Bændablaðið - 12.05.2022, Blaðsíða 56

Bændablaðið - 12.05.2022, Blaðsíða 56
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. maí 202256 Veðurfar er síbreytilegt eins og við vitum en nú blasir við okkur nýr raunveruleiki óstöðugs veðurfars, t.d. með hamfaraveðrum eins og því sem skall á í lok árs 2019 með tilheyrandi rafmagnsleysi og öllu því veseni sem því fylgir í tæknivæddum búskap. Því fylgdi líka ófærð og fannfergi þar sem meðal annars gripir fenntu inni og drápust. Það er okkur líka ennþá í fersku minni aurskriðurnar sem að féllu bæði á Seyðisfirði og í Kinninni, eftir ofsarigningar sem að skildu eftir sig berar hlíðar og aur út um allar koppagrundir. Á Íslandi reka náttúruhamfarir hverjar aðrar, ef það er ekki nýafstaðið eldgos eins og í Geldingadal, þá eigum við bara von á öðru úr Heklu eða jafnvel Grímsvötnum. Við vitum reyndar aldrei við hverju má búast í þeim efnum, hvernig þær hitta okkur bændur sem og aðra fyrir. Auk þess eru annars konar hamfarir sem geta orðið gripum okkar að fjörtjóni eða afurðamissi svo sem veikindi hjá bústofninum. Við könnumst við veiruskitu en hún hefur einmitt verið hér á ferðinni norðanlands með veikindum – og í verstu tilfellum dauða – hjá kúm með tilheyrandi afurðatapi og missi. En svo eru líka þarna úti í heimi, landlægir alls kyns dýra- og plöntusjúkdómar sem við þekkjum hvorki haus né sporð á, sem gætu dúkkað hér upp hvenær sem er ef ekki er varlega farið. Alls þess vegna vilja bændur tryggja sig og vera vel tryggðir, en erum við það? Tryggingar í boði fyrir bændur Það fyrsta sem kom upp í hugann við þessi skrif var Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) sem var stofnuð árið 1975, hét að vísu þá Viðlagatrygging Íslands. Var NTÍ sett á laggirnar í kjölfar eldgossins á Heimaey árið 1973, og mannskæðs snjóflóðs í Neskaupstað árið 1974. Helsta hlutverk NTÍ er að vátryggja húseignir og lausafé á Íslandi gegn náttúruhamförum sem eru þá eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Allar húseignir eru tryggðar og það lausafé sem er brunatryggt hjá almennum tryggingafyrirtækjum. Það er ekki tryggt gegn afleiddu tjóni eða tjóni af völdum truflana sem verða í kjölfarið á náttúruhamförum. Iðgjaldið er 0,25% af vátryggingarfjárhæð sem er jafn há brunatryggingarfjárhæð á húseignum, innbúi og lausafé. Almenn vátryggingafélög innheimta iðgjöld fyrir NTÍ samhliða innheimtu á iðgjöldum á brunatryggingum. Þannig er allt sem er brunatryggt, tryggt fyrir þessum hamförum beint en allar óbeinar afleiðingar ekki. Almenn tryggingafélög bjóða upp á landbúnaðartryggingar fyrir þá sem stunda hefðbundinn búskap svo sem sauðfjár- og nautgriparækt, aðrar greinar þurfa að láta tryggja hjá sér sérstaklega. Í landbúnaðartryggingunni er tryggt hið svokallaða lausafé sem er þá í þessu tilviki búfé, hey, fóður, áhöld og tæki fyrir bruna. Einnig er bústofn tryggður fyrir raflosti og umferðaróhöppum. Þar er líka rekstrarstöðvunartrygging ef rekstur stöðvast vegna bruna. Þarna er lykilorðið brunatryggðir, þar með er lausaféð (búfé, hey, fóður, áhöld og tæki) tryggt hjá NTÍ. Sem þýðir að lausaféð er tryggt fyrir hamförum ýmiss konar. En þá þarf viðkomandi auðvitað að vera með landbúnaðartryggingu, sem ekki er skylda. Bjargráðasjóður fyrr og nú Þannig er að Bjargráðasjóður er á föstum fjárlögum en um er að ræða lága upphæð. Sem skýrist af því að ekki er vilji af hálfu ríkisins til að safna háum fjárhæðum upp í sjóði. Hins vegar hefur ríkið lagt til auka fjármagn í sjóðinn þegar mikið tjón hefur orðið. Þegar til tjóns kemur af náttúruhamförum sem heyrir undir Bjargráðasjóð þá er tjónið metið en svo ræðst það af stöðu sjóðsins hverju sinni hversu hátt hlutfall af metnu tjóni tjónþoli fær bætt, með styrk. Svo ef bændur lenda í mjög svipuðum tjónum sem sjóðurinn bætir, t.d kal í túnum, með nokkurra ára millibili, þá er alls ekki víst að þeir fái sama hlutfall af tjóni bætt, þar sem úthlutun byggir á því hvernig sjóðurinn stendur hverju sinni. Ekki mikið jafnræði þar. Þær breytingar hafa orðið á högum Bjargráðasjóðs að í byrjun mars 2022 tók NTÍ yfir umsýslu sjóðsins. Engar breytingar urðu á stjórn sjóðsins, en vonandi meiri formfesta á úthlutun. Í hamförum af stórum skala, t.d. öskufallið í Eyjafjallajökulsgosinu og þegar mikil kaltjón hafa orðið, þá hefur ríkið gripið inn í og aukið framlag í sjóðinn. En hvað bætir Bjargráðasjóðurinn eiginlega? Í megindráttum skiptist það í þrennt: 1. Gjaldskyldar fasteignir, girðingar, tún og rafmagnslínur tengdar landbúnaði. 2. Hey sem notað er í landbúnaðar- framleiðslu. 3. Uppskerubrest af völdum kals, þurrka, óþurrka og óvenjulegra kulda. Svona lítur þá Bjargráðasjóður út í dag, í stuttu máli, en þetta var ekki alltaf svona. Bjargráðasjóður hinn forni var nefnilega með A-almenna deild og B-búnaðardeild. A-deildin sá um að styrkja einstaklinga, félög og sveitarfélög sem höfðu lent í meiriháttar beinu tjóni af völdum náttúruhamfara. B-deildin hins vegar bætti meiriháttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa á búfé þegar ekki var hægt að kenna gáleysi eða ásetningi eigenda eða umráðamanna um og allar eðlilegar varnir við hafðar. Ekki var bætt tjón sem hægt var að tryggja annars staðar. A-deildin var fjármögnuð með ríki og sveitarfélögunum en núna er það aðeins ríkið sem sér um fjármögnunina og sveitarfélögin geta ekki sótt í sjóðinn. B-deildin var hins vegar fjármögnuð af búnaðargjaldinu sáluga og hvarf þegar það var afnumið og er því ekki til í dag. En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Við bændur erum ekki tryggðir og virðumst ekki geta tryggt okkur á sama hátt og gert var með B-deildinni. Jafnframt vantar að hægt sé að tryggja tjón af völdum plöntusjúkdóma og afurðatjóns, já og öflugri rekstrarstöðvunartryggingar. Hvað þá ef hörmulegir búfjársjúkdómar fara að herja meira á okkur? Hvað gera bændur þá? En hvað er verið að gera í dag? Það hefur verið vitað í langan tíma að þessi tryggingamál okkar bænda hafa verið í nokkrum ólestri eftir að Bjargráðasjóður var skilinn eftir með svo lítil fjárráð. Árið 2012 var skipaður starfshópur um þessi mál sem skilaði skýrslu 2013 sem virðist lítið hafa verið gert með, en þar var lagður til Hamfarasjóður en B-deild Bjargráðasjóðs ekki með. Aftur er svo skipaður hópur 2015 sem skilar skýrslu 2016 um Hamfarasjóð þar sem átti að sameina Ofanflóðasjóð og Bjargráðasjóð A-deild, en ekki B-deild. Um þetta leyti var búnaðargjaldið að leggjast af og því tilvist B-deildar að engu að verða. Það var nokkuð óljóst hver átti að taka við því hlutverki og síðan þá hefur ekkert gerst til að varpa ljósi á það. Nú er búið að stofna enn einn starfshópinn um sama mál og leyfi ég mér að vera bjartsýn, segir ekki máltækið allt er þegar þrennt er? Ég hvet starfshópinn eindregið til að huga vel að fjármögnun á þeim tillögum sem þau koma fram með. Það er ljóst að bændur þurfa betri tryggingar sem meðal annars taka til alls þess sem B-deildin tók til. Einnig tryggingar fyrir uppskerubrest hvort sem er af völdum veðurs og/eða dýra. Við bændur megum ekki sætta okkur við að vera verr tryggð en kollegar okkar í þeim löndum sem við berum okkur saman við, hvorki að umfangi né fjárhæðum. Vaka Sigurðardóttir, bóndi Dagverðareyri, stjórnarmaður hjá Nautgripabændum BÍ (NautBÍ) og formaður Félags eyfirskra kúabænda (FEK). LÍF&STARF LESENDARÝNI Gætum þess hvaða augu við gefum framtíðinni Oft hef ég velt fyrir mér samfél ags­ gildum gamla bænda samfél agsins, eða eldra samfél agsins alls. Þau gildi sem um ræðir eru væntanlega sterkari og meira áberandi í smærri samfélögum, en þau snúast um samhjálp og náungakærleika. Að færa nágranna sínum rjóma og smjör á tyllidögum því þú veist að hann hefur ekki kost á slíkum kræsingum sökum fátæktar. Að huga að og hlúa að þeim sem eru einir, þeim sem hafa misst, heimilum þar sem veikindi, fátækt eða önnur erfið verkefni eru knýjandi byrði. Sælla er að gefa en þiggja og gjöf þarf ekki að vera stór, eitt bros getur gefið mikið þeim sem á lítið, til að mynda þeim sem á lítinn aðgang að hlýju eða kærleik, eða litla von. Samfélag okkar á Íslandi fer óðum stækkandi og það er gott og gleðilegt, en mikilvægt er að muna góðu gildin, að finna það innra með sér hve gott er að hugsa til þarfa annarra einnig, ekki eingöngu sinna eigin. Græðgin er einn fylgikvilla stækkandi samfélags og meira flæðis fjármagns. „Þrjú mikil öfl stýra heiminum: heimska, hræðsla og græðgi“ er haft eftir Albert Einstein. Fleiri miklir hugsuðir, kennismiðir og andlegir leiðtogar hafa bent á hið sama. „Engir óvinir finnast utan sálarinnar. Hinir sönnu óvinir lifa innra með okkur: Reiði, eigingirni, græðgi og hatur“ er haft eftir Buddha. „Engin hörmung er verri en græðgi“ er haft eftir Lao Tzu. Svona má lengi telja. Upphaf kapítalismans, með undiröldu græðgishugsjóna á kostnað náungakærleika og samhjálpar, liggur líkast til í skítahaugnum, lífrænum áburði til ræktunar á frjósömu landi. Sá sem átti stærsta skítahauginn var best settur, hann hlýtur einnig að hafa átt flest húsdýrin og jafnframt mesta landsvæðið til að næra öll dýrin sín. Hann átti meira en nóg af lífræna áburðinum og gat því selt öðrum sem áttu þá einnig kost á að rækta upp frjósamt land og gat grætt sjálfur í leiðinni. Það er gott að eiga lífrænan áburð til ræktunar á frjósömu landi og uppbyggingar samfélags, en hversu stóran skítahaug þarf einn maður að eiga til að hann eigi nógan skít? Hola í haug samfélagsáburðarins „Sá sem kennir er sá sem gefur augun“ er haft eftir Konfúsíusi. Einhvern veginn hefur sú samfélags- gerð sem hefur þróast gefið augu sem þrá meiri skít, meiri lífrænan áburð, langtum meira en umfram eigin not. Mér verður hugsað til bankasölunnar víðræddu. Þar er mikill skítur saman safnaður en haugurinn er almannaeign, eign samfélagsins alls, til stuðnings við samfélagið, til viðhalds þess og uppbyggingar. Skítahaugnum góða, sem samfélagsþegnar áttu sameiginlega var með ákvörðunum fárra valdhafa skipt með því að útdeila skóflum til nokkurra valinna samfélagsþegna, sem þegar áttu stóra skítahauga sjálfir, m.a. til fjölskyldumeðlima valdhafanna. Sumir þessara völdu samfélagsþegna notuðu þessar sömu skóflur sem þeim var úthlutað m.a. undir merkjum kjölfestu skítahaugsins sem áður var almannasameign, til að moka úr skítahaug almanna í sinn eigin haug og selja svo þennan sama skít á hærra verði sér til gróða til að moka meiri skít í gríðarstóra skítahauga sína. Þeir útvöldu höfðu m.a. orð á því að þeir hefðu fengið almannaskítinn á spottprís og gátu því grætt vel. Hvað fékk almenningur fyrir þá eign sem var öllum sameiginleg en seld á spottprís? Ekkert annað en holu í haug samfélagsáburðarins sem hafði áður verið sameiginleg eign með kjölfestu í almannaeigunni. Eignin hvarf og kjölfestan hvarf. Hvernig má réttlæta svona gjörning sem byggir á græðgi, valdaspili og siðleysi? Hvaða augu gefur þessi kennari? Að það að hrifsa til sín eignir annarra sé réttlætanlegt, þ.e. réttlætanlegt ef réttir valdhafar standa að þeim gjörningi? Það gengur þvert á þær hugmyndir sem mín menntun gaf mínum siðferðisaugum. Í samfélagi þurfa valdhafar að hafa skýra heimild, lagaheimild og siðferðisheimild, til að beita því valdi sem þeim er falið og eignarnám hlýtur að vera valdbeiting. Hið sama á í raun við um kvótasöluna á sínum tíma, til fárra útvaldra sem áttu fyrir gríðarstóra skítahauga sem hafa stækkað með kvótaeigninni, þ.e. eignarnámi á sameiginlegri auðlind, fiskinum í sjónum í landhelgi Íslands. Falleg mynstur á hveitipokana Aftur og aftur koma upp aðstæður í samtímanum þar sem einn eða fámennur hópur valdhafa smærri og stærri samfélaga misnota umboð sitt til valds til að þröngva almenningi, heilum þjóðum í aðstæður sem almenningur kýs ekki, vill ekki og sér ekkert réttmæti í fyrir almannaheill, hvort sem um er að ræða flutning eigna úr almannaeigu til fárra útvaldra, stríð eða annað. Öll valdbeiting þarf að vera byggð á heimild til notkunar valdsins. Sala almannaeigna með þeirri kjölfestu og styrk sem almannaeign felur í eðli sínu í sér séu valdhafar færir um að meðhöndla eignir almennings, þarf að vera byggð á skýrri og augljósri heimild, skýrum og augljósum markmiðum og skýrum og augljósum rökstuðningi. Þau markmið sem m.a. hafa verið nefnd til grundvallar bankasölunni felast í þeirri úreltu skoðun að einkaeign stuðli sannarlega að meiri kjölfestu og betri rekstri. Þessi hugmynd um að einkaeign stuðli óhjákvæmilega að betri rekstri var kennd þegar ég var í barnaskóla fyrir 40 árum og átti líklega best við um fjölskyldurekin fyrirtæki og stofnanir um miðja síðustu öld. Í dag, í kapphlaupi kapítalismans þar sem ofnýting og misnotkun náttúruauðlinda, mannauðs og annarra auðlinda í græðgisskyni, sem orsakað hefur ofsöfnun gæða á fáar hendur og þá loftslagsvá sem við blasir með tilheyrandi náttúruhamförum, á þessi gamla hugmynd um að einkaeign sé besta kjölfestan ekki gildi almennt. Fjárfestar hveitimyllu nútímans munu ekki leggja aukið fjármagn í bómullarhveitipokana undir hveitið með því að prenta falleg mynstur á pokana svo að efnaminni mæður samfélagsins geti saumað mynstraðar flíkur á börnin sín úr hveitipokunum, eins og eigendur hveitimylla um 1930 gerðu þegar þeir uppgötvuðu að mæður saumuðu föt á börnin sín úr hveitipokunum. Ítrekuð dæmi eru um að einkaeign hafi einmitt stuðlað að því að fyrirtæki eru étin innan frá, laun eru lækkuð til almenns starfsfólks (ekki síst þeirra sem þegar eru lægst launaðir), þróunarstarf er svelt, innviði eru svelt, gæði og metnaður víkur fyrir ódýrari lausnum, dregið er úr persónulegri þjónustu og ofurálag er sett á alla þjónustu og afurðir – og skítnum er öllum mokað í risahaug eigandans. Hvað með að gefa samfélaginu meira en þú tekur? Hver er aðalmælikvarðinn á vel rekið fyrirtæki eða stofnun, er það fjárhagslegur hagnaður? Hvað með aðbúnað starfsfólks, launakjör starfsfólks og möguleika þeirra til mannsæmandi lífs, aðgerðir fyrirtækisins/stofnunarinnar til varnar neikvæðum loftslagsáhrifum, öflugt þróunarstarf til bættrar starfsemi og nýsköpunar í starfseminni, áherslu á samstarf við sambærileg fyrirtæki/ stofnanir fremur en samkeppni, sterka innviði, viðhald og almenna uppbyggingu með jákvæðar samfélagslegar afleiðingar. Hvað með að gefa samfélaginu meira en þú tekur? Ætti það ekki að vera hinn eini sanni mælikvarði á góðan rekstur fyrirtækis eða stofnunar? Sælla er að gefa en þiggja, sæll er sá sem skilur eftir sig fegurð og uppbyggingu. Valdhafar gætið að gjörðum yðar, þið eruð kennarar sem gefið framtíðinni augu. Í ljósi aðstæðna kýs ég ekki þessa leið einkavæðingar fyrir þær stofnanir sem grundvallaratriði er að eigi trygga og örugga kjölfestu velferðar, uppbyggingar og þróunar í samfélagi okkar, ég kýs þessa leið ekki fyrir menntakerfið okkar, ekki fyrir heilbrigðiskerfið okkar og ekki fyrir kjölfestuna í bankakerfinu okkar. Ég kýs að þessar stofnanir eigi tilveru sem er ótengd eyðileggingarmætti græðginnar. Þetta er ekki framboðsræða eða áróðursræða, þetta er ákall um sanngjarnt og fallegt samfélag. Ég girnist hvorki gróða, né kvóta, né vald, né skít. Ég girnist réttlæti, fallegt siðferði, mannúð, náungakærleik og samhjálp, samfélag sem kennir þessi gildi og framtíð með falleg augu. Rakel Halldórsdóttir, fyrrum Frú Lauga Rakel Halldórsdóttir. Hversu vel erum við bændur tryggðir? Vaka Sigurðardóttir.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.