Læknablaðið

Årgang

Læknablaðið - 01.01.2022, Side 58

Læknablaðið - 01.01.2022, Side 58
58 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 Þegar ég gekk til prestsins forðum daga, í undirbúningi fermingar, upplifði ég oft á tíðum hjartatitring. Hjartað tók byltur, hoppaði skringilega til og sýndi á sér hliðar sem ég hafði ekki upplifað áður. Ég kunni því vel að meta predikanir lærimeistarans um tilvist framhaldslífs því ég var ekki í neinum vafa um að ég sjálfur væri við dauðans dyr. Eins og oft áður stappaði móðir mín í mig stálinu. „Hafðu engar áhyggjur af þessu, þetta eru bara hjartataugarnar.“ Ég missti föður minn ungur og fyrir vikið var huggunarmáttur móðurorðanna mikill. Því sannfærðist ég fljótt um að enn væri lífsvon og tók gleði mína á ný. Stuttu síðar komst ég að því að út- skýringar og ráðleggingar móður minnar voru ekki út í bláinn heldur gagnreyndar. Heimildin var dökkbrún og snjáð skrudda sem stóð dularfull og íbyggin í einni af bókahillum heimilsins. Bókin bar heitið Heilsurækt og manna- mein – læknisfræði nútímans fyrir almenning. Hún var rituð af Níels heitnum Dungal og kom út árið 1943. Þessi rúmlega sjö hundruð síðna doðrantur vakti fljótlega forvitni mína. Þarna mátti finna ítarlegar greinar um alla mögulega sjúkdóma auk áhrifamik- illa litmynda sem hæglega vöktu óhug í ungri sál. Mestan áhuga minn vakti kaflinn um giktsjúkdóma í hjarta. Um þennan sjúk- dóm las ég aftur og aftur þangað til ég var orðinn sannfærður um að þessi veiki hefði búið um sig í mínu hjarta. Allt kom heim og saman. Því miður voru með- ferðarmöguleikar fáir og horfur slæmar. Síðar lærði ég að þeir eru samferða- L I P R I R P E N N A R Heimugleg andvörp hjartatauga Axel F. Sigurðsson hjartalæknir axel@hjartamidstodin.is menn, hjartatitringurinn og heilsukvíð- inn. Getur hjartað slegið aftur á bak? Hjartsláttaróþægindi eru meðal algeng- ustu ástæðna þess að fólk leitar læknis. Langoftast er þó um fullkomlega sak- laust fyrirbæri að ræða. Lífshættulegar hjartsláttartruflanir gefa sig oftast til kynna á annan máta. Hugtakið „palpitations“ lýsir óþægi- legri meðvitund um eigin hjartslátt, jafn- vel þótt hann sé fullkomlega reglulegur og í alla staði eðlilegur. Einhverra hluta vegna viljum við helst ekki vita af hjartanu. Við kippum okkur ekki upp þótt garnirnar gauli en helst viljum við ekki finna hjartað slá. Fólk lýsir hjartsláttarónotum á ýmsan hátt. Eitt sinn sagði áhyggjufullur skjól- stæðingur við mig: „Ég er búin að vera með stöðugan hjartslátt í marga daga“. Hvernig er hægt að kvarta yfir því að vera með hjartslátt? Þá sagði kona nokkur við mig nýverið: „Óþægilegast finnst mér þegar hjartað slær aftur á bak.“ Svíar nota orð eins og „hjärtklappn- ing“ og „dubbelslag“. Enskan notar orð eins og „irregular beats“, „skipped beats“, „fluttering“ og „flip-flopping“. Orðið hjartatitringur gæti náð nokkuð vel yfir þetta allt saman. Endurupprisa hjartatauganna Hafandi verið búinn að upplifa vand- ræðagang hjartatauganna sjálfur nokk- uð lengi á uppvaxtarárunum beið ég spenntur eftir að læra meira um þessa merkilegu þræði þegar ég hóf nám í læknis- fræði. Það kom hins vegar fljótt á daginn að hjartataugarnar áttu ekki lengur upp á pall- borðið. Allt tal um þær var úrelt og tilheyrði fortíðinni. Ágætir kennarar bentu á að tilvísun í hjartataugarnar væri eitthvað sem læknar hefðu lengi notfært sér til að útskýra ein- kenni frá hjarta sem þeir hreinlega gátu ekki útskýrt. Nú skyldi einblínt á leiðslukerfi hjartans, boðspennur, afskautun og endur- skautun. Nýverið hafa hjartataugarnar þó fengið uppreisn æru og hafa rannsóknir sýnt að þær gegna lykilhlutverki í starfsemi hjart- ans. Mænan, heilastofninn og ýmsir aðrir hlutar heilans fá stöðug taugaboð frá hjart- anu. Að sama skapi berast boð frá miðtauga- kerfinu til hjartans um sympatískar og para- sympatískar taugabrautir. Um er að ræða afar flókin „feed-back“ kerfi sem ætlað er að stuðla að stöðugleika og jafnvægi í starfsemi hjarta og æðakerfis. Komið hefur í ljós að þessi stýrikerfi gegna lykilhlutverki við tilurð og þróun ýmissa hjartasjúkdóma. Líklegt er að aukin þekking á starfsemi hjartatauganna geti hjálpað okkur að skilja betur orsakir skyndidauða af völdum hjart- sláttartruflana sem mikið hefur verið rætt og ritað um undanfarið. Hjálmar Jónsson frá Bólu orti: „heimugleg andvörp hjartatauga hrópa þegjandi á vörum þeim”. Það er óhætt að tala um hjartataugarnar aft- ur. Þær hafa ekki tekið síðasta andvarpið.

x

Læknablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.