Strandapósturinn - 01.06.1969, Side 127
Heilu og höldnu náðum við landi í Sléttuvíkinni og komum
hnyðjunni í bátinn, en þar með sagði ég afa mínum upp hollust-
unni og harðneitaði að sigla með honum til baka og vildi frekar
lcggja á mig að labba heim alla ströndina, þrátt fyrir alls konar
hættur, sem mönnum á mínum aldri stóð stuggur af.
Eftir þetta ævintýri með afa mínum átti ég sem oftar erindi
út á strönd. Þá hafði frétzt að rekið hefði í Kaldbak og inn á
Reykjarfjörð leifar nokkurra þeirra manna, sem tortímt var í
stríðinu af skipalest á leið til Murmansk. Afi minn hafði þá reglu
að ganga reka eftir norðangarð, og hyggja að látnum bræðrum
sínum ef þá skyldi bera að landi á Kaldrananesfjörur.
Svo við víkjum aftur að upphafi þessara frásagnar, var ég að
lalla um Skeljavíkina og sá þar þá nokkuð, sem mér stóð mikill
ótti af. Upp úr þarabrúkinu glytti í tuskuræfla og varð mér nú
ekki um sel.
Hugmynd hafði mér verið gefin um það, að ekki yrði sá láns-
maður, sem gengi framhjá líki án þess að gera því eitthvað til góða.
Margt brá mér í hug og dreg ekki fjöður yfir, að þar toguðust
á skyldurækni og ótti.
Nú varð mér fyrst fyrir að gá hvort ég hefði nothæfan vasa-
klút, ef viðkomandi í þarabrúkinu hefði andlit. — Jú, það var
í lagi með klútinn og tók ég nú í mig kjark og færði mig hikandi
niður fjörukambinn.
Ég fór nú titrandi höndum að greiða þungan þarann frá „nán-
um“ og komst þá að raun um að þama var um hálmdýnu að ræða.
Ekki hirði ég um að lýsa feginleik mínum, að þarna lá ekki
það sem ég óttaðist að finna, en var þó hálfergilegur við hálm-
dýnuna fyrir að gera mér þetta hugarangur og skrekk.
Hér verður staðar numið. — Ef til vill leik ég mér að gullum
bernsku minnar síðar.
125