Borgfirðingabók - 01.12.2010, Blaðsíða 142
142 Borgfirðingabók 2010
Samningur U.M.F. Reykdæla og Búnaðarfélags Reykdæla
11. febrú ar 1911
Við undirrituð Guðrún Hannesdóttir fyrir hönd U.M.F. Reykdæla og Jón Hannesson fyrir
Búnaðarfélag Reykdæla gerum svofelldan samning:
Búnaðarfélag Reykdæla leggi fram 10 – tíu – kr. í peningum og bókum árlega til innkaupa og
viðhalds á búnaðar- og hagfræðiritum gegn því að U.M.F. Reykdæla leggi fram 5 – fimm – kr.
árlega til kaupa á slíkum bókum.
Félagar í Búnaðarfélagi Reykdæla hafa rétt til að fá lánaðar bækur þessar eftir þeim reglum
sem gilda fyrir bókasafn U.M.F. Reykdæla án nokkurs endurgjalds.
Nöfn beggja félaganna skal rita á bækur þessar og haldi bókavörður sérstaka skrá yfir þær. Að
öðru leyti fer hann með bækur þessar eins og aðrar bækur safnsins.
Samningi þessum má segja upp með eins árs fyrirvara og skal þá bókunum skipt jafnt milli
beggja félaganna. Leysist annað hvort félagið upp skulu allar bækurnar eign þess félagsins
sem lengur lifir.
Þetta kemur til framkvæmda í fyrsta sinni árið 1911.
Deildartungu, 11. febrúar 1911, Guðrún Hannesdóttir, Jón Hannes son.
Samningur um sveitabókasafn 12. janúar 1957
Reykholtsdalshreppur og Ungmennafélag Reykdæla gera með sér svofelldan samning um
sveita bókasafn:
1. gr. U.M.F. Reykdæla tekur að sér rekstur safnsins í samræmi við lög um almenningsbókasöfn.
2. gr. U.M.F. Reykdæla leggur fram bókasafn það, er það á nú, sem stofn sveitabókasafns.
3. gr. Félagið heitir að veita safninu fjárstyrk, jafnháan framlagi hreppsins, enda greiði
sveitasjóður eigi lægri upphæð til þess en kr. 10 á hvern íbúa hreppsins.
4. gr. U.M.F. Reykdæla leggur safninu til húsnæði leigulaust fyrst um sinn, eða þar til annað
húsnæði fæst.
5. gr. Safnið skal vera opið að minnsta kosti einu sinni í viku frá septemberbyrjun til aprílloka,
en einu sinni í mánuði frá maíbyrjun til loka ágústmánaðar.
6. gr. Hvor aðili sem er getur sagt upp samkomulagi þessu með minnst þriggja mánaða
fyrirvara, og miðast uppsögn við áramót.
7. gr. Stofn bókasafnsins, er U.M.F. Reykdæla leggur til, verður áfram eign félagsins, þótt það
hætti starfrækslu sveitabókasafnsins, nema öðruvísi um semjist.
Reykholti 12. janúar 1957
Vegna Reykholtsdalshrepps: Ingimundur Ásgeirsson, Anna Bjarnadóttir, Magnús Bjarnason
Vegna U.M.F. Reykdæla: Guðráður Davíðsson, Sigm. Einarsson