Strandapósturinn - 01.06.2006, Page 113
á enda. Duglegustu strákarnir voru varla komnir fram á stefni
þegar slegið var af vélinni. Eftir stutta bið komu menn úr landi á
lítilli skektu og á henni voru svo allir ferjaðir í land.
Nú hófst annar áfangi ferðarinnar. Á þjóðveginum rétt ofan
fjörunnar beið okkar vörubíll. Bíllinn var útbúinn til farþega-
flutninga á þann máta að trébekkir voru festir þversum á pallinn
og yfir hvolft kassa til varnar regni og vindi. Rykið af veginum
átti nokkuð auðvelda leið í farþegarýmið. Svona farartæki voru
kölluð kassabílar og voru vel þekkt á fyrstu árum bíla. Upp á pall-
inn og inn í kassann fórum við. Sum okkar voru að fara í sinn
fyrsta bíltúr á ævinni. Bílstjórinn var nokkuð drjúgur yfir bílnum
sínum. Gerði sjálfsagt ráð fyrir því að krakkar norðan af nyrstu
Ströndum hefðu aldrei séð slíkt farartæki. Við sem komum um
borð í Nonna í Djúpuvík urðum nú nokkuð mannalegir. Gerðum
svo bílstjóranum ljóst að þar fyrir norðan væru nú fjórir bílar og
einn af þeim væri mikið stærri en bíllinn hans. Oft og mörgum
sinnum hefðum við fengið far með þessum bílum. Bílstjórinn
brosti bara af mannalátum okkar og lagði af stað með okkur á
pallinum fram sveitina og inn í og fram Steinadalinn. Að því kom
að ekki var lengra komist þrátt fyrir gott farartæki. Skörð voru
í veginn, ef veg skyldi kalla. Þessi vegur hafði ekki enn kynnst
veghefli eða jarðýtu. Þorsteinn skólastjóri hafði gert ráð fyrir því
að við þyrftum að ganga yfir Steinadalsheiðina. Öll höfðum við
því búið okkur vel til fótanna og okkur munaði ekki mikið um
það að ganga og bera farangur okkar í eina klukkustund eða svo.
Fjórar sýslur mætast efst á Steinadalsheiði: Strandasýsla, Norður-
Ísafjarðarsýsla, Barðastrandarsýsla og Dalasýsla. Viðgerð á heið-
arveginum var hafin Gilsfjarðarmegin. Þegar við komum rétt yfir
há heiðina beið okkur þar rúta frá Dala-Brandi. Þarna sáum við í
fyrsta skipti bíl frá manni sem átti eftir að sinna fólksflutningum,
með miklum ágætum, á næstu árum um Strandir og Dali. Í dag
væri sá vegur sem rútan fór með okkur ofan af Steinadalsheiði
að Laugum í Sælingsdal ekki gefið annað heiti en að hann væri
jeppafær. Vegurinn var mjór, krókóttur, lækir runnu yfir hann og
sumstaðar eftir honum, á kafla út með Gilsfirði, í fjöru þar sem
hann fór undir sjó á flóði. Ekki var búið að búa til orðið blind-
hæð en þær voru samt nokkrar á leiðinni. Til Lauga komumst
111