Strandapósturinn - 01.06.1974, Qupperneq 109
skipti setzt á þetta rúm i rökkrinu, eða látið ljós út í þennan
glugga. Þetta þótti nokkuð merkilegt. Ef börnin hefðu ekki séð
ljósið, þá veit ég ekki hvað hefði orðið um þau, líklega hefðu
þau dáið úr kulda. Leiðin sem börnin fóru af hálsinum og
niður að Neðri-Bakka mun vera um hálftíma gangur. Dreng-
urinn var átta ára og stúlkan ellefu ára, er þessi atburður
skeði.
Þessi atburður var mikil reynsla fyrir okkur hjónin. Bjarni
hélt að börnin hefði hrakið fram til fjalla, fram í afdal er
Kúludalur heitir, þá hefði verið úti um þau. Þetta er mesta
lífsreynsla, sem ég hef orðið fyrir, því það var mikil spenna
allan tímann. Ég held að ég hafi aldrei komist nær því að
biðja réttilega til guðs en þá.
Ég hef alltaf lifað í þeirri barnatrú, sem mér var kennd, við
móður kné. Ég veit ekki hvort fólk er trúminna nú en áður, en
það er fleira nú orðið, sem dreifir huganum frá trúnni. Fólk
virðist ekki hafa eins mikla þörf fyrir að trúa og í gamla daga.
Það hefur alltaf verið þannig, að þegar fólk hefur þurft á hjálp
að halda, eins og ég í þetta sinn í Lágadal, þá er leitað til guðs.
Ég held að það sé ákaflega mikils virði fyrir fólk að trúa.
BÚFERLAFLUTNINGAR
Þegar við hjónin fluttum frá Lágadal að Þorpum, við
Steingrímsfjörð komu þrír strandamenn vestur okkur til
aðstoðar við flutninginn. Það voru tengdafaðir minn Bjarni
Bjarnason frá Kirkjubóli í Staðardal. Það var yndislegt veður
þegar þeir komu vestur, þeir voru hjá okkur einn dag við að
undirbúa flutninginn. Um nóttina breyttist veður til hins
verra, með rigningu, svo árnar tóku að vaxa og voru þær
orðnar vatnsmiklar þegar við lögðum af stað. Fólk og farangur
allur, var flutt á hestum. Þegar við fórum yfir ána i Lágadal
flaut baggi af einum hestinum, þá leist mér ekki á blikuna.
Drengirnir okkar tveir, voru fluttir þannig, að annar var í
kistu en hinn í rúmi, sem hann svaf alltaf í. Kistan og rúmið
voru bundin sitt í hvern bagga og sett á þægan og valinn hest.
Við áttum eitt barn yngra, sem maðurinn minn reiddi. Þegar
107