Faxi - 2022, Side 6
6 FAXI
Málfundafélagið Faxi stóð fyrir opn-
um málfundi í Stapa mánudaginn
2. maí með fulltrúum framboða til
bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í sveitar-
stjórnarkosningunum 2022. Þetta var í
annað sinn í röð sem Faxi gengst fyrir
framboðsfundi fyrir sveitarstjórnarkosn-
ingar.
Markmið fundarins var að efla og opna
lýðræðislega umræðu, gefa framboðum
vettvang og tækifæri til að koma sínum
sjónarmiðum á framfæri, kynna sig og
stefnumál sín bæjarbúum.
Málfundurinn var fjölsóttur og lífleg-
ur og haldinn sem fyrr í samstarfi við
Reykjanesbæ og Víkurfréttir sem sendu
hann út í beinni útsendingu á Facebook-
síðu sinni. Fundarstjóri var Kristinn
Óskarsson og tímavörður var Guðmundur
Ingvar Jónsson.
Fyrirkomulag fundarins var þannig að
hvert framboð fékk 3 mínútur til þess að
flytja framsögu. Því næst fékk hver fulltrúi
framboðs í pallborði runu af spurningum
frá fundarstjóra sem svara þurfti með já-i
eða nei-i. Þá tóku við stuttar spurningar
frá fundarstjóra til framboðanna út frá
stefnu þeirra og í framhaldinu gátu fulltrú-
ar framboðanna í pallborði skotið spurn-
ingum á hvorn annan. Fundinum lauk svo
á lokaorðum frambjóðenda.
Fulltrúar framboðanna á fundinum:
Framsóknarflokkur: Bjarni Páll Tryggva-
son framsaga og Halldóra Fríða Þorvalds-
dóttir lokaorð.
Sjálfstæðisflokkur: Margrét Sanders
Miðflokkur: Eggert Sigurbergsson
Píratar og óháðir: Margrét Þórólfsdóttir
Samfylkingin og óháðir: Guðný Birna
Guðmundsdóttir framsaga, Friðjón
Einarsson pallborð og Sverrir Bergmann
Magnússon lokaorð.
Umbót: Margrét Þórarinsdóttir
Bein leið: Valgerður Pálsdóttir framsaga
og Helga María Finnbjörnsdóttir lokaorð.
Sveitarstjórnarkosningarnar
á Suðurnesjum 2022
Reykjanesbær
Annað kjörtímabilið í röð varð mikil endur-
nýjun í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, sex
bæjarfulltrúar af ellefu tóku sæti í fyrsta sinn
að loknum kosningunum nú. Sjö konur eru
bæjarfulltrúar og fjórir karlar.
Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokk-
urinn og Samfylkingin og óháðir fengu þrjá
bæjarfulltrúa hver – Framsókn bætti við sig
bæjarfulltrúa frá síðustu kosningum. Bein
leið og Umbót, nýtt framboð, fengu einn
fulltrúa hvor. Miðflokkurinn og Píratar náðu
ekki inn manni.
Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og
Bein leið mynda áfram saman meirihluta í
bæjarstjórn Reykjanesbæjar og Kjartan Már
Kjartansson er áfram bæjarstjóri.
Suðurnesjabær
Í Suðurnesjabæ bætti Framsóknarflokkurinn
við sig einum fulltrúa, fékk tvo. Sjálfstæðis-
flokkurinn og óháðir fengu þrjá bæjarfull-
trúa og Samfylkingin og óháðir og O-listi
Bæjarlistans tvo fulltrúa hvort framboð.
Fimm konur voru kosnar bæjarfulltrúar og
fjórir karlar.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn og
óháðir mynduðu meirihluta að loknum
kosningum og Magnús Stefánsson er áfram
bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.
Grindavík
Í Grindavík fékk Miðflokkurinn þrjá bæjar-
fulltrúa kjörna og bætti við sig tveimur full-
trúum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 2 fulltrúa,
Framsóknarflokkurinn og U-listi Raddar
unga fólksins einn hvor. Samfylkingin og
óháðir náðu ekki inn manni.
Fimm konur náðu kjöri sem bæjarfull-
trúar og tveir karlar í Grindavík. U-listinn
bættist við meirihluta Sjálfstæðisflokks og
Framsóknarflokks og Fannar Jónsson er
áfram bæjarstjóri.
Vogar
Sömu þrír framboðslistar voru boðnir fram
í sveitarfélaginu Vogum og í undanförn-
um bæjarstjórnarkosningum. E-listi hlaut
3 bæjarfulltrúa, tapaði einum og þar með
meirihlutanum. D-listi Sjálfstæðismanna og
óháðra hlaut 3 og bætti við sig einum, L-listi
fólksins hélt sínum fulltrúa og vantaði aðeins
5 atkvæði til að fella þriðja mann E-listans.
Fimm karlar skipa bæjarstjórn sveitarfé-
lagsins Voga og tvær konur. D-listi og E-listi
eru í meirihlutasamstarfi og Gunnar Axel
Axelsson var ráðinn bæjarstjóri.
Framboðsfundur málfundafélagsins Faxa
Karlar Konur