Sjómannablaðið Víkingur

Ukioqatigiit

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Qupperneq 11

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Qupperneq 11
Sjómannablaðið Víkingur – 11 Þegar Ásgeir yngri festi kaup á Sass- verslun í Neðstakaupstað á Ísafirði árið 1883 fylgdu tvö kaupskip með í kaupunum. Þau hétu Amphitrite (97 rúmlestir) og Maagen (86 rúm- lestir). Þessi skip átti verslunin þó aðeins í fáein ár. Maagen týndist í hafi á leið til Spánar árið 1887 og Amphitrite strandaði við Orkneyjar á leið frá Kaupmannahöfn til Ísafjarð- ar 18. mars 1892. Árið áður hafði verslunin eignast annað skip sem Ásgeir keypti á uppboði eftir að því hvolfdi á Sundunum á Ísafirði. Það var upphaflega norskt, galeas, og hét Christ- ine. Ásgeir skírði skipið Árni Jónsson, eftir mági sínum og verslunarstjóra Ás- geirsverslunar í Neðstakaupstað. Galeas- inn Árni Jónsson reyndist hins vegar ekkert happafley. Hann strandaði í Ön- undarfirði skömmu fyrir jól árið 1893 og eyðilagðist. Þegar árið 1893 átti Ásgeirsverslun þannig aðeins yfir tveimur seglskipum að ráða. Sá skipakostur var allsendis ónógur þar sem flutningar á vegum fyrir- tækisins jukust nánast ár frá ári. Af þeim sökum hafði Ásgeir G. Ásgeirsson brugð- ið á það ráð á árinu 1893, áður en Árni Jónsson strandaði, að festa kaup á 849 rúmlesta gufuskipi, sem Helge hét og var smíðað í Skotlandi árið 1869. Hann lét gera nokkrar breytingar og endur- bætur á skipinu og skírði það síðan upp og nefndi Á. Ásgeirsson, eftir föður sín- um. Á. Ásgeirsson var fyrsta gufuknúna millilandaskipið í eigu Íslendinga og skipar því veglegan sess í íslenskri sigl- ingasögu. Það kom fyrst til íslenskrar hafnar er það kom til Ísafjarðar, hlaðið kolum og salti, hinn 8. maí 1894. Skipið var einkaeign Ásgeirs G. Ásgeirssonar en þegar hann lést árið 1912 eignaðist Ás- geirsverslun það. Skipið var mest í för- um til og frá Ísafirði og flutti hvers kyns vörur fyrir Ásgeirsverslun. Það fór oft með saltfisksfarma til Suðurlanda og á vetrum var það tíðum í leigusiglingum á milli hafna í Norður-Evrópu. Árið 1915 var það selt til Finnlands og örlög þess urðu þau að það fórst á tundurdufli í Finnska flóa árið 1917 eða 1918. Skipstjóri á Á. Ásgeirsson á árunum 1894-1913 var danskur, Gregersen að nafni. Skipverjar voru og flestir danskir en stýrimaður var Árni Riis, systursonur Ásgeirs yngra. Hann tók við stjórn skips- ins eftir Gregersen og stýrði því þar til það var selt árið 1915. En Á. Ásgeirsson var ekki eina gufu- skipið í eigu Ásgeirs G. Ásgeirssonar. Ás- geirsverslun var mikið fyrirtæki, hið stærsta á Íslandi á sinni tíð, og rak útibú víða um norðanverða Vestfirði. Mikið þurfti að flytja að þeim og frá og til að anna þeim flutningum keypti Ásgeir árið 1889 36 rúmlesta gufuskip. Það hlaut nafni Ásgeir litli, eftir ungum systursyni Ásgeirs. Skipið kom fyrst til Íslands árið 1890 og hóf strax áætlunarferðir um Ísa- fjarðardjúp, auk ferða á milli útbúa Ás- geirsverslunar. Áætlunarferðum hélt skipið uppi til 1904, en eftir það var það eingöngu notað til flutninga og skemmti- ferða til 1915, er því var lagt. Það var síðan rifið. Skipstjórar og skipverjar á Ásgeiri litla voru danskir, að einum undanskildum. Hann hét Guðmundur Viborg Jónatans- son og var fyrst aðstoðarmaður í vél og vélstjóri síðustu árin. Loks er þess að geta, að Ásgeir G. Ásgeirsson átti um skeið á síðasta áratug 19. aldar skip sem hét Solide. Það var seglskip með lítill hjálparvél og mun einkum hafa verið notað í lausakaup- ferðir á sumrin. En Ásgeirsverslun var fráleitt eina vestfirska fyrirtækið í eigu Íslendinga, sem gerði út kaupskip á 19. öld. Lárus Á. Snorrason, kaupmaður á Ísafirði, gerði út skipið Lille Alide um skeið á 9. áratug aldarinnar, en það fórst með allri áhöfn á leið frá Englandi til Íslands árið 1890. Árið 1883 bættust tvær skonnort- ur í kaupskipaflotann, hétu báðar Guð- rún og voru báðar smíðaðar í Frakk- landi. Aðra keypti Jófríður Guð- mundsson kaupmannsekkja í Flatey á Breiðafirði og hafði í millilandasigl- ingum fram á 20. öld. Hitt skipið átti Markús Snæbjörnsson kaup- maður á Patreksfirði og gerði út til ársins 1900, er það var selt til Sví- þjóðar. Kaupskipin, sem hér hafa verið talin, voru öll í eigu verslana og einstakra manna. Það var í samræmi við gamla venju, að kaupmenn á Íslandi, íslenskir og danskir, önnuðust sjálfir flutninga á vörum til og frá verslunum sínum. Um aðra flutningsmöguleika var ekki að ræða, utan það sem flutt var með póstskipum og skipum lausakaupmanna. Eiginleg skipafélög, sem einungis sinntu kaupskipaútgerð og vöruflutningum fyrir hvern þann sem þurfti að flytja vörur, voru engin til á Íslandi fyrr en á 20. öld. Jónas Hallgrímsson undraði árið 1839 að Íslendingar hygðust hefja millilanda- siglingar „þótt enginn kunni að sigla“. Undrun skáldsins var vissulega rétt- mæt, og eins og fram hefur komið hér að framan, voru allir skipstjórar á kaupskip- um í eigu Íslendinga á 19. öld, danskir; Árni Riis tók ekki við skipstjórn á Á. Ásgeirssyni fyrr en nokkuð var liðið á 20. öld. Hitt fer hins vegar ekki á milli mála, að siglingar um úthöfin heilluðu marga unga Íslendinga og á ofanverðri 19. öld- inni lærðu allmargir þeirra stýrimanna- og skipstjórnarfræði í erlendum sjó- mannaskólum, flestir í Danmörku. Árangur þess kom í ljós þegar íslenskir menn stofnuðu eigið skipafélag í upphafi 20. aldar. Ásgeir við bryggju í Nýhöfn. Mynd: Ljósmyndasafnið Ísafirði.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.