Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 31

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 31
bjarmi | apríl 2021 | 31 Margvísleg dýr og jurtir eru nefnd í ýmsu samhengi í Biblíunni. Þýðendum hennar hefur stundum verið vandi á höndum þegar hebresk heiti úr ríki náttúrunnar hafa orðið á vegi þeirra. Dæmi um þetta er dýr sem er Evrópubúum framandi en nefnt fjórum sinnum í Gamla testamentinu sem šāfān eða saphan (שפן). Hebreska heitið mun merkja sá sem skýlir sér eða felur sig. Þetta litla spendýr er víða í Afríku sunnan Sahara og er einnig að finna í vestanverðri Asíu. Þetta eru félagslynd dýr sem geta þrifist í margs konar umhverfi. Þau eru þunglamaleg að sjá og vega nokkur kíló og eru næstum rófulaus. Umsögnin sem þau fá í Orðskviðunum bendir til visku eða þrautseigju. En lítum aðeins á þessi fjögur ritningarvers í Biblíunni frá 2007: „Þið skuluð telja klettagreifingja óhreinan því að hann jórtrar en hefur ekki klofna hófa“ (3Mós 11.5). „En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir.“ (5Mós 14.7). „Í gnæfandi fjöllum búa steingeitur og klettarnir eru skjól stökkhéra“ (Sálmur 104.18). „Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð og þó gera þeir sér híbýli í klettunum“ (Okv 30.26). Af tilvitnunum í Mósebækurnar má ráða að fleiri en biblíuþýðendur hafi verið í vandræðum með flokkun þessara dýra. Og versið úr Fimmtu Mósebók er raunar illskiljanlegt. Athygli vekur einnig að fyrri þýðingu (1912/1981) skuli breytt úr stökkhéra í klettagreifingja í aðeins einu þessara fjögurra tilvika. Þýðendur á grísku og latínu fyrr á öldum áttu í mesta basli með þessi dýr og voru þau oft nefnd kanínur eða jafnvel broddgeltir. Það má kannski kallast menningarleg aðlögun að tengja þau einhverju sem fólk þekkti. Lúther byggir á þessari arfleifð þegar hann kallar þau kanínur. Guðbrandsbiblía hefur þýðingu versins úr Davíðssálminum þannig: „Þau hávu björgin eru steingeitanna athvarf og bjargskorurnar smádýranna [á spássíu, kúnísanna] inni.“ Viðeyjarbiblía (1841) hefur þetta svona: „Þau háu fjöllin eru athvarf steingeitanna og klettaskorurnar fjallmúsanna.“ Fyrrum kristniboði í Pókot talaði um fjallarottur. Mikið var af þeim í klettinum sem íbúðarhús kristniboðanna í Kongelai stóð undir. Umrætt dýr (Procavia capensis) hefur ýmis nöfn á erlendum málum, á ensku t.d. kallað hyrax (grískt orð yfir snjáldurmýs sem eru raunar ekki mýs), rock hyrax eða rock badger (klettagreifingi).1 Á þýsku heitir það Klippschliefer eða Klippdachs (klettagreifingi). Þessi hópur dýra hefur einnig valdið dýrafræðingum heilabrotum. Þau virðist talin af sérstakri grein nagdýra sbr. flóðsvínið í Suður-Ameríku. Einnig má lesa um að raunar séu þau skyldust fílum og sækúm.2 Þýðendur nýjustu biblíuútgáfu hafa væntanlega ekki þekkt skemmtilegt íslenskt heiti á þessari ætt dýra, hnubbar, sem virðist ekki illa til fundið en orðið hnubbur vísar til að einhver sé þybbinn eða hnellinn. Líklega er þetta heiti komið frá Óskari Ingimarssyni. Í bók hans um dýra- og plöntuheiti er umrætt dýr nefnt klettahnubbur.3 Í bókinni Náttúran: Leiðsögn í máli og myndum4 er klettahnubbur talinn ein af fjórum tegundum þessarar ættar sem er sögð hafa einhvern skyldleika við fíla. Heitið stökkhéri er raunar fyrir löngu frátekið fyrir annað dýr sem virkilega stekkur (pedes cafer) og er algengt í savannalöndum Suður- og Austur-Afríku.5 Áhugasamir geta væntanlega rakið slóð stökkhérans inn í Biblíuna. Líklega hafa einhverjir talið að hann stykki í klettum en hann klifrar í krafti þess að hafa kirtla á fótunum sem framleiða slímkennt efni sem gefur fótfestu. Hvernig dýrin eru í Biblíunni oft dæmi um mikilfengleika eða umhyggju skaparans er vissulega mikilvægara lesendum heldur en dæmi um takmarkaða náttúrufræðikunnáttu einhverra sem færðu ákvæði hins gamla lögmáls Mósebóka í letur. Í nýju stórvirki Örnólfs Torlaciusar Dýraríkið6 má segja að Mósebækur fái nokkra afsökun. Í umfjöllun um hnubba segir þar m.a.: „Hnubbar eru gróðurætur og hreyfa kjálkana líkt og þeir væru að jórtra. Þetta hefur villt um fyrir mörgum. „Jórtrandi hérinn“, sem frá greinir í Gamla testamentinu (III. Mósebók, 11.5-6) hefur líklegast verið hnubbur.“7 Vigfús Ingvar Ingvarsson tók saman Stökkhérinn í Biblíunni 1 Sjá t.d. https://www.wikiwand.com/de/Klippschliefer og góðar myndir þar. 2 Sjá https://en.wikipedia.org/wiki/Hyrax þar einnig hægt að horfa á hnubb „jórtra“. 3 Ensk-latnesk-íslensk og latnesk-íslensk-ensk dýra- og plöntuorðabók, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1989, bls. 344. 4 JPV, 2013, bls. 515. 5 Sjá 13. bindi bókaflokksins Undraveröld dýranna: Spendýr, Veröld /Fjölvi, 1981, bls. 137, 138. 6 Ættmenn hans luku verkinu, Hið ísl. bókmenntafélag, 2020. 7 II. bindi bls. 579.

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.