Borgfirðingabók - 01.12.2010, Blaðsíða 64
64 Borgfirðingabók 2010
Sunnan við Kalmanstungu rennur önnur á, heldur ekki mjög stór en þó
illur farartálmi, er nefnist Hvítá. Hún er stundum hrein en oft mórauð
af jökulleðju. Hún kemur úr Geitlandi og frá Eiríksjökli. Loks er syðst
Geitá. Hún er alltaf kolmórauð og ljót, hún er og mesta vatnsfallið af
þessum þremur uppistöðuám Hvítár. Hún kemur mest af Kaldadal, en
til hans falla aurar Langjökuls auk ýmissa viðbóta annarsstaðar að. úr
skriðjökli Langjökuls og vegna bráðnunar hans fær fyrst og fremst Geitá
og svo síðar Hvítá sinn viðvarandi jökullit. Þær Geitá og Hvítá falla
saman á svonefndu Svelti rétt neðan við Kalmanstungu og heita síðan
einu nafni Hvítá, en nokkru neðar, neðan við Kalmanstunguland, eins og
það nú er, kemur svo Norðlingafljót til viðbótar, og þegar þar er komið
er þetta orðið mikið vatnsfall, jafnvel á hvaða tíma árs sem er.
Til að byrja með má heita að Hvítá falli frá austri til vesturs, niður
Hvítársíðu, en neðan við Síðumúla breytir hún um stefnu og fellur
eftir það nokkurnveginn rétt til suðvesturs. Hvítá, þrátt fyrir alla sína
galla, hefir og verið til ýmsra hluta nytsamleg. Hún var ekki alllítil
samgönguleið meðan allt var vega- og brúarlaust.
Á söguöld komu sjófarendur oft hafskipum sínum í Hvítá. Er þá
helst talað um að skipunum var lagt í Gufuá og einnig að Hvítár-
völlum til vetrargeymslu. Þangað fluttu farmenn varning sinn og
versluðu þar. Sótt var þangað um langa vegu, jafnvel og ekki óalgengt
úr Húnaþingi, hvað þá af Vesturlandi og víðar að. Örnefni eru enn á
Hvítárvöllum sem geta minnt á þetta, svo sem Skipholt og fleira.
Má ætla að Hvítárvellir séu jafnvel elsti verslunarstaður í héraðinu.
Þannig hefir það verið um allar aldir sem Íslendingar áttu sjálfir skip
að öðru hvoru var þeim stýrt til hlunns í Hvítá. Í öðru lagi var flutt
eftir Hvítá innanhéraðsflutingar, að Hvanneyri, að Hvítárvöllum, að
Þingnesi og jafnvel lengra. Minna má á það sem sagt er frá í þættinum
um brýrnar að brúarviður í Kláffossbrú var fluttur eftir Hvítá alla
leið að Kláffossi.(Borgfirðingabók 2009 bls.130) Einhverjir síðustu
stórflutningarnir um Hvítá voru er Norðurárbrúin var byggð 1910. Þá
var mikil þungavara flutt eftir Hvítá og svo Norðurá alla leið upp á
Haugahyl, bæði járn í brúna, sement í stöplana og fleira.
Erfiðir og annmarkasamir hafa þessir flutningar oft verið, en um
annnað var ekki að ræða og svo má illu venjast að gott þyki. Sjálfsagt
hefir þessi skipaleið verið betri í gamla daga heldur en nú væri. Ráða
má það af þeim mikla framburði sem við þekkjum. Því talið er að
sandlagið í firðinum fram af Borgarnesi hækki um tvo sentimetra
á ári að meðaltali. Þótt tveir sentimetrar sé lítil uppfylling á ári, þá