Andvari - 01.01.2016, Síða 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
in. Það lítur afar illa út fyrir forsætisráðherra, sem stóð í samningum við
kröfuhafa föllnu bankanna, að kona hans reynist vera í þeim hópi. Það var
þessi siðferðilegi þáttur sem varð til að fella forsætisráðherrann. Með öðrum
orðum má maður í þessari stöðu, æðsti valdsmaður þjóðarinnar, ekki lenda
í því að ástæða sé til að draga heilindi hans í efa. Um hina siðferðilegu hlið
málsins birtu tveir heimspekingar, Vilhjálmur Árnason og Henry Alexander
Henrysson, athyglisverða blaðagrein („Panamalekinn. Hvers vegna svona
sterk viðbrögð?“, Fréttatíminn 9. sept. 2016). Hún er afar glögg, málefnaleg
og áreitnislaus. Hér verður tekinn upp kafli úr greininni:
Um hvað snúast þessar siðferðilegu spurningar? Hér er mikilvægt að greina á
milli tveggja meginsjónarhorna um hvað uppljóstranirnar drógu fram. Víðara
sjónarhornið snertir þá gjá milli almennings og auðmanna sem enn og aftur blasti
við landsmönnum. Gjáin hefur verið til staðar og líklega hafa flestir getið sér til
um tilvist hennar og eðli, en í hvert sinn sem fréttir berast sem varpa ljósi á þessa
gjá eykur það sterkar kenndir hjá almenningi eins og vantraust, tortryggni, reiði og
vonbrigði. Þessar geðshræringar voru skiljanlega sterkar þar sem stutt er liðið frá
hruni og sárin frá þeim tíma ýfast upp.
Þessi gjá myndaðist ekki úr lausu lofti. Skipulega var búið í haginn fyrir háttsemi
af þessu tagi á bóluárunum fyrir hrun. Þegar talað er um „siðrof ‘ á þeim árum er
einmitt vísað í slíkar skipulegar aðgerðir þar sem vissum hópum í samfélaginu stóð
til boða annars konar ráðstafanir í sínum fjármálum heldur en almenningi. Þess
vegna er villandi að einblína á græðgi þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Hugarfar
mótaðist, fagmenn og fjármálastofnanir notuðu þekkingu sína og sambönd til að
greiða fyrir háttseminni og löggjafinn treysti sér ekki til að setja henni skorður.
Þarna var um að ræða hegðun sem grefur undan velferðarsamfélaginu. Fjármunir
sem áttu að fara í sameiginlegan kostnað við að reka siðað samfélag gátu horfið í
kjölfar þess að þeir voru fluttir í skattaskjól. Einnig grefur þessi háttsemi undan
heilbrigðum viðskiptaháttum og samkeppni - undan sjálfu markaðssamfélaginu
sem öðru fremur hefur áhrif á kjör almennings.
Margt fleira segir í þessari umhugsunarverðu grein sem hér verður ekki
rakið. - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra
6. apríl. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks starfaði áfram
og tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra. Hefur honum
farist það hlutverk vel úr hendi. Hins vegar er þegar þetta er ritað óljóst
um framtíð flokksformannsins Sigmundar Davíðs í stjórnmálum. Á haust-
fundi framsóknarmanna var ekki annað að heyra en hann hefði fullan hug
á að vera áfram formaður, en andstaða er töluverð við það innan flokksins,
af augljósum ástæðum. Alþingiskosningar munu fara fram 29. október og
hefur sjaldan ríkt önnur eins óvissa um niðurstöðu og framhald þeirra og
nú. Enginn veit hvað við tekur. Pólitísk óvissa er raunar einkenni samtím-
ans, hvert sem litið er. Bretar samþykktu að segja sig úr Evrópusambandinu,
þvert gegn því sem vænst var, í Bandaríkjunum sótti hin ógæfulegasta stefna