Bændablaðið - 18.11.2021, Qupperneq 16
Bændablaðið | Fimmtudagur 18. nóvember 202116
Nokkrum dögum fyrir þjóðhátíð
í Vestmannaeyjum árið 1958 varð
uppi fótur og fit í bænum. Þá
var fjöldi grindhvala rekinn inn
í höfnina og voru yfir 200 hvalir
drepnir og skornir á staðnum.
Hafði slíkt ekki gerst í Eyjum fyrr í
manna minnum. Grindhvaladrápið
varð forsíðuefni helstu dagblaða
landsins.
Hvalreki þótti happafengur hér
áður fyrr. Nú á tímum er hvalreki
hins vegar til hinna mestu vandræða.
Dauð dýr sem hafa strandað nálægt
byggð eru dregin á haf út sé þess
kostur svo lykt af rotnandi hræjum
plagi ekki íbúa. Reki lifandi hval á
land eru allar hendur á lofti til að
bjarga honum úr prísundinni.
Hér verður sjónum beint að einni
hvalategund, grindhvalnum, sem á
það til að hlaupa í vöðum á land. Ýmis
dæmi eru um að honum hafi verið
slátrað í fjörum hér við land eins og
sjá má í meðfylgjandi rammagrein.
Einu slíku tilviki, grindhvaladrápinu
í Vestmannaeyjum, verður lýst hér
nánar til að gefa hugmynd um
hvernig hlutirnir gengu fyrir sig.
Ekki eru nema rúm 50 ár síðan
mörgum þótti sjálfsagt að skera hval
í fjöru sér til matar. Eflaust myndi
það vekja hörð viðbrögð í dag ef
bjargarlausum grindhvölum yrði
slátrað í flæðarmáli, hvað þá ef þeir
væru reknir í land.
Reksturinn tók margar
klukkustundir
Þriðjudaginn 5. ágúst 1958 var Sigfús
Guðmundsson, skipstjóri á vélbátnum
Sævari, staddur í Fjallasjó austur af
Vestmannaeyjum. Hann tilkynnti í
talstöðina um tvöleytið að hann hefði
orðið var við grindhvalavöðu.
Ákveðið var að freista þess að
reka vöðuna til Eyja. Brugðust
nokkrir bátar við kallinu og fóru til
liðs við Sigfús. Urðu vélbátarnir 8
við reksturinn en síðan fóru allmargar
trillur til móts við rekstrarbátana.
Sögðu blöðin ýmist að bátarnir
hefðu verið 20 eða 30 að tölu þegar
yfir lauk.
Reksturinn gekk heldur seint í
fyrstu og stóð hann yfir í margar
klukkustundir. Um klukkan níu um
kvöldið kom grindhvalavaðan inn
að Heimaey og gekk greiðlega að
reka hana alveg inn í höfn. Hlupu
margir hvalir á land í svonefndum
Botni alveg inn við Friðarhöfn,
sem reyndist ekki friðarhöfn fyrir
hvalina.
Vopnaðir beitusveðjum
og lagvopnum
Þegar hvalirnir komu að landi stóð
þar margt manna í fjörunni. Voru
sumir vopnaðir beitusveðjum og
lagvopnum. Bæjarbúar höfðu líka
þyrpst að og stóðu umhverfis og
fylgdust með.
Var óðara ráðist til atlögu. Áður
en langt um leið voru menn orðnir
votir og blóðugir og sjórinn litaðist
blóði langt út á höfn, segir í litríkri
frásögn dagblaðsins Tímans. Seint
um kvöldið var búið að skera um 80
hvali að sögn fréttaritara.
Fram kom að tveir eða þrír
Færeyingar hefðu verið hjálplegir
við hvalskurðinn.
Vestmannaeyingar náðu sér í kjöt
í soðið og þótti það bragðgott en
strax voru uppi hugmyndir um að
skera kjötið í ákveðnar pakkningar
og frysta það til útflutnings. Var
það gert. Hins vegar varð minna úr
útflutningi en til stóð.
Þjóðhátíð til bjargar
Um nóttina gættu bátar hjarðarinnar
svo hún slyppi ekki út úr höfninni.
Á miðvikudaginn hélt atgangurinn
áfram. Gengið var skipulega til
verks og um kvöldið var búið að
reka á land og skera um 170 hvali.
Talið var að annað eins væri eftir í
höfninni. Var þá hvalskurði hætt að
sinni og rætt um að geyma hvalina í
höfninni fram yfir þjóðhátíð og taka
þá upp þráðinn á ný.
Föstudaginn 8. ágúst sagði
Tíminn frá því að hvalskurði hefði
verið hætt á hádegi á fimmtudaginn.
Um 210 hvalir alls hefðu þá verið
skornir. Ekki hefði verið hægt að
fá menn til að vinna lengur vegna
þjóðhátíðarinnar sem fór í hönd
næstu helgi.
Hætt var við að geyma hvalina í
höfninni og við tók erfitt verkefni,
sem var að reka hvalina sem eftir
voru út aftur. Má segja að þjóðhátíðin
hafi bjargað lífi þeirra.
Lenti í því að slátra
þessum greyjum
Grindhvaladrápið í Eyjum var rifjað
upp í Fiskifréttum fyrir allmörgum
árum. Fiskifréttir ræddu þá við tvo
menn sem tekið höfðu þátt í grind-
hvaladrápinu, þá Guðna Grímsson
vélstjóra og Pál Helgason ferða-
málafrömuð.
Guðni var þá 24 ára en Páll 25 ára.
Guðni var ekki á sjó þann dag sem
hvalirnir komu en hann var í mót-
tökuliðinu í landi. „Einhvern veginn
æxlaðist það þannig að ég lenti inni í
Botni og fékk það hlutverk að slátra
þessum greyjum,“ sagði Guðni.
Hvalirnir komu á flóði og var
slátrað um kvöldið og fram á nótt.
Síðan voru þeir dregnir út og hífð-
ir upp á bryggju þar sem þeir voru
skornir. Guðni sagði að menn hefðu
farið í ákveðinn ham. Þarna hefði
kviknað drápseðlið í þeim. Fræg
ljósmynd birtist á forsíðu Tímans af
Guðna að störfum í flæðarmálinu.
Brá sér á bak á hvali
Páll Helgason tók fram að hann
væri eini Íslendingurinn sem hefði
brugðið sér á bak hvals. Páll sagði
að Vestmannaeyingar hefðu heyrt af
rekstrinum á þriðjudaginn og biðu
bara eftir kallinu. Hann hefði farið
í bíó um kvöldið. Þegar myndin
var rétt að hefjast birtist einhver og
kallaði yfir salinn að grindhvalirnir
væru komnir í höfn. Salurinn tæmdist
á svipstundu.
Páll sagðist hafa séð stóra vöðu
út af bryggjunni í Friðarhöfn. Hann
stökk í sjóinn og synti að hvölunum
sem voru fáeina metra frá honum.
Hann vippaði sér á bak einum þeirra.
„Hann kafaði með mig og þegar hann
kom upp var sagt að ég hefði blásið
meira en hvalurinn,“ sagði Páll.
Grindhvaladrápið í Vestmannaeyjum í ágúst 1958:
„Var það mikill atgangur og eigi fagur“
NYTJAR HAFSINS
Kjartan Stefánsson
kjartanst@simnet.is
45 skráð dæmi um grindhvalarekstur
Grindhvalur er allstór tannhvalur.
Annað nafn hans er marsvín. Hann
getur orðið 5 til 6 metrar á lengd.
Grindhvalurinn er hópdýr. Í hverri
hjörð geta verið allt frá nokkrum
dýrum upp í mörg þúsund. Í Fær-
eyjum er aldalöng hefð fyrir árleg-
um grindhvalaveiðum sem kunnugt
er. Hvalavaða er þá rekin á land og
dýrunum slátrað í fjöruborðinu með
tilheyrandi blóðbaði. Íslendingar hafa
ekki farið að dæmi Færeyinga nema
af og til hér áður fyrr.
Ævar Petersen fuglafræðingur er
áhugamaður um hvali. Hann hefur
safnað heimildum um sögulega
hvalreka, jafnt um grindhvali
sem aðra hvali. „Grindhvalir hafa
hlaupið eða verið reknir á land
margoft í Íslandssögunni. Oft er
getið um að grindhvalir hafi verið
skornir en það hefur eflaust iðulega
verið gert eins og með aðra hvali
sem rak áður fyrr,“ segir Ævar í
samtali við Bændablaðið.
Ævar er með á skrá 166 tilvik
um grindhvali, flesta rak á land,
sumir voru reknir á land, sumir
séðir lifandi og eitt dæmið að
minnsta kost er um beinafund.
Nefnir hann sem dæmi að vaða
með 1.700 dýrum hafi komið á land
í Helgafellssveit 1373. Í annað
skiptið komu þar 1.500 dýr. Af
þessum 166 tilvikum eru um 45
skipti þar sem grindhvalir hafa
verið reknir á land eða reynt að
reka þá. Stundum náðust öll dýrin
í vöðunni en stundum aðeins hluti
þeirra. Haustið 1819 voru á fjórða
þúsund grindhvalir reknir á land í
Ólafsvík. Er það mesti fjöldi sem
vitað er um. Ævar benti á að vöður
grindhvala hafi verið stærri fyrr á
öldum en er nú til dags.
Fyrsti rekstur grindhvala á
land sem Ævari er kunnugt um
var í maí 1611 við Bjarneyjar á
Breiðafirði. Þá voru drepin 40 dýr.
Síðasta þekkta tilvikið er þegar
gerð var tilraun til að reka á
annað hundrað grindhvali á land í
Reykjavík 1966, en hún tókst ekki
vel. Aðeins náðist í þrjú dýr.
Annað dæmi frá Reykjavík er
vert að nefna. Þá var vaða með 67
marsvínum rekin á land í Fossvogi í
október 1934. Af þessum atburði er
til einstakt myndskeið úr kvikmynd
eftir Loft Guðmundsson. Þar sést
hvar menn í árabátum króa hvalina
af og dýrin síðan drepin með
lagvopnum í fjöruborðinu.
Áhugasamir geta séð þetta
myndskeið á slóðinni: https://
filmcentralen.dk/museum/island-
paa-film/klip/hvaladrap-i-fossvogi
Dauðir grindhvalir í höfninni. Hvalirnir voru síðan dregnir út og hífðir upp á bryggju þar sem þeir voru skornir. Myndir / Sigurgeir Jónasson.
Guðni Gímsson fékk það hlutverk að slátra hvölum sem reknir höfðu
verið upp í fjöru. Mynd af honum glaðbeittum birtist á forsíðu Tímans.