Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.01.2022, Page 27

Læknablaðið - 01.01.2022, Page 27
L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 27 Y F I R L I T S G R E I N í þrjú skipti. Hnitstýrð geislameðferð krefst mikillar nákvæmni í staðsetningu sjúklings, myndstýringu og myndvinnslu, ekki síst vegna áhrifa öndunarhreyfinga á staðsetningu æxlisins.91 Vonir standa til að hnitstýrð geislameðferð verði tekin upp á Landspítala á næstu misserum. Læknandi geislameðferð Lungnakrabbamein önnur en smáfrumukrabbamein Við óskurðtæk lungnakrabbamein á stigi III er oftast gefin hefð- bundin geislameðferð daglega 5 daga vikunnar, oftast 2 Gy í senn þar til að 60-66 Gy heildarskammti hefur verið náð.92 Samhliða geislameðferðinni er gefin meðferð með krabbameinslyfjum.92 Meðferðarsvæðið er æxlið sjálft ásamt þeim eitlum sem sterkur grunur er um að innihaldi meinvörp.93 Sjúklinga með æxli á stigi I og II sem ekki er treyst í skurðað- gerð er hægt að meðhöndla með læknandi hnitmiðaðri geislameð- ferð.94,95 Ekki liggja fyrir slembaðar rannsóknir þar sem árangur er borinn saman við skurðaðgerð. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á allt að 41% 5 ára lífshorfur,95 jafnvel þótt geislameðferðarhópurinn sé eldri og með fleiri langvinna sjúkdóma en sjúklingar sem geng- ust undir skurðaðgerð.96 Geislameðferð fyrir skurðaðgerð getur komið til greina í völdum tilvikum sjúklinga með stig lllA sjúk- dóm,97 en geislameðferð eftir skurðaðgerð, eins og hjá þeim sem eru með æxli í skurðbrúnum, er næstum aldrei beitt, enda sýnt fram á að lifun er verri eftir slíka geislameðferð.98 Smáfrumukrabbamein Smáfrumukrabbamein sem bundið er við annan helming brjóst- hols er alla jafna meðhöndlað bæði með krabbameinslyfjum og geislameðferð samhliða í læknandi skyni.35 Geislaskammtar eru sambærilegir og fyrir önnur lungnakrabbamein, en oft eru gefnar tvær meðferðir daglega á skemmra tímabili. Ef svörun við upp- hafsmeðferð er góð næst oft betri lifun með því að gefa fyrirbyggj- andi geislameðferð á heilavef í kjölfarið.35 Líknandi geislameðferð Líknandi geislameðferð er beitt þegar lækningu við lungna- krabbameini verður ekki komið við, og þá oftast vegna einkenna frá meinvörpum eða frumæxli. Geislaskammtur og lengd með- ferðar veltur á almennu ástandi sjúklings, einkennum og staðsetn- ingu æxlis, allt frá stakri meðferð í allt að 10 skipti.99 Líknandi meðferð önnur en geislameðferð er afar mikilvægur þáttur í meðferð sjúklinga með ólæknandi lungnakrabbamein, en er ekki til nánari umfjöllunar hér. Lífshorfur og forspárþættir Stigun er sterkasti forspárþáttur lífshorfa fyrir sjúklinga með lungnakrabbamein, bæði smáfrumukrabbamein og önnur lungna- krabbamein. Aðrir mikilvægir forspárþættir eru frumugerð,100 innvöxtur í æðar og sogæðar,101 en einnig aldur, almennt ástand sjúklings (hrumleiki), þyngdartap og starfsgeta.102 Nýlega hefur þekking á sameindaerfðaþáttum eins og stökkbreytingum í EGFR, ALK, PDL1, ROS1 í æxli sjúklinga opnað fyrir nýja meðferðar- möguleika hjá sjúklingum með dreifðan sjúkdóm, og geta verið forspárþættir lifunar.103,104 Þannig hafa nýlegar rannsóknir sýnt að ónæmisörvandi meðferð getur allt að tvöfaldað lifun sjúklinga með kirtilkrabbamein á stigi IV þar sem æxlin eru án sértækra stökkbreytinga,105 þrefaldað lifun þeirra sem eru með EGFR-stökk- breytingu71 og allt að sjöfaldað lifun sjúklinga með ALK-stökk- breytingu.106 Lokaorð Á síðasta áratug hafa orðið miklar framfarir í greiningu og með- ferð lungnakrabbameins og hafa þær flestar verið teknar upp hér á landi. Þar vegur þyngst tilkoma nýrra líftækni- og krabbameins- lyfja hjá sjúklingum með útbreiddan sjúkdóm en einnig notkun jáeindaskanna og ómsjárspeglana sem bætt hafa umtalsvert stig- un miðmætiseitla. Loks hefur tilkoma brjóstholsspeglunar aðgerða gjörbreytt skurðmeðferð sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm og framfarir í geislameðferð auðveldað meðferð þeirra sem ekki er treyst í aðgerð. Skimun við lungnakrabbameini hefur enn ekki verið tekin upp en ljóst er að ákjósanlegar aðstæður eru til slíkrar leitar vegna þekkingar á faraldsfræði sjúkdómsins hérlendis og erfðum hans. Ánægjulegustu fréttirnar í baráttunni við lungna- krabbamein er hversu mikið dregið hefur úr reykingum á Íslandi og vekur það vonir um að snúa megi niður þennan illskæða far- aldur sem lungnakrabbamein er enn. Þakkir Þakkir fær Sigríður Oddný Marinósdóttir verkefnastjóri lungna- lækninga á Landpítala fyrir aðstoð við uppsetningu á töflum og heimildum. Greinin barst til blaðsins 8. júní 2021, samþykkt til birtingar 1. desember 2021.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.