Strandapósturinn - 01.06.1974, Síða 99
Svo var það á einu sumri, að svo miklir þurrkar gengu, að
Bæjará þraut, og Imba gat hvergi fundið vatn til þess að þvo
skyrsíuna. Bregður hún þá á það ráð, að ganga upp á Sviðu og
þvo síuna í tjörninni, en svo slysalega tókst til, að hún steyptist
í tjörnina og drukknaði. Síðan hefur tjörn þessi verið við hana
kennd og kölluð Imbutjörn.
Samkvæmt hinni sögunni átti Imba ekki heima í Bæ, heldur
í Bakkadalnum.
Þá gerðist það á einu hausti síðla, að hún fer yfir Sviðu að
Bæ, til þess að sækja þangað kálf og rokk. Það var tekið að
dimma, þegar hún heldur af stað með rokkinn á bakinu og
kálfinn í eftirdragi. Á leiðinni yfir Sviðuna skellur á hana
norðan stórhríð.
Aldrei kom Imba fram og enginn vissi hvað orðið hafi af
kálfinum og rokknum. Hins vegar þóttust menn vita, eða
gerðu ráð fyrir, að Imba hefði lent með rokkinn í tjörninni, en
kálfurinn hefði hafnað í Sviðuvatninu.
Eftir hvarf þeirra Imbu og kálfsins, þótti mönnum svo við
bregða, að eitthvað óhreint væri á sveimi um Sviðuna og
villugjarnt þótti þar með afbrigðum. Hliðruðu flestir sér við að
fara yfir Sviðu, þegar dimma tók og ekki síður, þegar veður
þóttu ótryggilegt, þó um bjartan dag væri. Margir höfðu heyrt
Imbu þeyta rokk sinn í nánd við tjörnina ag kálfinn baula
ámátlega í Sviðuvatninu. Imba virðist ekki hafa farið langt frá
tjörn sinni, en kálfurinn ílakkaði um Bakkadalinn og gerði sig
svo heimakominn, að bóndi sem bjó í Jónsseli á síðari hluta
nítjándu aldar, fullyrti, að hann hefði séð för eftir hann ofan á
skyrtunnu í búrinu.
Svo var það snemma á einmánuði nokkru eftir 1880, að
bóndi þessi kom úr kaupstað frá Borðeyri. Þegar hann kom að
Bæ, var tekið að rökkva og veðrið var ekki sem tryggilegast,
gekk á með útsynningséljum, en rofaði á milli. Honum var
boðið að vera í Bæ og lagt fast að honum, því fólkið vissi sem
var, að hann fór ógjarnan yfir Sviðu eftir að dimma tók. En í
þetta sinn var hann ófáanlegur til að gista, en lagði upp yfir
Sviðu og hafði trússahest í taumi.
Ekki kom bóndi heim að Jónsseli um kvöldið og hugði
97