Borgfirðingabók - 01.12.2010, Page 17
17Borgfirðingabók 2010
stóru svæði og mikið um að vera, mikill mannfagnaður, dans og
drykkja. Þegar fé og stóð var komið af fjalli og í heimahaga þurfti að
fara að sinna förgun og sláturtíð. Þeir sem þá keyptu afurðir í Borgar-
nesi voru aðallega þrír: Jón Björnsson frá Bæ (Bæjar-Jón, bróður-
sonur Snorra á Laxfossi), Jón Björnsson frá Svarfhóli (Svarf hóls-
Jón) og Kaupfélag Borgfirðinga. Þessir kaupendur söfn uðu slátur-
fjár loforðum hjá bændum að sumrinu og gerðu hosur sínar grænar
fyrir þeim með ýmsu móti. Það fór að mestu eftir pólitískum við-
horfum bænda hvert þeir beindu viðskiptum sínum. Íhalds-(seinna
Sjálf stæðis)menn skiptu við „Jónana“sem svo voru oft nefndir, en
þeir sem hlynntir voru samvinnuhreyfingunni og Framsókn lögðu
inn hjá Kaupfélaginu (það gerði Laxfossheimilið). Ekki kann ég
skil á reglum um tímasetningu slátrunar í Borgarnesi, en þangað var
slátur féð rekið. Áður höfðu líflömbin verið valin og eins þær kindur
sem átti að slátra heima.
Þeir sem ráku sláturféð þurftu að fylgja slátruninni eftir, tæma gor
úr vömbum og halda til haga því sem átti að flytja heim til sláturgerðar:
blóði, innmat, hausum og löppum og einhverju af gærum, þ. e. öllu
sem átti að nýta heima. Líka þurftu þeir að kaupa mjölvöru og annað
sem þurfti til sláturgerðarinnar. Þegar heim kom tók kvenfólkið til
óspilltra málanna við að ganga frá öllu eftir kúnstarinnar reglum og
voru mörg handtökin áður en haustmaturinn var tilbúinn til neyslu og
geymslu í súr, því að frystingar var enn langt að bíða á sveitaheimilum.
Þessi matarforði dugði heimilinu allt árið fram að næstu sláturtíð.
Þegar kom fram á fjórða áratuginn var neytendur í þéttbýlinu farið
að lengja eftir nýju keti fyrr en hefðbundin sláturtíð hófst. Var þá
farið að tíðka sumarslátrun með hærra afurðaverði en að hausti. Þetta
hefur tíðkast allar götur síðan. Féð var þá flutt á bílum og selt „á fæti“
og engar afurðir fluttar heim til bænda. Haustið var mikill annatími
bæði fyrir karla og konur.
Auk sláturgerðarinnar kom að mestu í hlut kvenfólksins að taka
upp úr görðunum.
Allmörgum kindum var alltaf slátrað heima til heimilisnota auk
trippa og afsláttarhrossa.
Ketið var ýmist saltað í tunnur og geymt í köldu húsi eða reykt í
hlóðaeldhúsinu eða reykingakofanum og haft til hátíðabrigða ekki
síst á jólum og öðrum stórhátíðum.
Þarna voru hausar og lappir sviðin og skafin og slátrið stundum
soðið í stórum pottum.