Borgfirðingabók - 01.12.2010, Blaðsíða 140
140 Borgfirðingabók 2010
kostnaði en skilaði ekki arði. Ekki datt nefndin af baki og næsta
ár var leitað til Ingibjargar Einarsdóttur úr Runnum og lánaði hún
nefndinni myndina „Móðurást“, sem máluð var á rekavið. 1985 gaf
Aldís Eiríksdóttir mynd til kortaframleiðslunnar af systkinum við
vetrargluggann heima og að lokum var árið 1986 leitað til Elísabetar
Haraldsdóttur leirlistakonu á Hvanneyri og þá var framleitt kort með
mynd af leirlistaverkinu „Brekkuteigar“. Ekki varð úr frekari útgáfu
jólakorta, enda þótti hún ekki skila nægjanlegum ágóða. Ekki varð
þó tap á fyrirtækinu.
Bókmenntakvöld
Af sama meiði varð til hugmynd að bókmenntakvöldi auk þess sem
það samrýmdist vel hlutverki bókasafnsins. Ákveðið var að heiðra
minningu Guðmundar Böðvarssonar skálds á Kirkjubóli, og halda
ljóðakvöld haustið 1984 þegar hann hefði orðið 80 ára. Það frestaðist
þó fram til 8. febrúar árið eftir. Þar voru lesin ljóð Guð mund ar, sem
Magnús Sigurðsson á Gilsbakka tengdi saman með hug leið ingum
sín um og minningum frá samvistum við nágranna og vin. Lesarar
voru Andrés Jónsson, Ármann Bjarnason, Hrafnhildur Sveins dóttir
og Sigurður Guðmundsson. Þá söng karlakórinn Söng bræður ljóð
Guð mundar, en kórinn var þá í burðarliðnum. Sigurður Guðmunds-
son , sonur skáldsins, stjórnaði kórnum. Einnig söng Kirkjukór Reyk-
holts sókn ar undir stjórn Bjarna Guðráðssonar. Kvöldið þótti takast
hið besta, var vel sótt og eftir sat ánægja þeirra sem að því stóðu auk
nokkurs ágóða fyrir safnið.
Þegar Jónas Árnason gaf út bókina Til söngs 1986 þótti vel við
hæfi að endurtaka sama leikinn og halda Jónasarkvöld. Það var
haldið 14. nóvember. Höfundurinn sjálfur ávarpaði samkomuna,
flutt var leikgerð smásögunnar Tíðindalaust í kirkjugarðinum eftir
Jónas og sungið var lagið Í sal hans hátignar með látbragðsleik. Börn
úr Kleppjárnsreykjaskóla sungu nokkur lög með Huldu Kolbrúnu
Guðjónsdóttur, Söngbræður sungu með stjórnanda sínum, Sigurði
Guðmundssyni, og foreldrafélag Barnaheimilisins í Reykholti seldi
kaffi. Ánægjuleg kvöldstund, sem hlaut góðar viðtökur.
Þó ágóði af þessu umstangi yrði ekki mikill varð það sannarlega
menningarauki í anda þess sem ungmennafélagið og bókasafnið
starfa og ánægja öllum sem að því komu.