Morgunblaðið - 06.06.2020, Side 35

Morgunblaðið - 06.06.2020, Side 35
MINNINGAR 35 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JÚNÍ 2020 ✝ HalldóraHauksdóttir fæddist 14. ágúst 1957 í Hafnarfirði. Hún lést 20. maí 2020 á Heilbrigð- isstofnun Suður- lands á Selfossi. Foreldrar Hall- dóru voru Haukur Jónsson, prentari í Hafnarfirði, f. 3.7. 1931, d. 31.7. 2001, og kona hans Guðný Lilja Jó- hannsdóttir, f. 1.8. 1935, d. 11.3. 2019. Systkini Halldóru eru Jó- hann, f. 18.10. 1953, Steinunn, f. 30.11. 1960, og Sigrún, f. 2.5. 1964. Eftirlifandi sambýlismaður Halldóru er Ófeigur Ófeigsson, f. 19.9. 1957, bóndi í Næf- urholti. Synir þeirra eru Hjalti, f. 5.6. 1986, og Geir, f. 26.9. 1990, kærasta hans er Silje Dahlen Alviniussen, f. 22.9. 1989. Halldóra tók gagnfræðapróf við Flensborgarskóla í Hafnarfirði og fór síðan í Fósturskóla Íslands. Vann hún í nokkur ár eftir út- skrift sem fóstra (leikskólakennari) bæði í Reykjavík (Grænuborg) og Hafnarfirði (Víðivöllum) áður en hún flutti alfarið að Næf- urholti 1986 og vann við heim- ilis- og bústörf eftir það. Í Næfurholti bjuggu einnig systkinin Ófeigur Ófeigsson, f. 20.1. 1914, d. 10.7. 1990, Geir Ófeigsson, f. 3.4. 1916, d. 25.5. 2006, og Jónína Ófeigsdóttir, f. 3.4. 1916, d. 13.2. 2013, tengda- móðir Halldóru. Útför Halldóru fer fram frá Skarðskirkju á Landi í dag, 6. júní 2020, klukkan 14. Móðir okkar Halldóra Hauks- dóttir er látin. Upp úr 1970 fór mamma í sveit, en móðursystir hennar hafði af því spurn að pláss væri fyrir stúlku í Næfurholti. Þar eyddi mamma nokkrum sumrum og kynntist þar mörgum öðrum krökkum sem voru þar í sömu erindagjörðum. Í Næfurholti bjó drengur sem var á sama aldri og hún, Ófeigur Ófeigs- son, sonur Jónínu Ófeigsdóttur, húsmóður í Næfurholti. Þegar tímar liðu og þau fullorðnuðust ákváðu þau að rugla saman reyt- um og stofna fjölskyldu, og eign- uðust okkur tvo. Mamma hafði mjög gaman af allri útivist og ferðalögum. Sem ung kona slóst hún í hópinn með Ferðafélaginu og ferðaðist víða um land, og kynntist þar fólki sem hún átti eftir að halda sambandi við allar götur síðan. Stundum fórum við fjölskyldan í smá ferðalög um landið. Alltaf var það skilyrði hjá mömmu að leggja skyldi snemma af stað og hafa daginn fyrir sér, en hún var ekki mikið fyrir að vera of sein, og til marks um það hversu snemma hún vildi leggja af stað var iðulega ekki hægt að fara í neina sjoppu fyrr en í fyrsta lagi í Borgarnesi ef farið var í vestur og stundum Vík en oftar Kirkjubæjarklaustri ef farið var í austur, það var einfald- lega ekki búið að opna fyrr. Tekn- ir voru nokkrir maraþonbíltúrar t.d. að Höfn og til baka á sama deginum. Upp úr stendur þó lík- lega ferðin frá Næfurholti til Ak- ureyrar og aftur til baka á sama deginum, 1.082 km. Þá var stopp- að lítið eitt hjá systur hennar sem býr á Akureyri og svo brunað heim jafnharðan, var rætt um það á heimleiðinni að gaman væri að taka svona túr til Ísafjarðar og fannst mömmu það ekkert tiltöku- mál þó það væri svolítið lengra, því þar þekktum við engan og þyrftum því ekki að tefja okkur á heimsóknum þar. Úr þeirri ferð varð þó aldrei. Mamma var ákaflega iðin og alltaf að, hún sá um heimilið alveg fram að síðustu stundu, segja má að hún hafi verið sannkölluð hús- móðir sem er alveg gríðarlega mikið starf og ekki alltaf metið að verðleikum. Einnig gekk hún í flest þau útiverk sem til féllu, hvort sem það var við mjaltir, sauðburð, á vélum í heyskap eða allt þar á milli. Hún vildi hafa fínt í kringum sig og setti niður helling af blómum á hverju vori og fylgd- ist með þeim vaxa og dafna yfir sumarið. Hennar helstu áhugamál voru prjónaskapur og bóklestur og segja má að þegar hún var ekki með prjónana í höndunum hafi hún verið með bók, fór hún létt með að klára eitt sokkapar á kvöldi og svo bók kvöldið eftir. Mamma greindist með krabba- mein 16. maí 2004 og hafði því bar- ist í akkúrat 16 ár við þennan ill- víga sjúkdóm. Sú barátta einkenndist af einstöku æðruleysi og jákvæðni og stóðst hún allar þær þrautir sem fyrir hana voru lagðar með glans nema þá síðustu, en hana sigrar víst enginn. Það er sárt að kveðja móður sína og söknuðurinn mikill þegar hún leggur úr höfn þessa heims og hverfur okkur sjónum við sjón- deildarhring lífsins, en kannski er önnur höfn handan þessa lífs þar sem verður tekið á móti henni og glaðst. Að því komust við seinna. Hafðu þökk fyrir allt, þínir syn- ir Næfurholtsbræður, Hjalti og Geir. Við andlát Halldóru Hauks- dóttur í Næfurholti reikar hugur- inn til baka. Kynni okkar ná allt aftur til miðbiks níunda áratugar- ins. Systkinin Ófeigur, Jónína og Geir Ófeigsbörn bjuggu þá í Næf- urholti í félagi við Ófeig son Jón- ínu og Halldóru konu hans. Ég er af síðustu kynslóð barna og unglinga sem voru send í sveit. Næfurholt varð mitt annað heimili og þar á ég enn mitt skjól sem aldrei bregst þótt fenni í mörg önnur. Sagt er að umhverfið móti manninn. Ríkulegt nestið úr sveit- inni hefur dugað vel. Heimilisfólk- ið í Næfurholti var gott fólk og líf- ið í baðstofunni í Næfurholti var þroskandi, þangað kom fjöldi fólks, umræðuefnin voru marg- breytileg og þar náði ég að sjá nýja og gamla tímann mætast. Ég segi stundum að í baðstofunni í Næfurholti hafi ég tekið mína fyrstu háskólagráðu, umræðurnar voru líflegar og vangavelturnar oftar en ekki heimspekilegar. Þar eignaðist ég fjársjóð sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Á heimilið í Næfurholti fluttist Halldóra Hauksdóttir úr Hafnar- firði. Fyrir unga konu var það ekki að öllu leyti einfalt. Með sinni einstöku hógværð og jafnaðargeði tókst henni þó að aðlaga sig breyttum aðstæðum og njóta þess sem annríki hinna fábreyttu daga bauð upp á í sveitinni fögru við rætur Heklu. Nærvera Halldóru var þægileg en ætíð var stutt í húmorinn og glaðværðina. Í seinni tíð nutum við þess stundum að rifja upp gamlar stundir og náð- um í sameiningu að sjá allt það fagra í veröld Næfurholtsins. Á fullorðinsárum varð það hlut- skipti mitt að kenna íslensku og sinna útgáfu bóka. Halldóra var sú manneskja sem best var lesin af samtíðarmönnum mínum. Hún seildist ótrúlega víða þegar kom að smekk á bókmenntum og upp í hugann kemur heimsókn í Næf- urholt þar sem í för var víðlesin kona og jafnframt bókaútgefandi. Hún varð agndofa eftir að hafa spjallað við Halldóru, því sjaldan hafði hún hitt fyrir jafn vel lesna manneskju enda lesið flest af því sem hún gaf út. Það var þess vegna gaman að færa Halldóru bækur, sér í lagi eftir að hún veiktist og segja má að þær hafi verið henni ljúft athvarf í erfiðum veikindum. Ég votta Ófeigi og sonum þeirra Halldóru, Hjalta og Geir, samúð mína. Þegar ég kom í Næf- urholt eftir að Halldóra lést sá ég skýrt hvernig öll lyndiseinkenni hennar, heiðarleikinn, dugnaður- inn og nærveran góða, búa áfram í sonum hennar. Að leiðarlokum þakka ég Halldóru Hauksdóttur samveruna. Minning hennar mun lifa í hjörtum okkar samferða- mannanna. Guðjón Ragnar Jónasson. Elsku Halldóra. Takk fyrir að vera svona róleg og vingjarnleg. Takk fyrir að taka mér opnum örmum og bjóða mig velkomna inn á heimilið þitt þrátt fyrir plássleysi. Þú hreinsaðir út úr skápnum og gerðir pláss fyrir mig og frá fyrsta degi fannst mér ég vera velkomin á heimilið. Mér er minnisstætt þegar ég var að búa til krækiberjasaft í eldhúsinu og sullaði á ljósa eldhúsborðið. Þú lést það ekki á þig fá og sagðir brosandi: „Þetta er ekkert mál, ég skrúbba þetta bara með Cif- kremi, þá fer það.“ Eins þegar við vorum að elda og þú sagðir: „Nú tökum við okkur pásu, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur, uppvaskið bíður okkar, því get ég lofað,“ og hlóst. Takk fyrir öll skemmtilegu samtölin sem við áttum inni við prjónana meðan strákarnir unnu úti. Takk fyrir að standa á þínu og senda strákana í skóla þrátt fyrir að það hafi ekki verið til siðs í Næfurholti. Og takk fyrir að kenna Hjalta að þrífa og Geir að elda. Takk fyrir að prjóna það marga ullarsokka á strákana að þeim mun vera hlýtt á fótunum það sem eftir er. Strákarnir lærðu af þér að kona þarf að hafa nóg af prjón- um og ull á heimilinu vegna þess að þú varst alltaf með nýtt verk- efni á prjónunum. Prjónaskapur var þitt aðaláhugamál sem þú naust alveg fram á síðasta dag. Meira að segja þegar þú komst síðast heim af spítalanum eftir löng veikindi og áttir að hvíla þig. Þú hafðir nýlokið Haföldusjalinu og þurftir að þrífa það og strekkja á því og fara upp bratta stigann til að koma því fyrir. Þegar kvöldaði varstu uppgefin og sagðir við mig: „Nú er ég búin, ég þarf að hugsa betur um mig, hvíla mig og ekki gera svona mikið.“ En auðvitað gastu ekki gert það og daginn eft- ir sagðir þú: „Ég ætla að skoða Haföldu“ og áður en ég gat komið að orði varstu komin upp hálfan stigann. Þú varst ákveðin í að gera þetta sjálf, og vildir ekki mína að- stoð. Þú gafst aldrei upp. Það er erfitt að hugsa til þess að þú komir ekki heim til okkar aftur. Ég mun sakna þín. Silje. Ég var í sveit að Næfurholti á árunum 1992-1996. Hvert sumar sem haldið var í sveitina - akkúrat þegar keyrt er fyrir hæðina sem hylur bæinn frá veginum – upp- lifði ég sterkar tilfinningar. Ég var full tilhlökkunar en líka ringl- uð því ég vissi að stór kaflaskil væru í vændum. Við tók nokkra mánaða dvöl í Næfurholti þar sem bærinn og landið í kring urðu skyndilega að öllum alheiminum. Á augabragði var Hafnarfjörður ekki til lengur og hvergi mátti koma auga á sjoppu eða malbik- aða botnlanga. Sveitin gegndi öll- um hlutverkum tilverunnar: bæj- arlækurinn þjónaði hlutverki stórfljóts og mjólkurkælis, bæk- urnar í herbergi „gamla“ Geirs gegndu hlutverki menntastofnana og að heimalningum var hvíslað dýpstu leyndarmálum og vitlaus- ustu vangaveltum. Smalahunda- rnir urðu að bestu samstarfsaðil- um og hestarnir að áhugaverðu afþreyingarefni. Kjarninn í þess- um „alheimi“ voru þau Ófeigur og Halldóra, sem tóku á móti ófáum krökkum til sumardvalar, og er ég ekki viss um að við höfum öll gert meira gagn en ógagn. Engu að síður tóku þau á móti okkur með bros á vör. Halldóra var frænka mín og guðmóðir. Þegar ég var krakki í sveitinni þá fannst mér hún svo gömul – en hún var þá innan við fertugt. Hún átti ásamt bónda sínum tvo drengi, 300 kindur, 7 hænur, 4 kýr og 4 hesta. Og á bænum voru 10-12 manns sem fengu að borða fjórum til fimm sinnum á dag. Það virðist ekki hafa hindrað Halldóru í að brauðfæða enn fleiri, en eitt sumarið tók hún til dæmis að sér árásarhneigða álft sem tók að búa á hlaðinu. Einn daginn kvaddi álftin, að- eins til að birtast í sjónvarpi allra landsmanna þar sem hún hafði komið sér fyrir á fótboltavelli og stöðvað mikilvægan leik. Svona hefur þetta reyndar verið alla tíð: það er sama hvert er farið eða hverju er velt upp, það má alltaf rekja atburði, menn eða málefni til Næfurholts. Það sem mér fannst hvað áhugaverðast var að á bænum var engin uppþvottavél en samt var boðið upp á margar kökur með kaffinu og kvöldkaffi, auk allra hefðbundinna máltíða. Fátt fór í taugarnar á blíðu Halldóru, nema þá hæg handtök við uppvaskið. Þegar hún varð vitni að einhverju „dúlli“ átti hún til að ranghvolfa augunum oft og hressilega. Annað sem mér þótti merkilegt var að Halldóra bakaði jólaköku viku- lega – allan ársins hring. Síðan komu aðrir hæfileikar í ljós: Hall- dóra hafði einstakt lag á að hjálpa kindum og kúm við burð, hún var húmoristi og sagnakona, hún var ökuþór og fljót á milli staða og hún var hógvær en samt mjög fé- lagslynd. Það var ljóst að henni þótti vænt um vinkonur sínar, sumar frá æskuárunum í Hafnarfirði, og drengina sína tvo. Hún hafði ein- stakt lag á að gera okkur á bæn- um dagamun: kíkja í Galtalækjar- skóg, fara í ferðalag með nesti og koma því til leiðar að við krakk- arnir færum á nánast ótömdum útigangshrossunum í kringum nokkur fjöll – af því að við suð- uðum um það sumarlangt og gát- um ekki skilið að þessir hestar væru ekki reiðhestar. Með þökkum og kveðju til fjöl- skyldu og vina. Fyrrv. heimasæta, Bryndís Björgvinsdóttir. Næfurholt hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu. Ég var svo lánsöm að langafi minn var far- arstjóri og fór með ferðamenn á Hekluslóðir í eldgosinu 1947. Þá voru hnýtt sterk vináttubönd hans og fólksins í Næfurholti sem leiddi til þess að afi minn dvaldi þar í mörg sumur sem ungur strákur og síðar móðir mín. Svo tók ég við og fékk að vera í Næfurholti í tvö sumur þar sem ég kynntist ein- stökum eiginleikum Halldóru. Ég eyddi miklum tíma með henni við ýmis húsverk og við töl- uðum alltaf saman eins og við hefðum verið vinkonur í mörg ár. Halldóra var einfaldlega yndisleg- asta kona sem ég hef kynnst og aldrei vantaði brosið á varir henn- ar. Ég vissi að hún væri að takast á við erfiðan sjúkdóm en það bar aldrei á því að hún væri veik. Hall- dóra reyndist mér alltaf vel, hún var góð og umhyggjusöm og ekki síst jákvæð, hvað sem bjátaði á. Slíkt hugrekki og óttaleysi er ekki öllum gefið. Ég mun sakna Halldóru af- skaplega mikið en ég veit að ég á eftir að hitta hana aftur einn dag- inn, glaða og káta eins og hún allt- af var. Hrefna Kristín Rúnarsdóttir. Minningar um sumrin mín í Næfurholti hafa oft haldið mér á floti þegar illa hefur árað í lífinu, minningar sem ég leita í og hvísl- aði til að sefja börnin mín á kvöld- in. Minningar um gott og gegn- heilt fólk, átakalaust líf innan um dýr og náttúru sem átti í mér hvert bein. Halldóra Hauksdóttir var ein af þeim, við vorum borgarstelpur sem áttu þarna yndisleg sumur ásamt öðrum krökkum, sem komu strax og skóla lauk á vorin og fóru treg í bæinn á haustin. Halldóra samt eldri en ég, en fyrirmynd okkar yngri, dugleg með verkvit og þroska og kvartaði aldrei yfir verkefnunum sem hún fékk í hendur. Skilvindan beið okkar daglega en strokkurinn sjaldnar. Flatkök- ur steiktar á olíufíringunni sem sá einnig um að halda hita á bænum og oft var rifist um kollinn við hlið eldavélarinnar til að ná í sig hita eftir kalda daga úti við þó í minn- ingunni hafi þeir ekki verið marg- ir. Mjólkin geymd í bæjarlæknum í brúsum, ísköld og svalandi. Kaffibaunir frá Kaaber brenndar í vélinni og margar tilraunir gerðar til að líka við kaffisopann. Kvart af kaffibætiskeilunni mulið í pokann í uppáhellingunni. Þvotturinn þveginn og skolaður í hreina vatn- inu í bæjarlæknum, borinn í bala upp fyrir bæ og hengdur á snúrur. Eftir baðferðir vikulegar með botnfylli baðvatns úr hitatanki á háaloftinu og eina rönd úr Hreins- hársápubrúsa í hárið var það þurrkað við hlöðuhornið. Við stelpurnar settumst á bæjar- tröppurnar og hlustuðum á lög unga fólksins í batteríisútvarpinu sem varð að spara, nutum þess að hlusta á vinsælustu lögin, kveðj- urnar og létum okkur dreyma á björtum sumarkvöldum. Kertaljós við háttatíma síðsum- ars, ullarsokkarnir stóðu eins og skór við rúmgaflinn, tilbúnir fyrir næsta dag, gúmmískórnir með hvítu röndinni úr Kaupfélaginu í anddyrinu og kötturinn fann sér stað á sænginni minni í elsta rúmi bæjarins hvert kvöld. Sumrin urðu að langtímadvöl hjá Halldóru. Hún varð bústýra í Næfurholti með Ófeigi sínum og framlengdu þau lífið með tveimur dugmiklum drengjum sem nú sjá á eftir móður og lífsförunaut. Það er alltaf sama tilfinningin hversu gömul sem ég verð þegar keyrt er fyrir hraunsnefið og bær- inn blasir við. Ætíð var komið út á tröppur með opinn faðm og boðið í bæinn þar sem borðið svignaði undan kökum og kruðeríi og þeim besta rjóma sem til er í veröldinni, gulum og þykkum. Yfir öllum kræsingunum var spjallað og spurt, menn og málefni rædd og það sem á daga hafði drifið. Að kvöldi svo haldið heim á leið, sátt í sinni og sæl í maga. Dóttir mín, Hrefna Kristín, fékk að dvelja í Næfurholti hluta tveggja sumra, tíma sem hún aldrei mun gleyma og var mér mikils virði að hún fengi að upp- lifa. Hún þótti nokkuð rösk til starfa líkt og móðir hennar og fékk þaðan hin bestu meðmæli. Hún sér á eftir góðum vini í Hall- dóru líkt og ég. Ég og fjölskyldan sendum sam- úðarkveðjur til feðganna, Ófeigs, Hjalta og Geirs og systkina Hall- dóru sem sáu einnig á bak móður sinni í vetur sem leið. Elsku hjartans Halldóra: Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Sigríður Ásta. Minningargreinar eru oftar en ekki skyndimyndir, örfáar minn- ingar um kæran vin og/eða ætt- ingja. – Örfáir dagar liðu frá því ég talaði síðast við Halldóru Hauksdóttur, húsfreyju í Næfur- holti á Rangárvöllum, og þar til ágengur sjúkdómur slökkti síð- asta lífsneista hennar í Sjúkrahús- inu á Selfossi. Þar með lauk ára- langri baráttu við óvætt sem hún barðist við af miklu æðruleysi. Ég greindi nokkra uppgjöf í orðum hennar um óumræðilega þreytu og getuleysi til allra verka. Ella var hún ekki kvartsár og nær und- antekningarlaust brosmild og glaðsinna. Hún var mikil hetja í mínum huga. Halldóra var 14 ára árið 1971, þegar hún kom fyrst í Næfurholt, snúningastelpa sumarlangt. Hún var hávaxin, grönn og með mikið og fallegt rautt hár. Hún var fljót að aðlagast fólki og sveitastörfum. Hún var komin í sína paradís í fal- legri sveit við rætur Heklu. Smátt og smátt lengdist sumardvölin. Hún lauk fóstrunámi og starfaði sem fóstra um nokkurt skeið, en í Næfurholt lá leiðin að lokum. Í Næfurholti kynntist hún ung- um og myndarlegum manni, Ófeigi Ófeigssyni, sem rekur ættir sínar til nokkurra kynslóða ábú- enda, þar sem Ófeigsnafnið og mikil saga er að baki. Samband þeirra varð fljótlega kærleiksríkt og tveir synir þeirra, Hjalti og Geir, tryggja nú, ásamt föður sín- um, áframhaldandi búskap á Næf- urholtsjörðinni, sem í árhundruð hefur staðist ágang náttúruafla; eldgosa og landskjálfta. Tvisvar fyrir margt löngu þurfti að flytja bæinn; í fyrra skiptið undan hraunstraumi, í hið síðara vegna jarðskjálfta sem lögðu öll bæjar- hús í rúst. Halldóra var húsfreyja í liðlega 100 ára gömlu bæjarhúsi sem hýsti margar glaðar stundir, mannlega hlýju og gestrisni og þar sem allir finna fyrir ein- stökum friði og ró. Þar hafa tugir aðkomubarna átt ljúf sumur, allt frá fimmta áratug síðustu aldar. Hin síðari ár nutu þau umhyggju Halldóru og eiga um hana góðar minningar. Húsfreyjustarfið fór Halldóru vel úr hendi. Hún og bóndi hennar tóku vel á móti mikl- um fjölda gesta. Þar í hópi voru margir fyrrum kúasmalar sem héldu tryggð við sveitina sína og komu þangað með börn og barna- börn. Það voru ekki bara inniverkin sem komu í hlut Halldóru. Í góðu veðri og heyskapartíð naut hún útiveru og lagði krafta sína til flestra verka. Þegar hún veiktist hastarlega fyrir nokkrum árum naut hún umhyggju bónda síns og sona. Sjálf ræddi hún lítið um veikindin og það varð ekki greint í daglegum samskiptum hvað hún mátti líða. En nú er þessi yndis- lega kona horfin sjónum og skilur eftir sig stórt og vandfyllt tóma- rúm. Það verða ekki bara mennskir vinir sem sakna hennar, heldur einnig dýrin og náttúran. Ég og fjölskylda mín munum seint geta fullþakkað Halldóru og ábúendum Næfurholts fyrir hlýju og vináttu sem við nutum um ára- tuga skeið og byggðist á eðlis- lægri elskusemi þeirra. Við og Valgerður Þorbjörg og afkomend- ur í Vesturheimi og Gunnhildur í Osló sendum Ófeigi og sonum ein- lægar samúðarkveðjur. Árni Gunnarsson. Halldóra Hauksdóttir Davíð útfararstjóri 551 3485 - www.udo.is Óli Pétur útfararstjóri

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.