Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 21

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 21
bjarmi | apríl 2021 | 21 Bjarmabros Í UMSJÁ MAGNÚSAR VIÐARS SKÚLASONAR RANNSÓKNIN Landsbyggðarprestur nokkur átti erindi í höfuðborgina rétt eftir páska og kom í bæinn síðla kvölds. Nokkuð var um liðið síðan presturinn kom í höfuðborgina og því var viðbúið að hann áttaði sig ekki á þeim skipulagsbreytingum sem höfðu verið gerðar í bænum. Eitt af því sem hann hafði ekki séð voru eftirlitsmyndavélar í umferðinni og hann gætti hann þess sérstaklega að vera innan hraðatakmarkana ef hann skyldi rekast á slíka myndavél. Þegar hann var kominn inn fyrir bæjarmörkin þá tók hann eftir því að fram undan væri myndavél þannig að hann passaði að vera á réttum hraða. Um leið og hann keyrði fram hjá myndavélinni þá birtist fyrir honum þessi feiknarlegi leifturblossi og ljóst að eftirlitsmyndavélin hafði tekið mynd af prestinum. Honum brá eðlilega við það enda hafði hann ávallt passað sig að fylgja umferðarreglunum eins vel og mögulegt var. Mögulega var myndavélin hreinlega biluð þannig að presturinn sneri við á næstu gatnamótum og keyrði til baka til þess að geta keyrt aftur fram hjá myndavélinni. Þegar hann nálgaðist myndavélina aftur passaði hann sig á að vera 5 km undir hámarkshraðanum. Um leið og hann keyrði fram hjá myndavélinni kom þessi blossi aftur og aftur var búið að taka mynd af honum. Nú hætti prestinum að lítast á blikuna þannig að hann ákvað, í þvermóðsku sinni, að reyna þetta aftur og ætlaði að vera 10 km undir hámarkshraðanum. Um leið og hann keyrði fram hjá myndavélinni þá small flassið aftur og enn ein myndin tekin af prestinum. Hann reyndi þetta í tvígang aftur og var undir lokin á gönguhraða fram hjá myndavélinni og samt tók hún mynd af honum. Þá gafst presturinn endanlega upp og hætti að spá í þetta skrapatól sem var augljóslega bilað enda ekki nokkurt vit í því að taka mynd af bíl sem var varla að hreyfast á götunni. Eftir vikudvöl í höfuðborginni hélt presturinn heim á leið. Þegar hann kom heim í sveitina biðu hans 5 umslög frá Lögreglunni í Reykjavík. Forviða opnaði presturinn umslögin og las yfir efni bréfanna. Þar kom fram í hverju og einu bréfi að sekt hafði verið gefin út á prestinn fyrir að vera ekki með spennt bílbeltið við akstur. FARIÐ EFTIR REGLUNUM Siggi litli var statt og stöðugt að ögra kennurunum í skólanum og ekki leið sá dagur að hann væri ekki kominn í einhver vandræði. Hvort sem það snéri að bekkjarfélögum hans eða kennurunum þá var Siggi litli alltaf með eitthvert vesen og stutt í stríðnina hjá honum. Það sem hélt honum þó á floti gagnvart skólastjóranum var að hann var oft og iðulega duglegur að sinna náminu og skilaði heimavinnunni sinni ávallt á réttum tíma. Það var því ekki laust við að kennararnir hötuðu að elska þennan prakkara. Einn daginn kom Siggi litli heldur dapur í skólann og tóku flestir eftir því að hann var ekki alveg samur við sig. Enginn prakkaraskapur, engin fíflalæti, bara rólegur Siggi sem sagði ekki neitt. Kennarinn gekk upp að Sigga litla og spurði: „Siggi minn, er ekki allt í lagi? Var ekki fínt hjá þér um helgina?“ Siggi svaraði: „Jú, það var svo sem allt í lagi.“ Kennarinn spurði þá aftur hvort eitthvað annað væri að og af hverju hann væri svona niðurlútur. Siggi spurði þá til baka: „Kennari, er hægt að refsa manni fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert?“ Kennarinn horfði forviða á drenginn og svaraði því til að auðvitað ætti ekki að refsa neinum fyrir eitthvað sem þeir hafa ekki gert. Siggi leit þá upp, brosti sínu stærsta prakkarabrosi og sagði: „Jæja, frábært, ég nefnilega gleymdi að gera heimavinnuna mína um helgina!“

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.