Strandapósturinn - 01.06.1976, Blaðsíða 40
Mikið gróskutímabil hófst í félaginu, er það eignaðist heimili, og
hélzt það lengi.
Þó að félagið kæmi upp húsinu, var langt frá því, að öll
vandamál væru leyst í sambandi við rekstur félagsins og félagslíf,
einkum skemmtanir. Húsið var einn salur, og vantaði því alla
aðstöðu til veitinga, snyrtingar og einnig geymslurými. Þessa
aðstöðu lét bóndinn á Borgum, Ólafur Ólafsson, í té allt þangað
til að byggt var við húsið, en það var árið 1937. Þar sem ung-
mennafélagshúsið stóð alllangt frá íbúðarhúsinu á Borgum, var
þetta býsna óþægileg aðstaða fyrir þá, sem skemmtanir sóttu eða
þá, er um þær sáu, að ógleymdum þeim átroðningi, sem þetta
olli ábúendum á Borgum. Sérstaklega var mikil fyrirhöfn í sam-
bandi við leiksýningar. Félagið kom sér upp færanlegu leiksviði,
er fyrir hverja leiksýningu varð að setja upp, en að henni lokinni
varð að taka það niður aftur, svo að dansinn gæti hafizt. Þetta
gjörbreyttist, er félagið lét stækka samkomuhúsið, en þá fékkst
allrúmgott leiksvið, með göngum á bak við og þar aðstaða til
kaffihitunar. í kjallara þar undir fengust tvö herbergi, auk þess
var þar gangur og útgöngudyr. Eftir að þessi viðbótarbygging
komst upp, gat félagið notað leiksviðið til sölu veitinga, eftir að
skemmtiatriði höfðu þar farið fram.
Starfsemi U.M.F. Hörpu var á þessum árum aðallega fólgin í
því að byggja félagið upp inn á við. Það er að reyna að virkja
félagana eins vel og kostur var á, til átaks og uppbyggingar í
starfi fyrir félagið, en engu að síður til þess að hvetja félagana til
að trúa á sjálfa sig og þýðingu einstaklingsins fyrir þjóðfélagið í
heild. Aðaluppistaðan í starfi félagsins á þessum árum voru
fundarhöld og skemmtanir. Fundir voru flest árin, fram yfir 1940
fjórir til sjö á ári. Þeir voru þannig byggðir upp, að formaður
tilnefndi fundarnefnd, skipaða þremur mönnum, til þess að
flytja mál á næsta fundi og einnig tvo upplesara, og voru þeir
allir sjálfráðir um efnisval.
Mikill fjöldi málefna hefur verið tekinn til meðferðar á starfs-
ævi félagsins, og er það bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa
fundargerðir frá þessum tímum. Oft voru skoðanir skiptar og
komu í sumum tilfellum upp deilur. Þó sést ekki annað af fund-
38