Strandapósturinn - 01.06.1969, Qupperneq 56
störfum fyrir félagsverzlunina. Þann vetur vann hann að smíði
á sexæring í pakkhúsi Brydesverzlunar, ásamt Jóni Andréssyni,
síðar bónda á Ballará og var Pétur þá að búa sig undir að
flytjast frá Borðeyri um vorið. Hann fór frá Borðeyri áður en
ísa leysti af Hrútafirði. Hann lét hesta draga bátinn á ísnum út
fjörðinn, sigldi síðan út í Bitrufjörð, lét draga bátinn yfir háls-
inn milli Bitrufjarðar og Gilsfjarðar og flutti farangur sinn sömu
leið. Sigldi hann síðan vestur í Akureyjar til föður síns Friðriks
Eggerz.
Vorið 1878, er Thor Jensen kom til Borðeyrar, segir hann
svo í minningum sínum: „Byggðin á Borðeyri var ekki önnur
en verzlunarhús og íbúðarhús Clausensverzlunar og gamall torf-
bær, sem fylgdi þeirri eign“.
Eftir því vírðist Clausensverzlun hafa keypt húseignir félags-
verzlunarinnar á Borðeyri og félagsverzlunin þá hætt, enda getur
Thor Jensen hennar ekki í minningum sínum.
Hvað var það, sem gerðist í rekstri félagsverzlunarinnar, að
hún hættir eftir svo fá ár? Hagar hennar virðist góður og hún
á sitt eigið skip „Elfridu“. Ég hefi ekki fundið heimildir, er skýri
frá félagsslitum og ástæðum fyrir þeim. Hver er hann þessi 5
ára samningur sem minnzt er á í dreifibréfinu frá 1872? Hvenær
hættir félagsverzlunin starfsemi sinni? Hætti félagið vegna rekstr-
arörðugleika? Þá væri fengin skýring á því hvers vegna það hættir
svo skyndilega. Hvað varð um hluti manna í félaginu? Jónadab
Guðmundsson segir að menn hafi tapað hlutum sínum. Var það
í þessu félagi? (Ef einhver af lesendum Strandapóstsins gæti gef-
ið svör við þessum spumingum, þá væri mjög vel þegið, að fá frá
honum greinarstúf með upplýsingum um þessi atriði).
Viðskiptamenn félagsverzlunarinnar virðast fullir af áhuga á
samvinnuverzlun, því þeir mynda pöntunarfélög í sambandi
við hrossa- og sauðakaup Slimons og Coghills. Strax árið 1880
og árið 1886, þegar verzlunarfélag Dalasýslu er stofnað, eru
Strandamenn þar á stofnfundi, þó eigi stofnuðu þeir félagsdeild
fyrr en síðar, og Húnvetningar komu svo brátt á eftir, eða árið
1891.
54