Faxi - 2022, Side 27
FAXI 27
við vitann sjálfan. Það hús var reyndar reist
upphaflega árið 1938 sem radíóviti en hefur
einnig gegnt ýmsum hlutverkum síðan, m.a.
hýst rafgeyma og ljósavélar fyrir vitann og
einnig ýmsan búnað til veðurathugana því
Reykjanesviti var og er ein af veðurstöðvum
Veðurstofunnar og vitavörður sá um það
á sínum tíma að lesa af mælum og senda
upplýsingar þangað.
Sýningin er í gamla vélasal vitans og var
hún sett upp í samstarfi við Byggðasafn
Reykjanesbæjar. Í raun má segja að þessi
sýning sé fyrsta skrefið í áttina að því að
koma upp varanlegri fastasýningu um sögu
vitans og sjóslysa við Ísland í heild, því þótt
í byrjun hafi verið einblínt á sögu sjóslysa
við Reykjanes er ljóst að áhugi er fyrir því
að segja heildarsögu sjóslysa á landinu öllu
á þessari sýningu. Enda er þetta gríðarlega
stór og mikilvæg saga sem okkur ber skylda
til að halda á lofti og minnast allra þeirra
sem fórnuðu lífi sínu á hafinu við að draga
björg í bú.”
Sýningin opnaði á síðasta ári en er nú
lokuð yfir dimmustu vetrarmánuðina enda
aðstæður enn frumstæðar í húsinu og frýs
í leiðslum þótt húsið sjálft sé upphitað. Það
stendur til bóta og nú standa yfir fram-
kvæmdir við það sem kalla mætti bráða-
birgða þjónustu- og upplýsingamiðstöð í
gamla íbúðarhúsi vitavarðar sem ráðgert er
að opna snemma næsta vor.
„Sýningin verður síðan opin á opnunar-
tíma þjónustumiðstöðvar, sem væntanlega
verður alla daga vikunnar. Síðan gerum við
ráð fyrir að stækka sýninguna enn frekar
á næstu árum. Þá eru Hollvinasamtökin
í viðræðum við Vegagerðina um þann
möguleika að hægt verði að hleypa gestum
inn í vitann sjálfan.“
Á hvað lagðir þú áherslu sem verkefnastjóri
þegar þú varst að velja efni á sýningunna?
„Rýmið sem ég hafði úr að moða er auðvit-
að takmarkað enda vélarhúsið ekki nema
rétt rúmir 40 fermetrar að grunnfleti og af
því plássi fer nokkuð undir salerni og síðan
verður ljósavél fyrir vitann að standa þar vel
varin. Það lá fyrir að við værum aldrei að
fara að segja söguna alla en ég vildi leggja
áherslu á og koma því til skila hvað þetta
er stór og mikilvæg saga. Það er gert með
frekar einföldum en áhrifaríkum hætti, sem
reyndar liggur meiri vinna á bak við en
sýningargestir kannski átta sig á. Áhrifarík-
asta innsetningin er án efa nöfn allra þeirra
Íslendinga sem drukknuðu á sjó á síðustu
öld.”
Framsetning nafnanna er sláandi en að
sögn Eiríks vekur hún áhuga og skilning á
þessari mikilvægu sögu.
„Sem er reyndar hetjusaga einnig og því
er ætlunin í framhaldinu að draga betur
fram magnaðar sögu af björgunum þegar
sjóslys hafa orðið.“
Hverju breyttu vitarnir og þá sérstaklega
Reykjanesviti fyrir sjóslys á Suðurnesjum?
„Það má segja að bygging vita hafi verið
það fyrsta sem gert var hér á landi í þeim
tilgangi að draga úr sjóslysum. Það er erfitt
að meta gildi þeirra til fulls því við vitum
ekki hvað hefði gerst án þeirra, en það ligg-
ur ljóst fyrir engu að síður að vitarnir hafa
skipt gríðarlega miklu máli fyrir sjófarend-
ur. Á sjóslysakorti á sýningunni gefur að
líta yfirlit yfir strönd og sjóskaða umhverfis
Reykjanestána. Flest ströndin voru t.d. við
Stafnes, Garðskaga og Keflavík en þar voru
einmitt byggðir vitar til að forða frekari
sjóslysum. Strönd hér við Reykjanesið
voru líka sérlega hættuleg vegna þess hve
ströndin er víðast hvar erfið viðureignar.
Reykjanesviti var fyrsti vitinn sem byggð-
ur var á Íslandi og má segja að tilkoma hans
hafi ekki aðeins aukið öryggi sjófarenda
heldur var bygging hans afar mikilvæg
í þeirri uppbyggingu sem var í íslensku
samfélagi á síðari hluta 19. aldar. Þá var
þéttbýlismyndun í fullum gangi og ekki síst
við Faxaflóa. Kaupmannastéttin fór vaxandi
og sífellt fleiri voru búsettir í kaupstöðum
allt árið um kring. Um aldir höfðu engar
siglingar verið til landsins yfir vetrar-
mánuðina, kaupskip komu snemma á vorin
og siglu aftur út á haustin.
Þegar kom fram yfir 1850 var orðin mikil
þörf á því að skip gætu siglt hingað allt árið,
enda sættu kaupmenn og íbúar landsins sig
illa við að fá aðeins vörur yfir sumartímann.
En forsendan fyrir því að menn legðu í sigl-
ingar til landsins yfir dimmustu mánuðina
var að reistur yrði viti og þá kom enginn
annar staður til greina en yst á Reykjanes-
inu enda voru flest kaupskipin á leið inn
á Faxaflóa til Keflavíkur, Hafnarfjarðar og
Reykjavíkur.
Tryggingafélögin settu það sem skilyrði
fyrir því að tryggja skipin á vetrarsigling-
um að hér væri viti til að lýsa mönnum
leiðina þegar að landinu var komið. Bygging
Reykjanesvita á Valahnúk árið 1878 mark-
aði því tímamót í siglingsögu landsins.“
Fiskimið á Suðurnesjum voru afar gjöful
og sóttu þau sjómenn frá öllum landshlut-
um þegar minna var að gera í bústörfum og
voru þá í verum. Skiptu þeir hundruðum á
vetrarvertíð enda eftir miklu að slægjast.
Gjaldið gat hins vegar orðið dýrt og hafið
bæði gaf og tók. Það vekur furðu að oft var
hættan mest í lendingu.
„Lengst af reru menn á opnum árabátum
sem auðvitað þoldu illa mikinn sjógang en
hættulegast var þegar menn voru að koma
í land. Lendingin var hættuleg í briminu
og oft hvolfdi þá bátunum sem kannski
voru líka hlaðnir fiski og bátsverjar orðnir
þreyttir eftir langan róður. Þá voru sjómenn
ósyndir og áttu takmarkaða möguleika á
að bjarga sér ef þeir lentu í sjónum þegar
bát hvolfdi. Það segir reyndar sitt um þessa
grimmu baráttu við sjóinn að haft var á orði
að það væri skárra að sjómennirnar væru
ekki syndir því sundkunnáttan gerði lítið
annað en að lengja dauðastríðið. Engu að
síður fóru menn að leggja aukna áherslu
á að kenna sjómönnum að synda á fyrri
hluta síðustu aldar og á mörgum stöðum
voru byggðar sundlaugar í þeim tilgangi að
kenna sund.
Segja má svipaða sögu þegar menn fóru
að sigla og róa á stærri skipum, hættan var
alltaf mest þegar komið var að landi og
menn urðu að vara sig á klettóttri strönd
og vita hvar þeir voru staddir. Þannig má
kannski segja að sjóslys hafi verið tíðust
þegar siglt var að landi, lendingin var
hættulegust eins og kannski í fluginu í dag.
Ekki síst þess vegna voru vitarnir svo mikil-
vægir og þaðan kemur nafn sýningarinnar;
Leiðarljós að lífhöfn.
Við göngum út í sólina og virðum fyrir
okkur hafið sem er stillt í dag. Það geymir
sögu sem er mikilvæg okkur Íslendingum
og sérstaklega stór á Suðurnesjum. Það er
því mikilvægt að henni séu gerð skil og ég
hvet sem flesta til þess að kynna sér hana
þegar sýningin opnar aftur næsta vor.
Dagný Maggýjar