orð, t.d. orðin
dramatískur, grafískur og pólitískur, sbr. nafnorðin dramatík, grafík og
pólitík. Því má líta svo á að orðið músískur sé gott dæmi um lærða
orðmyndun.
7 Lokaorð
Hér á undan hefur verið fjallað um gerð og beygingu fleirkvæðra
kvenkynsorða sem enda á ík. Orðin eru aðkomuorð og sum eiga sér
langa sögu í málinu. Þau eiga sér erlendar fyrirmyndir og eru þeim
merkingarlega jafngild. Mörg orðanna eru öllum kunn og mikið
notuð, t.d. pólitík og rómantík, önnur eru það væntanlega síður, t.d.
epík og kómík, og dæmi er um orð sem fullyrða má að aðeins örfáir
þekki, heraldík. Rökstutt var að ík í niðurlagi orðanna væri ekki
viðskeyti. Séu orðin fyrri hluti samsetts orðs þá eru slík orð yfirleitt
stofnsamsett. Þau eru í merkingarlegum tengslum við lýsingarorð
sem enda á ískur. Aðalviðfangsefni greinarinnar varðar þó beygingu
íkorðanna í eignarfalli eintölu.
tunga_22.indb 32 22.06.2020 14:03:50