Strandapósturinn - 01.06.1974, Page 76
Þá þakkaði Jóhannes Elenborgu fyrir vísuna og sagði.
Oft á lífsins ljúfu vöku
léttur hugur víða fer,
ef þú kveður eina stöku
aftur skal ég launa þér.
Varð nú ekki meira af vísnagerð að sinni, kórinn söng
lystilega og áheyrendur hrifust með og blönduðu geði við
söngfólkið.
Þegar komið var inn að botni Hvalfjarðar tók einhver eftir
því, að rútubíll fylgdi fast eftir og var hvert sæti í honum
skipað lögreglumönnum og meðal þeirra væru tvær konur.
Einhver þóttist sjá börn í bílnum, en aðrir töldu það útilokað,
af ástæðum sem ekki þyrftu skýringa við.
Þeir sem léttlyndastir voru, héldu því fram, að lögreglan
væri send okkur til fylgdar vestur, eins og værum við
þjóðhöfðingjar og töldu það að vonum eðlilegt og sjálfsagt. Þá
varð þessi til.
Hér er ekkert hugar víl
horfinn sérhver brestur.
Af löggu fengum fullan bíl
til fylgdar okkur vestur.
Aðrir, sem voru raunsærri, töldu að þessir lögreglumenn
væru á leið í Vatnsfjörð eins og við og ættu að halda þar uppi
lögum og reglu. Sérstaklega var sú skoðun rökstudd með því,
hvað allir lögreglumennirnir voru stórir og kraftalegir, sem
myndi stafa af því, að á móti Vestfirðingum, ef til óspekta
kæmi, þýddi ekki að senda nema jötuneflda menn. Ein konan
í bílnum var sármóðguð og taldi, að ekki þyrfti að senda
kvenlögreglu á samkomur Vestfirðinga, því vestfirskar konur
væru aldrei með óspektir á almanna færi, það væri langt fyrir
neðan virðingu þeirra.
Þa varð þessi vísa til.
74