Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 45

Bjarmi - 01.04.2021, Blaðsíða 45
bjarmi | apríl 2021 | 45 Uppáhalds biblíuversin mín: Aldrei ein við störf GUÐNÝ BJARNADÓTTIR Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Lúkas 11:9-10 Ég er í þeirri forréttindastöðu að hafa átt kost á að læra að verða ljósmóðir og unnið við það stóran hluta starfsævinnar. Margur hefur trúað mér fyrir því að hafa langað að feta þessa braut, en ekki átt þess kost, en ég þakka svo sannarlega Guði fyrir að hafa leitt mig þennan veg. Í slíku starfi er ómetanlegt að finna að maður er ekki einn. Oft hef ég skynjað í starfinu að Guð er með mér og hann hefur gefið mér ýmis tákn sem hafa reynst vel. „Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér“ Fyrri Samúelsbók 10.7. Það er erfitt að lýsa þessum táknum, en í rannsóknum sem hafa verið gerðar á yfirsetu ljósmæðra kemur fram að „þær finna sig ekki einar“. Þær verða varar við einhvers konar hugboð eða fyrirsjáanleika. Ég hef margoft orðið vör við þessa fyrirboða eða tákn. Maðurinn minn segir að oft hafi ég sagt þegar ég var að fara í útkall til fæðandi konu, „þetta verður stutt útkall eða nú verður óvíst hvenær ég kem til baka“. Hvað er það sem gerist í hugarheimi ljósmóður í yfirsetu? Það er ekki einfalt að segja, en í senn er takmarkið að trufla ekki framvindu náttúrunnar í fæðingarferlinu (vera hljóð, en samt á staðnum) svo og að lesa í aðstæður frá mínútu til mínútu og vera með viðbragðahormónin tilbúin ef á þarf að halda. (tilbúin til bjargar). Í mínum ljósmóðuryfirsetum hafa átt sér stað mörg einkasamtöl við Guð. Bæði í þakklæti og beiðni um styrk. Biblíuversið sem ég byrjaði á hefur verið mitt leiðarstef í starfinu. Að vera alltaf vakandi fyrir hverjum og einum, efla mig í faglegri þekkingu og bænin/samtalið við Guð minn hefur gefið styrk og áræðni til að takast á við starfið. Samvinna með verðandi foreldrum og fjölskyldum þeirra er gefandi og nærir bæði faglega og andlega vitund þess sem slíkt starf vinnur. Það takast á kraftar lífs og dauða og með undursamlegum hætti er það er lífið sem vinnur í langflestum tilfellum. Vissulega eru skilin stundum tæp og því miður er það dauðinn sem stundum hefur vinninginn. Annað biblíuvers er líka í uppáhaldi en það er „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Markús 10:51. Þegar barn fæðist og grætur fyrsta sinni er það bæn. Barnsgráturinn gefur þeim sem annast það merkinguna: Hvað viltu að ég geri fyrir þig? og það er þeirra að svara. Gráturinn er bæn um að einhver taki það að sér þegar það breiðir út faðminn og bíður þess að einhver taki það sér í fang og annist það. Þessi stund er jafnan hlaðin heilagri orku sem er ólýsanleg, en saman blandast léttir frá þjáningu sem er liðin, en einnig gleði vegna samfunda við þann sem beðið hefur verið eftir. Verkefni foreldranna hefst þegar eftir fæðingu, en það er að túlka hvað er hægt að gera fyrir barnið. Það getur verulega reynt á og krefst mikilla samskipta. Í samskiptum barnsins við foreldrana og aðra uppalendur verður það að einstaklingi. Án samskipta verður einstaklingurinn tómið eitt. Sama er að segja um Guð, hann er samskiptahugtak sem verður að rækta. Með augum trúarinnar getum við séð hlutina á algerlega nýjan hátt. Til að eiga gott samband þarf að rækta það. Eiga samtal, rétt eins og samtal foreldra við barnið sitt kennir því tungumálið. Trúartungumálið verður ekki til af engu. Það verður til með því að miðla gæsku Guðs og leggja rækt við það. Að kenna barni að eiga hljóða stund, þekkja fallegan texta og ljóð. Þekkja frið og kærleika og tilfinninguna að vera Guðs barn. Þar sem ég hef starfað sem ljósmóðir í yfir tuttugu ár er þessi bæn barnsins mér hugleikin. Hversu falleg og heilög sú stund er. Fæðingarstofuguðfræðin er einföld, hún segir allt sem er manninum heilagt. Lotning fyrir lífinu hefur opinberast í nýju mannverunni, þakklæti, traust og gleði umvefur andartakið með undirleik af bæn barnsins. Að gefa Guði dýrðina, lofa hann og ákalla tengir okkur nær skapara okkar sem gefur okkur lífið. Með góðri kveðju og blessun Guðný Bjarnadóttir Borgarfirði.

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.