Strandapósturinn - 01.06.1969, Side 118
Þann tíma, sem ég dvaldi í borginni, hafði ég það fyrir sið að
ganga spölkorn mér til hressingar.
Á einni af þessum gönguferðum kom ég að, þar sem börn voru
að leik.
Svo hagaði til, að leikvöllurinn var staðsettur neðan við hjalla,
þar sem ég hafði staðnæmzt.
Það sem blasti við augum voru nokkur hvít börn, sem voru
að kvelja lítinn svertingjadreng. Hann leit út fyrir að vera um
það bil sjö ára.
Talsvert eldri telpa var forsprakki hvítu barnanna. Þau létu
hann aldrei í friði. Hann færði sig frá einum stað á annan, en
alltaf fylgdu hin eftir undir forystu stóru telpunnar. Þau upp-
nefndu hann ýmsum ljótum nöfnum og jusu yfir hann sandi.
Stóru dökku augun hans voru sorgmædd, en einnig mátti greina
í þeim mikla þolinmæði, þolinmæði hins þjakaða.
Leikurinn barst þangað sem ég stóð, án þess að þau tækju eftir
mér. Hann varð fyrstur til að sjá mig, hin sneru baki við mér.
Þau sáu, að hann horfði á eitthvað, og litu við. Eg sá, að þeim
brá. Það ríkti algjör þögn, aðeins niður umferðarinnar í fjarska.
Stóra telpan horfði á mig eins og hún vildi nísta mig í gegn
með augnaráðinu. Hún fann, að ég var bandamaður hans.
Ég veit ekki, hve lengi við horfðumst þannig í augu, en loks
leit hún undan og rölti í burtu.
Þá varð mér litið á vin minn. Himneskt bros ljómaði á dökka
andlitinu.
Ég gekk þangað á hverjum morgni eftir þetta, þann tíma, sem
ég dvaldi í borginni.
Lengi endurtók sig sama sagan. Á endanum held ég, að þau
hafi verið hætt að stríða honum, þau voru meira að segja farin
að leika við hann.
Ef til vill hafa þau haldið, að ég væri á einhvern dularfullan
hátt send til að vemda þennan dreng.
Þegar ég svo flaug yfir borgina á heimleið, var hann mér
efstur í huga, þessi litli saklausi drengur, sem leið fyrir lit sinn.
116