Morgunblaðið - 28.01.2021, Page 57
MENNING 57
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JANÚAR 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI.
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
THE HOLLYWOOD REPORTER
CHICAGO SUN-TIMES
LOS ANGELES TIMES INDIEWIRE
VA R I E T Y C H I C AG O S U N
T I M E S
I N D I E W I R E T H E T E L E G R A P H
ROGEREBERT.COM
Sviplegt fráfall Jóhanns Jóhannssonarvar íslensku listalífi mikill harmur ogmarka verk hans djúp spor. Á ní-unda og tíunda áratugnum haslaði
hann sér völl sem framsækinn tónlistarmaður
– ýmist sem hljóðfæraleikari, lagahöfundur
og upptökustjóri – og var m.a. viðloðandi
skóglápssveitina Daisy Hill Puppy Farm, hið
þunga rokk HAM-verja, tripphoppþríeykið
Lhooq, Stuð-plötu Páls Óskars og auðvitað
rafknúna keyrsluleiðslu Apparats Organ
Quartets. Upp úr aldamótum hóf hann sóló-
útgáfu undir eigin nafni og mikil velgengni
sem kvikmyndatónskáld fylgdi í kjölfarið.
Tónlistina í stórmyndum leikstjórans Denis
Villeneuves Prisoners, Sicario og Arrival ber
þar hæst en einnig má nefna myndina The
Theory of Everything, sem hann hlaut fyrir
tilnefningu til Óskarsverðlauna. Á þennan
hátt ruddi Jóhann braut fyrir íslenska tón-
listarmenn í hinum alþjóðlega kvikmynda-
heimi.
Jóhann var ekki maður fárra verka og lét
einnig til sín taka sem leikstjóri. Hinstu og
fyrstu menn er hans fyrsta og jafnframt síð-
asta kvikmynd í fullri lengd en áður hafði
hann gert stuttmynd með Ozu-legum titli,
Sumarlok (End of Summer, 2014). Sumarlok
fangar mörgæsir og landslag Suðurskauts-
landsins með svarthvítri súper-8-filmu og
parar það við naumhyggjulega dramatík tón-
listar Jóhanns. Fagurfræðilegur þráður milli
verkanna er nokkuð augljós. Þess ber að geta
að gerð Hinstu og fyrstu manna var ekki lok-
ið að fullu þegar Jóhann féll frá en verkinu
var siglt í land af samstarfsfólki hans, með
Þóri Snæ Sigurjónsson framleiðanda hjá Zik
Zak í fararbroddi.
Kvikmyndin hefst á myrkri mynd og sögu-
mannsrödd Tildu Swinton ávarpar áhorf-
endur með beinum hætti úr órafjarlægri
framtíð og tilkynnir að „við erum hinstu
mennirnir“, og hlustið nú. Billjónir ára hafa
liðið og mennirnir dáið, fæðst og stökkbreyst
í ótal myndum en dagar skepnunnar eru að
líða undir lok vegna aðsteðjandi loftslagsvár.
Gegnumgangandi frásögn Swinton og texti
hennar er aðlögun Jóhanns og Josés Enri-
ques Maciáns á broti úr samnefndri vísinda-
skáldsögu Bretans Olafs Stapledons frá árinu
1930. Vísindaskáldsagan veitir verkinu
ramma og leikreglur til að vinna eftir.
Strangt til tekið væri hægt að flokka mynd-
ina undir hatt leikinna frásagnarmynda, þótt
engin eiginleg framvinda eigi sér stað, þar
sem sögumaður setur fram skáldaðan texta
um ímyndað samfélag. Verkinu verður þó
ólíklega notið mest á þeim forsendum. Einnig
væri unnt að flokka myndina sem eins konar
heimildarmynd eða essajumynd – og má
greina hliðstæður við meistaraverk Chris
Markers, La Jetée, í efnistökum.
Hinstu og fyrstu menn samanstendur af
þremur mismunandi þáttum og samspili
þeirra; áðurnefndri frásögn hinsta mannsins,
hinu sjónræna og tónlistinni. Rýnir leit fyrst
og fremst á textaþáttinn sem stemningu,
hluta af heildaráferðinni – en veitti honum
aðeins temmilega athygli og hengdi sig ekki á
inntakið. Rödd Swinton ljær myndinni vigt og
yfirbragð breskrar náttúrulífsmyndar, sem
er vel.
Hið sjónræna og útfærsla þess er gífurlega
tilkomumikið. Kvikmyndatökunni stýrir
Norðmaðurinn Sturla Brandth Grøvlen (er
auk þess framleiðandi) en þar er greinilega
mikill hæfaleikamaður á ferð. Á ferilskrá
hans eru Hjartasteinn, Hrútar, hin danska
Drykkja (sem er enn í kvikmyndahúsum),
þýska „einnar töku“ þeysireiðin Viktoría
(2015) og rithöfundadramað Shirley (2020).
Samstarf þeirra Jóhanns skilar nokkuð sér-
stæðu sjónarspili. 16 mm svarthvít filma
myndar brútalískan arkitektúr í víðfeðmu og
köldu náttúrulandslagi. Stundum er mynda-
vélin nálægt viðfangi sínu og færir sig hægt
og bítandi fjær því; og það sem fyrir augu ber
verður fallega órætt og ókennilegt. Almennt
er innrömmun afar öguð og samhverfur ein-
kenna myndmálið en skringilegir tökuvinklar
og -hreyfingar brjóta það upp þegar við á,
ýmist í takti eða stríðu við tónlistina. Mann-
virkin sem sjást eru öll í gömlu Júgóslavíu og
voru byggð þar í stjórnartíð Títós og komm-
únistaflokksins. Hér er þeim skeytt inn í
framtíðarsamhengi sem eins konar framand-
legu verksummerki vitsmunalífs.
Myndirnar eru magnaðar upp af drunga-
legri tónlist Jóhanns og Yairs Elazars Glot-
mans. Selló og strengir eru fyrirferðarmiklir
(leiknir af þjóðhetjunni Hildi Guðnadóttur en
þau Jóhann voru nánir samstarfsmenn)
ásamt kórröddum. Bassasaxófónn Colins
Stetsons gegnir mikilvægu hlutverki en út-
setningar eru í höndum Viktors Orra Árna-
sonar og er valinn maður í hverju rúmi. Upp-
bygging myndarinnar er samofin tónlistinni
en hægt og hægt er farið úr hljóði og kyrrð í
átt að kraftmiklum þunga sem rís og nær
hæstu hæðum þar til leikar róast aftur og
hringrás hefst á ný. Hugrenningatengsl til
plötu Jóhanns, Orphée, láta á sér kræla.
Eins og við má búast er hér um verk að
ræða þar sem hljóð og mynd fara einkar vel
saman. Ekki er aðalatriði undir hvaða for-
sendum þeirra er notið – verkið á jafnvel
meira skylt við myndlistarinnsetningu en
hefðbundna ræmu með kábojs og indíánum á
Marvel-stuttbuxum. Með þolinmæðina að
vopni eru þó allir vegir færir. Ótvírætt telst
það mikill kostur að kvikmyndin er aðeins 72
mínútur og reynir þar með ekki um of á þan-
þol þeirra ókyrrustu. Óskandi er að sýningar-
stjóri leyfi lokaandartaki og endatitlum
myndarinnar að lifa í myrkri svo galdurinn sé
ekki rofinn of snemma.
Hinstu og fyrstu menn er minnisvarði um
einstakan listamann og eru allir íslenskir list-
unnendur hvattir til að berja hana augum á
hvíta tjaldinu, þar sem hennar verður best
notið.
Magnaðir minnisvarðar
Brútalismi Mannvirkin í kvikmynd Jóhanns eru öll í gömlu Júgóslavíu og voru byggð þar í stjórnartíð Títós og kommúnistaflokksins.
Bíó Paradís
Hinstu og fyrstu menn/ Last and First Men
bbbbn
Leikstjórn: Jóhann Jóhannsson.
Handrit: Jóhann Jóhannsson, Olaf Stapledon, José
Enrique Macián. Klipping: Mark Bukdahl. Kvik-
myndataka: Sturla Brandth Grøvlen. Tónlist:
Jóhann Jóhannsson, Yair Elazar Glotman. Aðal-
leikari: Tilda Swinton. Ísland, 2020. 72 mín.
GUNNAR
RAGNARSSON
KVIKMYNDIR