Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Side 16
16 – Sjómannablaðið Víkingur
Það var byrjað að vora þegar ég gekk
inn á sjómannastofuna í Walvis Bay
í Namibíu um miðjan október á síðasta
ári. Sjómannastofan er rekin af Mission
for Seafarers en þeir starfrækja afdrep
fyrir sjómenn í um 120 hafnarborgum
um allan heim. Þar geta sjómenn kom-
ið, stytt sér stundir og haft samband
við fjölskyldur sínar í gegnum internet-
þjónustu, nú eða fengið að hringja heim
svo eitthvað sé nefnt. Ég hafði farið
þangað í þeim tilgangi að hitta íslensk-
an vélstjóra, Elfar Óskarsson, búsettan
í Walvis Bay og í siglingum um öll
heimsins höf.
Í þjónustu Sæblóms
Það var í byrjun október sem ég rakst á
Elfar á flugvellinum í Frankfurt en þar
vorum við báðir í millilendingu á leið til
Namibíu, ég frá Íslandi en hann frá Hol-
landi. Við erum búnir að þekkjast í rúm-
an áratug og því var þetta skemmtileg
tilviljun að hittast á förnum vegi í flug-
stöð í Þýskalandi. Fór hann að segja mér
frá því að hann hefði farið víða um heim
á undanförnum árum og meðal annars
komist í tæri við sjóræningja á einni af
siglingum sínum. Það var einmitt sú frá-
sögn sem leiddi til fundar okkar á ný í
sjómannastofunni í Walvis Bay tæpum
þremur vikum síðar.
Elfar er borinn og barnfæddur Hús-
víkingur sem yfirgaf heimabæ sinn og
flutti alfarinn suður til Reykjavíkur
rúmlega þrítugur, þá búinn að ráða sig
í vinnu hjá Kælismiðjunni Frosti. Hann
hafði reyndar lokið Vélskólanum í
Reykjavík 1984 og starfaði lengi sem vél-
stjóri á Kolbeinsey ÞH og einnig á Galta
ÞH. Eftir fimm ára starf hjá Frost sá
hann að Þróunarsamvinnustofnun Ís-
lands var að auglýsa eftir vélstjóra til
starfa á vegum stofnunarinnar við þróun-
arstarf í Namibíu. Auglýsingin var freist-
andi og áður en hann vissi af var hann
lagður af stað frá Íslandi á framandi slóð-
ir í sunnanverðri Afríku. Í fyrstu skyldi
hann vera vélstjóri á namibíska rann-
sóknarskipinu Welwitchia sem sinnti
haf- og fiskirannsóknum í landhelgi
Namibíu en síðan að taka að sér kennslu
í vélfræði við Namibian Maritime &
Fisheries Institute sjómannaskólann í
Walvis Bay sem í daglegu tali er kallaður
NAMFI. Mikill fjöldi Íslendinga vann
árum saman við þróunarstörf í Namibíu
en lengst var starfið þar tengt uppbygg-
ingu NAMFI en Íslendingarnir voru
bæði við kennslu og ráðgjöf þau ár sem
þróunaraðstoð við Namibíu stóð yfir.
Að öllu jöfnu fengu Íslendingarnir
tveggja ára ráðningarsamninga og
snéru þá aftur heim. En Elfar átti eftir
að ílengjast því að þegar tveggja ára
samningstíma hans var að ljúka voru að
hefjast framkvæmdir við byggingu á
nýrri aðstöðu fyrir vélstjórnarhluta sjó-
mannaskólans og var hann settur yfir þá
framkvæmd. Þar af leiðandi var samn-
ingur hans framlengdur þar til þeim
framkvæmdum var að fullu lokið en þá
var komið fram á árið 2006. Framtíðin
var þá með öllu óráðin en Elfar var
búinn að festa rækilega rætur og hafði
tekið ástfóstri við land og þjóð svo hug-
urinn stóð ekki til að snúa aftur heim
til Íslands. Það bar því vel í veiði þegar
honum bauðst pláss á uppsjávarskipinu
Que Vadis sem var í eigu Sæblóms en
skipið hélt til veiða frá Angóla sem er
næsta land norðan við Namibíu. Var
skipið gert út til uppsjávarveiða frá
Tombwa og gengu veiðar vel. En það
voru í raun önnur vandamál sem urðu
til þess að þessum veiðum var hætt.
Stjórnkerfið í Angóla reyndist útgerðinni
þyngri þrautin en svo að hægt væri að
halda veiðum áfram og því var ákveðið
að breyta skipinu til að það hentaði til
veiða við strendur Marokkó í Vestur-
Sahara. Við fall fjármálakerfisins á Ís-
landi haustið 2008 varð útgerð skipsins
gjaldþrota og var hún yfirtekin af BP
skipum og fylgdi Elfar með skipinu.
Ekki varð dvöl hans löng hjá nýjum
eigenda en hann hætti í maí árið eftir
þegar ekki höfðu fengist greidd laun.
Texti: Hilmar Snorrason – Myndir: Elfar Óskarsson
Elfar Óskarsson fyrir utan sjómannaheimilið í Walvis Bay í Namibíu. Mynd: Hilmar Snorrason