Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 22
| bjarmi | apríl 202122
Gangir þú
gegnum vötnin
REYNSLUSAGA UM VERND OG BJÖRGUN
SVERRIR AXELSSON
Eftirfarandi vitnisburður var upphaflega
fluttur á fundi Aðaldeildar KFUM í
Reykjavík fyrir rúmum 40 árum. Hann
birtist í Bjarma árið 1981. Sverrir var á
sínum tíma í vafa um hvort þetta skyldi
birta á prenti þar sem hann óttaðist að
menn skildu ekki þá djúpstæðu reynslu
sem hann varð fyrir og merkingu hennar
fyrir líf hans og trú. Ritnefnd Bjarma þótti
tilhlýðilegt að minnast hans með því að
endurbirta vitnisburðinn, en Sverrir Ingi
Axelsson vélfræðingur lést í nóvember
síðastliðnum, 93 ára að aldri. Hann var
mjög virkur í starfi KFUM og KFUK
og eftir hann liggja óteljandi handtök
í Vatnaskógi og víðar. Sama má segja
um konu hans Ásu Þorsteinsdóttur
en hún lést 2016. Sverrir var traustur,
maður útsjónarsemi og verklegra
framkvæmda. Með nærveru sinni,
verkum og orðum varð hann mörgum
hvatning til að leggja sitt af mörkum.
Hann tjáði þakklæti sitt með það sem
hann kunni að meta. Þar á meðal voru
þakkarorð fyrir eitt og annað sem birtist
í Bjarma. Kjölfesta lífs hans var trúin á
hinn krossfesta og upprisna frelsara,
Drottin Jesú Krist, eins og fram kemur
í orðum hans.
ATBURÐURINN
Það var kaldan skammdegismorgun við
Reykjavíkurhöfn í nóvember 1961 þegar
þessi atburður átti sér stað er ég ætla að
segja hér frá.
Tíð hafði verið mjög erfið þennan vetur.
Sífelldir stormar og óvenju mikil frost, svo sund
og vogar hér í kring voru ísilögð. Á þessum
árum var ég vélstjóri hjá Reykjavíkurhöfn og
starfaði á ýmsum bátum hennar.
Þegar ég kom til vinnu þennan morgun,
var verið að vandræðast yfir því að það
vantaði bát til að aðstoða við bindingu á
olíuflutningaskipi, sem leggja átti hér út við
Örfirisey, svo hægt væri að losa farm þess
í olíugeyma, sem þar eru.
Sá er vinna átti í bátnum var eitthvað
forfallaður, svo að ég bauðst til að fara
með bátinn. Um borð tók ég tvo fullorðna
menn, sem eru þessu starfi þaulvanir og
unglingspilt, sem ég hefi hvorki séð né
heyrt síðan.
Haldið var sem leið liggur út úr höfninni
og á þann stað er leggja átti skipinu.
Eitthvað vorum við síðbúnir, því þegar
komið var út var skipið komið og beið þess
að settur væri út belgur á ákveðinn stað
svo hægt væri að láta akkerið falla. Allt fór
þetta fram samkvæmt áætlun um þessa
hluti og var nú siglt að belg, sem festur var