Strandapósturinn - 01.06.2006, Qupperneq 96
aðarnesi ásamt Jóni Meyvant Sigurðssyni, manni sínum, sem var
þá látinn fyrir nokkrum árum og var hún síðustu árin í skjóli
sonar síns og tengdadóttur. Á jarðarhluta þeirra var þá tvíbýli, og
bjuggu þar tveir synir Guðríðar, sá eldri var Halldór Jónsson og
kona hans Jóna Jónsdóttir og synir þeirra, Garðar og Jón. Einnig
yngri sonur Guðríðar, Sigurgeir Jónsson og kona hans Guðrún
Guðmundsdóttir og var Guðríður í heimili hjá þeim. Húsakynni
voru þarna mjög lítil og búið þröngt.
29. desember er í háskammdeginu, birtutími mjög stuttur og
veður válynd. Ekki varð undan þó vikist að gera það sem gera
þurfti, þó á þessum árstíma væri, að koma líkinu til kirkjustað-
arins í Árnesi þar sem greftrað var. Þó leiðin frá Munaðarnesi að
Árnesi væri ekki ýkjalöng, líklega um 12 -15 kílómetrar, gat þetta
verið býsna erfitt, á þessum árstíma og jafnlangt hvort farið var
landleið all leiðina eða sjóleið milli Norðurfjarðar og Árness.
Ekki var hugsanlegt að fara sjóleiðina alla leið frá Munaðarnesi
að Árnesi á þeim bátum, sem tiltækilegir voru, því að þá þurfti
að fara út fyrir ystu nes.
Fyrstu dagana í janúar voru aðstandendur Guðríðar farnir
að huga að möguleikum á að koma líkinu frá Munaðarnesi að
Árnesi. Veðurfar hafði verið þannig, að snjóað hafði á jólaföst-
unni, en leyst síðan nokkuð mikið upp. Snjór var samt í lækjum
og lautum, en jörð mikið auð á milli. Það var ljóst, að ekki var
önnur leið fær, en koma líkinu fyrst til Norðurfjarðar landveg,
og síðan sjóleið þaðan að Árnesi, sem ekki er ýkjalöng, en síð-
asti spölur sjóleiðarinnar að Árnesi skerjóttur og varasamur, en
hættu lítill þeim, sem kunnugir eru. Nú mátti gera ráð fyrir því,
að þetta tækist ekki á einum degi, enda háð veðri og birtu, og
varð að láta á það reyna þegar þar að kæmi. Til að svona flutn-
ingur gæti gengið greiðlega fyrir sig þurfti sex menn, þar sem
búast mátti við því að þurfa að bera kistuna eitthvað af leiðinni,
sem reyndar varð.
Að sjálfsögðu varð að leita til manna á nágrannabæjum, sem
ekki var óalgengt og fóru tveir úr Norðurfirði, annar sá er þetta
ritar, sem átti þá heima á Steinstúni og Bernharð Andrésson
í Norðurfirði, frá Felli komu bræður tveir, Guðmundur og
Sigurvin Guðbrandssynir. Vegna þess að hér er verið að tala um
94