Bændablaðið - 06.10.2022, Síða 36

Bændablaðið - 06.10.2022, Síða 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. október 2022 Gísli Ásgeirsson, framkvæmda- stjóri The Six Rivers Project á Íslandi, hefur í nógu að snúast allan ársins hring við að vinna að markmiðum félagsins við verndun á villtum stofnum Atlantshafslaxins. Félagið, sem er í eigu Sir Jim Ratcliffe, á í dag flestar af jarðareignum veiðiklúbbsins Strengs og þar með veiðisvæði í kringum fimm laxveiðiár á norðausturhorni landsins. Nýjasta verkefni félagsins snýr að viðamikilli skógrækt, í samstarfi við Skógræktina á Egilsstöðum, þar sem markmiðið er að planta hundrað þúsund trjám á ári næstu fimm árin. The Six Rivers Project er nú í samvinnu við sveitarfélagið í Vopnafirði að fjárfesta og koma af stað verkefni sem felst í skógrækt og annarri gróðurrækt til að koma í veg fyrir frekari gróður- og jarðvegseyðingu. „Afleidd verkefni af verndunarstarfinu eru ýmis, sem dæmi má nefna er aukin skógrækt. Skógræktin var efld í kjölfar rannsókna á okkar vegum sem leiddu í ljós að fæðuskortur í lífríkinu gæti verið orsakavaldur í laxafækkun. Endurheimt gróðurfars og trjárækt er mikilvægt starf sem eykur jarðgæði á svæðum gróðureyðingar og auðgar lífríki svæðisins. Vonir standa til þess að með því megi bæta til langframa fæðisöflun unglaxa í ánum,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri The Six Rivers Project á Íslandi. Áhersla á plöntun innlendra tegunda Samningur við skógræktina er í bígerð en heimild verður til að planta 100 þúsund plöntum á ári næstu fimm árin. Skógræktin á Egilsstöðum sér um plöntukaup og framkvæmd verkefnisins. „Við höfum farið út í heilmikla skógrækt síðastliðin þrjú ár og nú verður framhald á því. Nú þegar er búið að planta hátt í 40 þúsund trjám við læki og ár sem liggja við stóru árnar. Við notum eingöngu íslenskar plöntur í þetta verkefni og er þetta mest birkitré og gul- og loðvíðir ásamt ilmreyni. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með elri, sem er strangt tiltekið ekki innlend tegund, en hefur fundist sem steingervingur og því aldrei að vita nema að hún gæti þrifist hér þrátt fyrir allt. Áherslan er á plöntun innlendra tegunda, en nokkrar erlendar tegundir eru enn fremur til athugunar,“ segir Sveinn Björnsson, staðarhaldari í Selá og umsjónarmaður skógræktarverkefnisins. „Langtíma- ætlunin er að auka næringarframleiðslu áa á svæðinu, bæta þannig lífsskilyrði laxfiska í ánum. Eitt er að uppgræða landið en þá eykst næring í ánum og það verður til meiri flóra fyrir frumlífverur og skordýr sem allt annað líf byggist ofan á. Það hefur verið takmarkað af fæðu og í raun dauðhreinsað umhverfið í kringum árnar. Það hefur vantað fæðu í árnar fyrir seiðin og tré draga að sér fugla og skordýr svo þetta er einn liður í áætlun verkefnisins, að bæta lífríkið í kringum árnar.“ Sjálfbærni er lykilorðið í starfseminni Árið 2017 komst á samkomulag meðal jarðeigenda á norðausturhorni landsins að Sir Jim Ratcliffe keypti upp flestar af jarðareignum veiðifélagsins Strengs. Hann stofnsetti í framhaldi af því félagið The Six Rivers Project til þess að efla verndunarstarfið á þessum slóðum. Verndunarstarf hefur verið haft að leiðarljósi allt frá stofnun Strengs, þá aðallega með blöndu af verndarstarfsemi og ábyrgum veiðireglum. „Framtíð Atlantshafslaxins er afar ótrygg. Honum hefur víðast hvar fækkað geigvænlega. Í Norður- Ameríku og Suður-Kanada er hann er svo gott sem útdauður og er hann aldauða í Hollandi, Belgíu og Þýskalandi. Ísland er eitt fárra landa þar sem enn má finna góðar laxveiðiár. The Six Rivers Project var ekki stofnsett til gróða, heldur til að leita leiða til að snúa við þeirri ógnvænlegu þróun sem hefur orðið. Allar tekjur af rekstri okkar í laxveiðiánum sex renna til rannsókna til að stemma stigu við fækkun Atlantshafslaxins. Að okkar mati bjóðum við upp á einhverja þá bestu laxveiði sem í boði er, en sjálfbærni er lykilorðið og við förum varlega með auðlindina,“ útskýrir Gísli. Minnka álag á stofnana með ýmsu móti Öll hugmyndafræði verkefnisins snýr sem áður sagði að náttúruvernd en Gísli leggur áherslu á að þó að félagið selji veiðileyfi og þjónustu þá renni allur ágóði af því til hinna ýmsu hliðarverkefna sem snúa að verndun náttúrunnar og lífríkisins. „Við erum að minnka álagið á veiðina með ýmsu móti eins og að stytta veiðitíma ásamt því að takmarka agn og fiska sem má nota. Tímabilin eru styttri en víða þekkist og það er öllu sleppt sem veiðist. Við byggjum laxastiga til að hleypa löxunum inn á svæði sem voru þeim áður lokuð og við merkjum fiskana til að fylgjast með þeim. Við minnkum álag á stofnana með færri stöngum en við erum þau einu á Íslandi sem erum með þessar reglur,“ segir Sveinn og bætir við: „Við fylgjumst með fiskunum allt árið, fram að hrygningu, undir hrygningunni og eftir ásamt því þegar fiskurinn fer til sjávar. Þetta er fimm ára verkefni sem við erum í með þennan eftirlitsþátt. Einn hluti af heildarverkefninu er að byggja góð og þægileg veiðihús en núna er fyrirhugað að byggja þrjú til viðbótar við Hafralónsá, Hofsá og Miðfjarðará í Bakkafirði.“ Af gagnrýni og pólitík Reglulega hafa komið upp í fjölmiðlum ýmsar gagnrýnisraddir við kaupum Sir Jim Ratcliffe á jörðum á norðausturhorni landsins og segir Gísli að þau hafi ekki farið varhluta af því. Þó séu viðbrögðin öllu jákvæðari þegar fólk fræðist um tilgang og markmið The Six Rivers Project. „Sumt af gagnrýnisröddunum á sér engar stoðir í raunveruleikanum, það er til dæmis pólitísk ákvörðun hvernig eignarhaldi á jörðum er háttað. Flestar þær jarðir sem Ratcliffe hefur keypt hér voru ekki lengur í ábúð. Aðrar hefur hann leigt áfram til að tryggja að þær haldist í ábúð. Það snýr að pólitískum ákvörðunum af hverju jarðir fara úr ábúð og af hverju ekki sé lengur grundvöllur fyrir því að stunda landbúnað þar. Sumir vilja að jarðirnar séu í byggð með einum eða öðrum hætti og ef það væri nógu gott upp úr því að hafa að stunda landbúnað á þessum jörðum þá væri það vafalaust gert. Það er umhugsunarvert í öllu þessu samhengi af hverju aðilar sem framleiða matvæli fyrir okkur geta ekki lifað af því. Við reiknuðum það út að því stærra sauðfjárbú sem þú værir með því stærra tap, svo það er augljóslega skekkja í þessu kerfi sem verður að breyta,“ útskýrir Gísli og segir jafnframt: „Á Íslandi eru mjög skýr lög um hvernig veiðifélög eru rekin. Hlutverk veiðifélaga er að tryggja og viðhalda viðurværi lífvera og þau fara með rekstur veiðiáa sem þeim tilheyra. Félagar í veiðifélögum eru í flestum tilfellum margir og þeir eiga það sammerkt að eiga jarðir sem liggja að ánum. Jim Ratcliffe á jarðir við árnar fimm þar sem starfsemi Six Rivers Project fer fram og hann hefur hagsmuna að gæta að lífríkið sé í lagi á þessum stöðum. Allar aðgerðir og áætlanir verkefnisins eru gerðar í góðu samstarfi og samráði við land- eigendur og þar af leiðandi hina félagana í veiðifélögunum. Undanfarna áratugi er búið að eyða út 70-80 prósentum af stofninum með ofveiði, mengun, landbúnaði og fleiri þáttum. Honum finnst mjög mikilvægt að snúa þessari þróun við og að því vinnum við alla daga með verkefnið. Við erum stolt af okkar árangri hér og erum brött með þær áætlanir sem við ætlum að framfylgja.“ LÍF&STARF Skógrækt við laxveiðiár: Planta hálfri milljón trjáa næstu fimm árin Skilar sér í betri lífsskilyrðum fyrir seiði í ánni Árið 2019 var ákveðið að hefja verkefni sem sneri að því að styrkja gróður á bökkum og í nágrenni Selár. Markmiðið með þessu er að efla allt lífríkið við og í ánni. Vonast er eftir því að með tíð og tíma muni þessi aðgerð skila sér í betri lífsskilyrðum fyrir seiði í ánni. Áætlað er að á næstu árum verði plantað 25-30.000 plöntum árlega við ána. „Fyrsta sumarið var notað í rannsókn á svæðinu og gerð áætlun um mögulega framvindu málsins. Einnig var plantað lítils háttar, einkum til að fá smá yfirlit yfir lifun plantna á hinum ýmsu svæðum. Eingöngu voru notaðar plöntur af íslenskum uppruna. Alls var plantað um 10.000 trjám. Árið eftir hófst síðan plöntun af nokkrum krafti. Var þá plantað rúmlega 10.000 trjám. Jafnframt var girt allstórt svæði,“ segir Björn Halldórsson, bóndi í Engihlíð. Árið 2021 var einnig plantað rúmlega 10.000 trjám. Hluta þeirra var valið framtíðarheimili ansi langt inni í landi og í yfir 500 metra hæð yfir sjó. „Í sumar var gerður samningur við Skógræktina um að sjá um plöntun og fleiri tengd verkefni. Það er líklegt að það auki allan stöðugleika í kringum verkefnið. Alls var í ár plantað rúmlega 21.000 plöntum og stungið niður 1.500 gulvíðistiklingum. Ekki er fyrirhugað að fara í meiri háttar girðingaframkvæmdir þar sem fyrir liggur að mjög fátt sauðfé er á svæðinu og fer því fækkandi. Líklegast er að nýgróðursetningu stafi mest hætta af hreindýrum og gæsum,“ útskýrir Björn. Nú þegar er búið að planta hátt í 40 þúsund trjám við læki og ár sem liggja við stóru árnar. Hér má sjá Selá. Erla Hjördís Gunnarsdóttir ehg@bondi.is Sveinn Björnsson, staðarhaldari í Selá við Vopnafjörð, og Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri The Six Rivers Project á Íslandi, segjast stoltir af þeim árangri sem náðst hefur með verkefninu og að allir leggist á eitt með þær áætlanir sem í bígerð eru. Sir Jim Ratcliffe á jarðir að fimm laxveiðiám á Norðausturlandi. Markmið hans er, að sögn Gísla, að vernda stofn Atlantshafslaxins sem hefur minnkað geigvænlega.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.