Strandapósturinn - 01.06.1976, Blaðsíða 25
fleiri góðviðrisstundirnar, og þegar logn var og sól skein í heiði
var lífið dásamlegt í faðmi fjalla og dala. Þær stundir urðu
mörgum smalanum ógleymanlegar.
Klukkan níu að kvöldi átti smalinn að vera kominn með
ærnar í kvíar, ekki fyrr og ekki síðar, það var föst regla. Meðan
ærnar voru mjólkaðar fór hann til bæjar og borðaði kvöldmat,
en var svo tilbúinn á kvíaveggnum til að taka ærnar að loknum
mjöltum og halda þeim til beitar fram til miðnættis, en þá lét
hann þær í nátthagann og má nærri geta að 10 ára smali hefur
verið orðinn hvíldar þurfi að dagsverki loknu.
Sumstaðar var venja að einhver heimilismanna, eldri ung-
lingur eða vinnukona voru látin taka ærnar úr kvíunum á
kvöldin, sitja yfir þeim og setja þær í nátthagann. Þetta mun
sérstaklega hafa verið gert ef smalinn var barn húsbændanna,
væri smalinn hins vegar vandalaus eða niðursetningur mun
þetta hafa farið eftir hjartagæsku húsbændanna.
Eitt er það, sem ekki má gleymast, þegar rætt er um hjásetu,
en það er vinur og félagi smalans, hundurinn, þetta trygga og
vitra dýr, sem aldrei yfirgaf húsbónda sinn og gerði engan
mannamun, alltaf sama tryggðin og undirgefnin, hvort heldur
sem húsbóndinn var fullorðinn maður eða bara 10 ára barn. I
samskiptum smalans og hundsins voru margir þræðir er tengdu
þá órofa tryggðaböndum. Hræðsla smalans við einveruna, fjöll-
in og útilegumennina hvarf að mestu við félagsskap smala-
hundsins, þá var það ómetanleg dægrastytting að tala og leika
sér við hundinn sinn að ótöldum öllum snúningunum, sem
hundurinn sparaði smalanum með því að fara í kringum ærnar.
Þetta síkáta, yndislega, trygglynda dýr varð mörgum smalanum
sú raunabót og sá styrkur í erfiðri tilveru, sem gerði honum lífið
einhvers virði og og bjargaði honum oft frá ævilöngu hjartakali.
Að síðustu má minnast á smalaprikið, þennan veldissprota
smalans, sem hann ógnaði kvíánum með og þó ótrúlegt sé, þá
virtust ærnar taka mikið tillit til þess, ef þær við rekstur úr haga
og í ætluðu að rölta eitthvað afleiðis, þá nægði smalanum oft að
kalla og rétta út smalaprikið, þá sneru þær við og skokkuðu inn í
hópinn aftur. Ennfremur létti smalaprikið gang smalans í
23