Faxi - 2022, Side 2
2 FAXI
Útgefandi: Málfundafélagið Faxi, Keflavík
Ritstjóri: Svanhildur Eiríksdóttir, sími 894 5605,
netfang: svei@simnet.is
Blaðamaður: Dagný Maggýjar
Blaðstjórn: Eysteinn Eyjólfsson formaður,
Jóhann Friðrik Friðriksson, Ríkharður Ibsen,
Kristinn Óskarsson, Hannes Einarsson,
Kristján Jóhannsson, Guðmundur Ingvar Jónsson
Öll prentvinnsla: Stapaprent ehf.
Vesturbraut 8, 230 Reykjanesbær
sími 421 4388, netfang: stapaprent@stapaprent.is
Netfang vegna auglýsinga: eysteinne@gmail.com
Auglýsingasími: 698 1404
Forsíðumynd: Sossa
Ljósmyndun verks: Oddgeir Karlsson
1 . t ö l u b l a ð - 8 2 . á r g a n g u r - 2 0 2 2
A l l i r m y n d a t e x t a r í þ e s s u o g ö ð r u m h e f t u m Fa x a
e r u b l a ð s i n s n e m a a n n a ð s é t e k i ð f r a m .
Það varð ákveðinn viðsnúningur í bæjarstjórn-
um á Suðurnesjum eftir sveitarstjórnarkosn-
ingarnar sl. vor þegar konur urðu fleiri í bæjar-
stjórnum en karlar. Það hefur ekki gerst áður í
sögunni og verður því að teljast til tíðinda, eða
hvað? Faxi hlerar nokkra bæjarfulltrúa með
það og við lítum yfir niðurstöður kosninga.
Félag eldri borgara fagnaði 30 ára afmæli
á síðasta ári og Jón Sæmundsson rifjar upp
aðdragandann að stofnun félagsins. Það er
áhugavert að lesa þá grein, sérstaklega um það
hversu miklu máli skiptir að einstaklingar drífi
slíka vinnu áfram. Það gerði Guðrún Sigur-
bergsdóttir heitin, Gunna skó svo sannarlega,
eins og lesa má í greininni.
Aðalviðtal Faxa í ár átti Kristján Jóhannsson
við séra Fritz Má Jörgenson prest í Keflavíkur-
kirkju. Fritz segir skemmtilega frá margháttar reynslu sem hann
býr yfir, fjölbreyttu og viðamiklu námi sínu að ekki sé talað um
spennusagnagerðina, sem hann hefur yndi af í hjáverkum.
Umræða um flóttamenn hefur verið nokkuð neikvæð á árinu. Faxi
ákvað að taka jákvæðu sýnina á málaflokk-
inn og Guðmundur Ingvar Jónsson mál-
stjóri alþjóðlegrar verndar og samræmdrar
móttöku flóttafólks hjá Reykjanesbæ fer
lítillega yfir málaflokkinn. Hann á einnig
samtal við fimm einstaklinga sem hafa
komið sér vel fyrir á Íslandi og vilja hvergi
annarsstaðar vera.
Í Hér og nú rifjar Hilmar Bragi Bárðarson
upp ævintýri undanfarinna daga og vikna
þar sem Reykjanesbær fékk á sig Hollywood
brag sem hluti leikmyndar í þekktum
spennusagnaþáttum. Aldeilis skemmtilegt
uppábrot á hversdagsleikanum þar.
Í endurliti til fortíðar rifjar Una Steinsdótt-
ir upp viðburðarík framhaldsskólaár í FS
og Ríkharður Ibsen rifjar upp sögu jólanna.
Dagný Maggýjar skrifar mjög áhugaverða
grein um stærstu útför Íslandssögunnar
sem var gerð frá Útskálakirkju í mars 1685
eftir mikinn sjóskaða. Hún fjallar einnig
um vitasýningu sem sett hefur verið upp
við Reykjanesvita, fyrsta vita sem byggður
var á landinu, sjófarendum til bjargar.
Fjórða og síðasta bindi Sögu Keflavíkur kom
út nýverið. Bókin spannar árin 1949 til 1994
og þar með er saga Keflavíkur sem sérstaks
sveitarfélags sögð. Kristinn Þór Jakobsson fer
yfir vinnu við ritunina, auk þess sem Saga
húsanna, um Myllubakkaskóla, er að miklu
leyti unnin upp úr bókinni.
Frændsystkinin Ingvar Eyfjörð og Rósa Ingvars-
dóttir eru sannarlega stórhuga. Þau eru í
forsvari fyrir fjárfestingarfélagið Aðaltorg
sem er að byggja upp verslunar- og þjónustu-
kjarna á mótum Aðalgötu og Reykjanesbæjar.
Fasar uppbyggingaráformanna eru fimm, þau
eru nú stödd í þeim þriðja og við förum yfir
áformin með þeim.
Djassinn hefur dunað í Suðurnesjabæ á
undanförnum árum og Faxi leit inn á tónleika ásamt því að eiga
spjall við Halldór Lárusson stofnanda Jazzfjelags Suðurnesjabæjar.
Jóhanna Birna Falsdóttir á í fórum sínum athyglisverðan skírnar-
kjól sem hún saumaði í húsmæðraskóla fyrir hartnær 60 árum
og er enn í fullri notkun. Síðastliðið sumar
saumaði hún upphafsstafi fyrsta langömmu-
barnsins í kjólinn, sem var fertugasta
barnið til að vera skírt í kjólnum.
Forsíðumynd Faxa í ár kemur úr smiðju
myndlistarkonunnar Sossu. Það er hluti af
jólaundirbúningi margra hér á Suðurnesj-
um að fara í jólaboð hjá Sossu, en slík
hefur hún haldið í áraraðir. Forsíðuverkið
heitir Bókaflóð og á sannarlega vel við
í aðdraganda jóla. Það á einnig við um
eftirfarandi ljóðverk, Ósk að morgni, eftir
Sossu og Anton Helga Jónsson sem sýnt var í
jólaboðinu og fangar vel tíðarandann.
Vegna umhverfissjónarmiða er Faxa ekki
lengur dreift í hús, heldur mun hann liggja
frammi á völdum stöðum í sveitarfélögun-
um á Suðurnesjum.
Ég óska lesendum árs og friðar.
Svanhildur Eiríksdóttir
Ritstjóraspjall