Faxi

Årgang

Faxi - 2022, Side 22

Faxi - 2022, Side 22
22 FAXI Morguninn er kaldur og frostið bítur í kinnar gesta sem hafa tekið niður höfuðföt sín í virðingarskyni. En þeir sem eru mættir til kirkjusetursins á Útskálum þennan dag láta það ekki á sig fá. Hugurinn er dofinn og sýnin sem við blasir reynir á skilningarvitin. Grafir hafa verið teknar í almenningnum bak við kór kirkjunnar. Í tveimur þeirra eru kistur, sú þriðja er stór og liggja þar í sjóklæðum sínum drukknaðir sjómenn, hlið við hlið, svo margir að erfitt er að telja. Þegar kirkjuklukkurnar þagna ræskir presturinn sig og rífur þögnina. Hann signir sig og gestirnir fylgja fordæmi hans „Náð sé með yður og friður frá Guði föð- ur vorum og Drottni Jesú Kristi, amen.” Það er erfitt að setja sig í þessar aðstæður og þennan tíma þar sem ótrúlega margir biðu lægri hlut í baráttunni við Rán og dætur hafsins. Fórnin var ekki eingöngu þeirra sem drukknuðu heldur voru oft hoggin stór skörð í lítil samfélög þegar skip og bátar fórust og margir lentu á vonarvöl. Frásagnir fyrri tíma af sjósókn eru fáar og stuttorðar og styðjast að mestu við annála en þeim ber ekki saman að öllu leyti. Hér verður atburðarásin rakin eins og hægt er. Suðurnesin voru á þessum tíma stærsta verstöð landsins og þangað flykktust bændur og vinnumenn úr öllum landshlutum á vetr- arvertíð. Á Íslandi voru þrjár vertíðir; sum- arvertíð, haustvertíð og svo vetrarvertíð sem hófst yfirleitt í byrjun febrúar og stóð fram á vor. Vetrarvertíð var gríðarlega mikilvæg fyrir bændasamfélagið en þá var minni þörf fyrir vinnuframlag í sveitunum og fiskurinn góð búbót. Flestir þeirra sem fóru í ver voru ungir að árum og lögðu þeir af stað fótgang- andi á vertíðina um miðjan janúar. Þetta voru löng ferðalög en ferðin gat tekið nokkra daga og allra veðra von. Enda urðu sumir úti á leiðinni, aðrir sneru aldrei aftur heim. Konungsútgerð á Stafnesi Talið er að um 300 manns hafi dreift sér á milli verstöðva á Suðurnesjum þegar mest lét en stærsta útstöðin var á Stafnesi. Þar hafði danska konungsútgerðin aðalbækistöð sína enda stutt á miðin og var veiðistöðin talin besta vetrarverstöðin á landinu öllu. Auk konungsskipa réru þaðan skip frá kirkjunni og bændum á svæðinu. Útvegsjarðir voru eftirsóttar og voru flestar í eigu konungs og kirkjunnar. Átti konungur því sem heita mátti allan Garð- skaga þar sem nú er Garður, Leira, Stafnes, Sandgerði og Keflavík. Útskálar voru eitt helsta höfuðból Suðurnesja og ekki er talið ólíklegt að þar hafi verið kirkja frá því snemma í kristni. Lá til staðarins fjöldi hjáleiga en á þessum tíma náði sóknin yfir norðanvert Miðnes og Keflavík og heyrði hún undir Skálholts- biskup. Konungsbændum og hjáleigum kirkj- unnar bar skylda að róa eða lána menn til útgerðarinnar og þóttu þeir illa leiknir þar sem bátunum fjölgaði stöðugt og erfitt að standa undir kvöðunum. Það bætti ekki úr skák að verslunareinokun Dana hafði verulega dregið úr hagnaði sjósóknar og þurftu landsmenn að selja fisk langt undir markaðsverði. Var efnahagur manna því bágborinn. Það hefur því ekki verið öfundsvert hlutverk að róa opnum árabát á fiskimið um miðjan vetur og aðbúnaðurinn verður að teljast frumstæður á okkar tíma mæli- kvarða. Vermenn höfðu allir sjóklæði en þau voru misjöfn að gæðum og jafnvel lítið held hjá sumum. Þau voru gerð úr sauðskinni nema botninn og skór sem voru úr nautshúð. Sjóstakkurinn náði niður á mið læri og brókin upp undir hendur. Bux- urnar voru festar með snæri og það notað líkt og belti. Þá voru menn með svokallað klofband svo hægt væri að ná taki á þeim ef þeir duttu í lendingu. Nauðsynlegt var að binda snæri þétt utan um skinnklæðin til þess að brækurnar fylltust ekki af sjó þegar þannig stóð á. Af sjóvettlingum sem voru úr ull og með tveimur þumlum þurfti þrjú til sex pör yfir vertíðina en einnig þurftu vermenn að hafa með sér á skip öngul, línu, vaðstein, byrðaról og fiskihníf. Að síðustu má ekki gleyma sjóhattinum. Veðráttan við Íslandsstrendur er svo duttlungafull að hún getur á svipstundu breytt spegilsléttum haffletinum í ólgangi hafrót. Þá er voðinn vís. Skyndilegt áhlaupsveður Sú var raunin þennan örlagaríka mánudag 1685 þegar skyndilega gerði stórkostlegt áhlaupsveður. Vísast hefur verið gott veður að morgni og suðvestanveður skyndilega brostið á. Mörg dæmi eru um slík óveður, jafnvel með mannsköðum suðvestanlands einmitt á þessum árstíma. Þennan dag lögðu átta skip frá Stafnesi til veiða, þrír teinæringar og fjórir áttæringar. Á Stafnesskipunum var verfólk af Norður- landi, 70 menn að tölu, að langmestu leyti einvalalið að því er sagt er; Norðlendingar, Stærsta útför Íslandssögunnar: Fjöldagröf á Útskálum Miðvikudaginn 11. mars árið 1685 fór fram útför frá Útskálakirkju sem er einstæð í Íslandssögunni. Þar voru færðir til grafar 44 sjómenn sem farist höfðu í mesta mann- skaðaveðri sem riðið hafði yfir landið. Aldrei hafa fleiri verið jarðsungnir á einum degi samkvæmt heimildum.

x

Faxi

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.