Skólavarðan - 2017, Síða 4
4 SKóLAvARðAN VOR 2017
Þórður Á.
Hjaltested
formaður KÍ
Hún er áhugaverð þversögnin sem birtist í annars vegar
orðum og hins vegar gjörðum núverandi stjórnvalda
þegar kemur að menntamálum. Orðin eru eitthvað á þá
vegu að bæta þurfi samkeppnishæfi þjóðarinnar með því
að tryggja landsmönnum eins góða menntun og mögu-
legt er. Styðja þurfi við bakið á skólum, kennurum og
nemendum og tryggja að í kennslu veljist sem allra
bestir starfsmenn. Með því sé horft til framtíðar
og fjárfest í þekkingu öllum til hagsbóta. Aðeins
þannig sé hægt að tryggja að Ísland og Íslendingar
skari fram úr á öllum þeim sviðum sem raun ber
vitni. Enda viljum við enga afturför – heldur þarf
að bæta í og gera betur en nokkru sinni fyrr. Falleg
orð sem hljóma skynsamlega og erfitt er að andmæla.
En gjörðirnar eru allt aðrar
Síðustu vikur og mánuði hafa forsvarsmenn háskólanna
stigið fram til að benda á að miðað við þá fjármuni sem
stjórnvöld ætla í rekstur skólanna á næstu árum þurfi
að draga saman seglin, minnka námsframboð, skerða
þjónustu og draga úr kennslu. Allt þetta þýði aðeins
eitt – skólarnir verða verri en áður þar sem þeir verða
að skerða þjónustu. Þvert á það sem talað er um að eigi
að gera. Í framhaldsskólanum á að nýta fjárhagslegan
ávinning af styttingu náms til stúdentsprófs um eitt ár
einhvers staðar allt annars staðar en í skólunum sjálf-
um. Þetta er gert þvert á fyrri yfirlýsingar. Af þessum
völdum þurfa framhaldsskólarnir að halda áfram að
spara á næstu árum, eins og þeir hafa verið neyddir til
að gera síðustu áratugi. Engin áform virðast heldur uppi
um að leggja til hliðar þá stefnu að takmarka aðgengi 25
ára og eldri að námi í framhaldsskólum landsins.
Ef horft er til skólakerfisins í heild þá er beðið eftir
að stjórnvöld bregðist við skýrslu Ríkisendurskoðunar,
sem staðfestir enn einu sinni viðvarandi kennaraskort
í leikskólunum og yfirvofandi kennaraskort í grunn- og
framhaldsskólum. Þar kemur fram svart á hvítu að
aðsókn að kennaranámi hefur dregist svo mikið saman
síðustu ár að í óefni stefnir. Tíminn til að bregðast við
vandanum er núna, en ekki þegar hann er orðinn ennþá
stærri. En æpandi þögnin um málið frá yfirvöldum
menntamála hjá ríki og sveitarfélögum blæs manni
því miður ekki bjartsýni í brjóst um að vandinn verði
leystur. Þegar málið var rætt á nýafstöðnum ársfundi
KÍ lagði borgarstjóri höfuðáherslu á að bæta ímynd
kennarastéttarinnar. Þannig mætti fjölga nemendum í
kennaranámi. Menntamálaráðherra líkti vandanum við
hvert annað verk sem menn þyrftu að einhenda sér í að
leysa. Því verki kviði hann ekki, málin hefðu „slumpast“
fram að þessu og myndu eflaust gera það áfram.
Ábendingum mínum og annarra kennara í salnum, um
að lykilverkefni til að snúa þróuninni við væri að bæta
kjör og starfsaðstæður kennara, var tekið fálega.
Þó það hafi ekki komið fram í orðum ráðherra
og borgarstjóra á ársfundi KÍ er í opinberri umræðu
bent ítrekað á að kennarar hafi síðustu misseri notið
kjarabóta langt umfram aðrar stéttir. Í framhaldi er
gefið í skyn að nú sé komið að öðrum hópum. Með
öðrum orðum – kennarar hafi fengið nóg og laun þeirra
séu komin á „sinn stað“ þegar þau eru borin saman við
aðrar stéttir. Þar birtist þversögnin í þeirri staðreynd
að á sama tíma eru kennarar notaðir sem dæmi um vel
menntaðan hóp sem býr á mörkum fátæktar, því séu
þeir ekki vel giftir dugi laun þeirra ekki til sómasam-
legrar framfærslu í landi sem leggur alla þessa áherslu á
mikilvægi menntunar. Vissulega hafa kjörin batnað og
það talsvert síðustu árin en þar eru kennarar ekki komir
á neina endastöð. Halda þarf þeirri vegferð áfram að
hækka laun þeirra sérstaklega og við hjá KÍ erum ekkert
hrædd við að segja það hvar og hvenær sem er. Rökin
fyrir því eru einföld. Kennarar eiga að vera vel launaðir,
starfið á að vera eftirsótt og vinnuaðstæðurnar góðar.
Þar til þeim markmiðum er náð höldum við baráttu
okkar áfram. Á öllum þeim árum sem ég hef starfað
fyrir Kennarasambandið hefur enginn mótmælt því að
kennarastarfið sé mikilvægt, eða að kjör kennara eigi að
vera betri en þau eru. Engu að síður hefur þurft að sækja
launahækkanir kennara síðustu misseri af hörku, því
þó talað sé fjálglega um að vandinn sé til staðar skortir
verulega á að því fylgi aðgerðir.
Við kennarar höfum fyrir löngu fengið nóg af
innantómum orðum. Nú er kominn tími til að efna
loforð og styðja við bakið á skólakerfinu og þar með
menntun í landinu. Kominn er tími til að skapa sátt um
kennarastarfið og skólana. Ég fullyrði að taki stjórnvöld
á sig rögg og setji menntun í forgang verði fáir til að
mótmæla. Látum ekki orðin og loforðin vera innantóm
og ódýr.
ORð ERU óDÝR
Nú er kominn tími til að efna
loforð og styðja við bakið
á skólakerfinu og þar með
menntun í landinu.