Andvari - 01.01.2016, Side 32
30
HANNES HOLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
stjórnað af fulltrúum stjórnmálaflokkanna.77 Forystumenn hreyfing-
arinnar gáfu þess vegna út á eigin kostnað fjórtán greinar undir heit-
inu Astandið í sjálfstæðismálinu, og kom bókin út 8. nóvember 1943.78
Þar kvað Sigurður Nordal Alþingi klæðast ljónshúð frægustu foringja
sjálfstæðisbaráttunnar og búast til baráttu við Dani: „En væri ekki
betur viðeigandi, að sú Islandsglíma færi ekki fram 17. júní, heldur á
afmælisdag Adolfs Hitlers, sem vér eigum hvort sem er allar „vanefnd-
ir“ Dana að þakka?“791 grein sinni í bókinni sagði Ólafur Björnsson
sambandsslit án samráðs við Dani vera ódrengileg eins og á stæði, auk
þess sem sýna bæri konungi, sem verið hefði þjóðhöfðingi íslendinga
í aldarfjórðung, fulla kurteisi og virðingu.80
I lok nóvember 1943 sendu 14 forystumenn hreyfingarinnar, þar
á meðal þeir Ólafur Björnsson og Klemens Tryggvason, bréf til for-
manns stjórnarskrárnefndar Alþingis. Þar gerðu þeir tillögur um máls-
meðferð sambandsslita, sem hefði haft í för með sér nokkra töf þeirra,
og kváðust gera ágreining opinberlega, yrði ekki á þá hlustað. „Vér
munum telja það siðferðilega skyldu vora að leggja málstað vorn fyrir
alþjóð Islendinga, svo að atkvæðagreiðsla um málið verði sem sönnust
skýrsla um vilja þjóðarinnar.“81 Ekki var þó á þá hlustað, enda nutu
sjónarmið þeirra takmarkaðrar samúðar alþýðu manna, svo að ekki
sé minnst á stjórnmálamenn. Þeir Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson
og fleiri héldu því fram, að Islendingar yrðu að hafa óbundnar hend-
ur í stríðslok. Ekki væri að vita, hvernig afstöðu Danmerkur til ann-
arra landa yrði þá háttað. Alþingi samþykkti í febrúar 1944 niðurfell-
ingu sambandslaganna og í mars nýja stjórnarskrá, og skyldi hvort
tveggja borið undir þjóðaratkvæði. Atkvæðagreiðslan fór fram 20.-
23. maí 1944. Atkvæði greiddu 98,6% kjósenda. Með uppsögn sam-
bandslaganna greiddu atkvæði 97,4%, en 0,5% á móti. Með lýðveldis-
stofnun og stjórnarskránni greiddu atkvæði 95,0%, en á móti 1,4%.
Alþingi staðfesti síðan niðurfellingu sambandslaganna og stofnun lýð-
veldis 16. júní, og var haldin hátíð í slagviðri á Þingvöllum 17. júní og
forseti kosinn í stað konungs. Ólafur Björnsson sótti ekki lýðveldis-
hátíðina, heldur sat þennan dag að spjalli heima hjá móðursystur sinni,
Kristínu Ólafsdóttur, og manni hennar, Vilmundi Jónssyni landlækni.
Eiginkona hans, Guðrún Aradóttir, var hins vegar á Þingvöllum, því
að hún söng þar í kór. „Þetta er eitthvert versta veður, sem ég hef verið
úti í,“ sagði hún. „Það gekk á með krapahríð, og það var hræðilega
kalt. Samt var þetta ógleymanleg stund.“82